Undanfarna tvo daga hefur Vladimír Pútín, forseti Rússlands verið í heimsókn í Þýskalandi. Hann var sóttur út á flugvöll og Gerhard Schröder kanslari tók vel á móti honum. Ekki orð um Úkraínu, ekki orð um ástandið í Tétsníu þvert á móti voru miklir kærleikar á milli þeirra. Í lok febrúar kemur George Bush Bandaríkjaforseti til Þýskalands. Hermt er að Þýskir ráðamenn hamri á því að sú heimsókn sé að undirlagi BNA manna og er búist við að samskiptin verði aðeins stirðari:
Þetta hef ég upp úr Staksteinum í dag. Staksteinar eru nálægt sjónvarpsdagskránni í mogganum og má segja að þeir séu nokkurs konar pólitískt málgagn moggans. Þeir hafa stöku sinnum nokkuð fyrir sér, hnyttnir og eftirtektar verðir, stundum tja…Er ég fremur ósammála þeim. En að þessu sinni vil ég taka undir boðskap Styrmis gamla.
Þjóðverjar hafa með tímanum hallast frá BNA, er það að mörgu leyti skiljanlegt. Bandamenn þeirra og vinir úr fornri tíð krefjast stundum nánast skilyrðislausrar hlýðni og virðast ekki kunna neitt sérlega að meta gagnrýni. Þeir virðast hættir að kunna að meta almenn mannréttindi og umhverfisstefna þeirra er hættuleg gagnvart okkur öllum.
Í dag kallar kanslari Þýskalands BNA menn bandamenn í ræðum, áður voru það vinir. Í dag kallar kanslarinn Rússa vini, áður var það eitthvað allt annað.
En eru Rússar vinir? Jú vissulega getum við ekki annað en litið á Rússnesku þjóðina sem vini okkar, þeir eru jú manneskjur eins og við og BNA menn. En getum við kallað Rússnesku ríkisstjórnina vinveitta.
Pútín hefur vissulega skrifað undir Kyoto bókunina sem er mikilvægt skref í átt til þess að forðast miklar náttúruhörmungar. En hann hefur hlutað til í innanlandsmálum annara sjálfstæðra ríkja. (Hvernig myndi fólk bregðast við ef BNA menn hegðuðu sér eins?)
Rússar virða ekki mannréttindi í Tétsníu, þeir rétt eins og BNA menn hafa fellt þau niður í baráttu gegn hryðjuverkamönnum. Stutt er síðan þeir notuðu eiturgas sem var ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum til að binda enda á gíslatöku. (og drápu um leið fjölmarga gísla). Það er alveg ljóst að ástæða þess að Tétsnía hefur ekki fengið sjálfsstæði eins og t.d. Eystrasaltslöndin eru miklar námu og olíu auðlindir landsins.
Afhverju skammast fólk ekki í Rússum eins og BNA mönnum. Ég skora á fólk að fara skrifa greinar til að gagnrýna ástandið í Tétsníu rétt eins og það gagnrýnir Írak. Og ég skora á fjölmiðlafólk að flytja fréttir frá baráttu stærsta ríkis í heimi gegn hryðjuverkamönnum í stað þess að einblína bara á það voldugasta.
Pútín er að verða einvaldur í Rússlandi, það setur hann skör ofar Bush á óþokkalistanum mínum. Ekki það að ég haldi að Bush vilji ekki verða einvaldur, það bara vill svo til að Pútín er að gera það. Hann á nú meirihluta fjölmiðla í landinu og bannar þeim stærsta (og ríkisrekna) að fjalla um stjórnarandstöðuna. Hann ræðst gegn öllum sem ógna valdi hans eins og þeim sem hafa orðið óþægilega ríkir. Hann hefur lýst stuðningi við stjórn Hvíta Rússlands, sem bara svo við minnumst á það var að leyfa forsetanum að halda áfram að vera “forseti” þrátt fyrir að löglegri valdasetu hans sé lokið.
Hvað segir þetta okkur um Pútín?