Hér er sagan um mína hugmyndafræðilegu þróun seinastliðin 20 ár.

Þegar ég var 8 ára gaf amma mér myndskreytta biblíu, ég heillaðist algjörlega af hugtakinu í sambandi við sköpun. Stórar myndir af risum, eldgosum, englum, eldglæringum. Hellingur af action. Ég varð algjörlega bókstafstrúa og algjört pain in the ass. Ég lærði utanbókar ættartölur og sögur upp úr biblíunni og hóf að predika. (Og þetta var á sama tíma og allir aðrir krakkar höfðu æði fyrir körfuboltaspilum).
Jæja, guði sé lof var þetta bara stig. 9 ára var ég búin að gleyma öllu um guð og þegar ég fermdist tók ég að fyrirlíta kristna trú. Ég skrifaði hatrömm ljóð gegn kristni, brenndi biblíuna mína og nýtti mér hvert tækifæri sem gafst til að rífast við kristna um trú þeirra…

Þegar ég var 14 ára, þá heillaðist ég af kommúnisma. Það var í raun ekkert erfitt, ég var að leita að einhverju sem hægt væri að heillast af, einhverri hugsjón og það vildi svo til að þegar ég var að lesa einhverja sögubók rakst ég á tilvitnun í kommúnistaávarpið.
Ég fann kommúnistaávarpið, las það og varð harðlínukommi.

15 ára að aldri, hafði ég smitað fullt af fólki af kommúnisma (ekki á þann máta að þetta sé sjúkdómur, bara það að ég sannfærði vinahópinn í kringum mig).
Þá tók mér að leiðast þetta, mér fannst eins og í kommúnisma þá væri of lítið sjálfræði, og þetta var á tíma þegar ég var stöðugt að berjast fyrir meira sjálfræði. Að auki voru fullt af eldri ættingjum mínum kommar.

Svo, ég lýsti því yfir að ég væri anarkisti. Þetta var svona mest til þess að vera frábrugðin öðrum, á þeim tíma fann ég mér skræpóttan jakka, gekk um í jakkafötum með skærgulan trefil, safnaði síðu hári, stofnaði hljómsveit. (Æji þið þekkjið eflaust týpuna).

Næsta hugmyndafræðilega tímabil er ég ekki svo stoltur af, en ég ætla samt að deila því með öðrum hérna á Stjórnmálum. Ég varð þjóðernissinni. Að öllu leyti varð ég eins og fullt af öðru fólki sem skrifar inn á huga og ég er ekki frá því að því hafi fjölgað. Ég áleit að það væri óæskilegt að Íslendingar blönduðust, var á móti innflytjendum og hafði lúmskt dálæti á Hitler. Sagnfræði áhugi minn hafði kveikt á því.

Í dag finnst mér nasismi hlægilegur og ég er feginn því að ég var ráðinn í sumarstarf með fullt af innflytjendum sem voru duglegir og skemmtilegir. Í lok sumars var ég búin að ákveða að hvorki nasismi, anarkismi, né kommúnismi voru að gera það fyrir mig. Ég stefndi rakleiðis í átt til miðju.

Um haustið gekk ég í Unga Jafnaðarmenn. Ég losaði mig líka við allt síða hárið mitt og breytti því í hanakamb. (Sem hefur lítið með skoðanir að gera en mest því hversu athyglissjúkur ég get verið).

Ég hætti að mæta á fundi með ungum jafnaðarmönnum eftir að ég og nokkrir aðrir drengir stálum kassa af bjór frá einu fyllerískvöldi úr því húsnæði sem samfylkinginn hafði skaffað okkur.

Nú var ég krúnurakaður og skoðanalaus. Nokkrir hlutir breyttust hjá mér. Ég horfði á mynd um Gandhi, ákvað að kynna mér hann frekar og fyrsta sinn á ævi minni var ég kominn með átrúnaðargoð sem ekki var frægur fyrir fjöldatortímingu. (Guð, Napóleon, Alexander, Hitler…)
Og svo hlustaði ég mikið á John Lennon og bítlanna ofan á það.
Ég gerði tilraun til að gerast Búddisti, en entist ekki lengi. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að það gæti vel verið að eitthvað máttugt sé til að handan, en hvað sem það væri þá gæti ég aldrei sannfært sjálfan mig fullkomlega um tilvist þess.
Og trúlaus varð ég. Stuttu seinna fyrirgaf ég kristni fyrir að vera kristni og sættist við trúmál yfirleitt.

Næsta stóra stjórnmálastefna í lífi mínu var Frjálshyggja. Eftir nokkra kúrsa í hagfræði var ég komin svo langt frá kommúnisma að ég hefði getað verið fæddur í Kalíforníu. Ég las Adam Smith, Milton Friedman og þegar fjölmiðlafrumvarpið stóð sem hæst komst ég að niðurstöðu: Við ættum sjálf að ráða því hvað við gerum við peninganna okkar og jafnvel þeir stjórnmálamenn sem stefna að því að virða að frelsi eru óhæfir til þess um leið og þeir öðlast völd.

Ég gerðist frjálshyggjumaður. En eftir þessi seinustu Jól tók ég að efast um það einnig. Og nú stefni ég aftur í átt til miðju og veit ekkert hvar ég á eftir að enda. Ég er að pæla í að bara feta miðjustíginn, er það jú ekki leiðin til hamingju samkvæmt Búddha. (Ekki svara, ég veit að það er það sem Búddha sagði en ég veit líka að Búddha var ekki að tala um stjórnmál heldur meira um mataræði og hvort betra væri að vera ríkur eða fátækur). Hey, kannski var Búddha líka að meina að við ættum að forðast öfgar.

Ég veit ekki…Þetta er hugmyndafræðileg þróun Fabiliusar seinast liðin 20 ár. Ég býst ekki við endanlegri niðurstöðu á næstu árum.