Frjálshyggjumenn, hér á landi sem og víðar, eiga það til að halda að það að vera hægrimaður sé það sama og að vera frjálslyndur, þetta tvennt sé óaðskiljanlegt og haldist fullkomlega í hendur. Dæmi um slíkan misskilning má finna hér http://blogg.frjalshyggja.is/archives/2005/03/index.php undir “Eru frjálshyggjumenn öfga-vinstrimenn?”. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum þar sem jaðarhægrimenn halda slíku fram. Sannleikurinn er hins vegar sá að það helst ekkert í hendur að vera hægrisinnaður og að vera frjálslyndur þótt það geti farið saman. Dæmi um frjálslynda hægrimenn eru Milton Friedman, Adam Smith, Friedrich von Hayek og fleiri frjálshyggjumenn. Hins vegar eru líka til hægrimenn sem eru stjórnlyndir, eða vilja frjálshyggjumenn annars meina að hægrimenn á borð við George Bush, Condoleezzu Rice, Margaret Thatcher, Jörg Haider, Jean-Marie Le Pen, eða, guð sé oss næstur, Adolf Hitler, séu eða hafi verið frjálslyndir?
Þegar rætt er um hægri öfgahópa eða -flokka, er oftast átt við stjórnlynda hægrimenn sem vilja meðal annars sporna við innflytjendastraumnum en ekki jaðarfrjálshyggjumenn.
Það að flokka fólk eftir hægri-vinstri skalanum segir ekkert um hvort fólk er frjálslynt eða stjórnlynt, heldur þarf til þess y-ásinn.
Ég hvet alla til að taka þetta próf www.politicalcompass.org , það segir ykkur hvar þið eruð bæði á hægri-vinstriskalanum og frjálslyndis-stjórnlyndisskalanum. Að vísu er þetta bandarískt próf þannig að miðjan gæti verið aðeins lengra til hægri en við eigum að venjast.
Hvaða niðurstöður fáið þið?