(eftirfarandi grein birtist upphaflega á blogginu mínu, www.einarsteinn.blogspot.com og er á forsíðu www.vinstri.is þegar þetta er skrifað. Vona ég að hún verði til að vekja til umhugsunar og málefnanlegra umræðna)

Um daginn hélt Þjóðarhreyfingin fund sem ég komst því miður ekki á. Megin inntak hans var að safna fé til að birta grein í New York Times þar sem heimsbyggðin gæti séð raunverulega afstöðu íslensku þjóðarinnar til stríðsins í Írak. Greinina má finna á www.thjodarhreyfingin.is. Þjóðarhreyfingin mótmælir aðferð utanríkisráðherra og forsætisráðherra er þeir lýstu stuðningi við stríð í Írak án þess að bera málið undir Alþingi og ríkisstjórn og heimfærðu vilja sinn upp á þjóðina. Hér er lýðræði virt að vettugi og brotið á stjórnarskránni. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn stríði en nú eru hendur okkar blóði drifnar, með stuðningnum erum við samsek og berum ábyrgð á fjöldamorðum, niðurlægingu og kúgun saklausra borgara, manna, kvenna og barna. Með stuðningnum lýsir ríkisstjórn einnig velþóknun á að alþjóðalög og almenn mannréttindi séu brotin.

Hæstvirtur utanríkisráðherra er ávallt jafn smekklegur, svo próper og indæll séntilmaður. Hann kallar Samfylkinguna „Afturhaldskommatittsflokk“. Hroki og ósvífni hæstvirts ráðherra virðist fá takmörk sett. Hann hefur einnig talað um „meinfýsishlakkandi úrtölumenn“ og á þá við… Alþingi? Meirihluta þjóðarinnar? Er það svona sem hann hugsar um þjóðina sem hann á að þjóna? Valdið kemur frá fólkinu. Við erum ekki þegnar, heldur úthlutar þjóðin valdinu til ráðamanna og veitir þeim umboð að vinna í þágu þjóðarinnar.

Ég leyfi mér að vitna til annarar klausu sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, þar sem segir:


We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness. –That to secure these rights, Governments are instituted among Men, deriving their just powers from the consent of the governed, –That whenever any Form of Government becomes destructive of these ends, it is the Right of the People to alter or to abolish it, and to institute new Government, laying its foundation on such principles and organizing its powers in such form, as to them shall seem most likely to effect their Safety and Happiness. Prudence, indeed, will dictate that Governments long established should not be changed for light and transient causes; and accordingly all experience hath shewn, that mankind are more disposed to suffer, while evils are sufferable, than to right themselves by abolishing the forms to which they are accustomed. But when a long train of abuses and usurpations, pursuing invariably the same Object evinces a design to reduce them under absolute Despotism, it is their right, it is their duty, to throw off such Government, and to provide new Guards for their future security. —

Ég vona að menn geti verið þessu sammála. Þegar ríkisstjórnin er hætt að vinna í þágu fólksins er það réttur og skylda þess að rísa upp. Hér er ekki um að ræða neitt smámál. Hér er um að ræða að lýðræði er tekið af þjóð, þingi og ríkisstjórn, stjórnarskrá brotin og þjóðin er nauðug flekkuð blóði. Meira en 100.000 Írökum hefur verið slátrað í okkar nafni.

Annars er það merkilegt hve enn er alið á „Rauðu -hættunni“ og menn stimplaðir. Enn eimir af kaldastríðshugsuninni og nornaveiðum McCarthy. „Ekki hlusta á þennan. Hann er kommi. Hann er samsæriskenningamaður. Hann er hættulegur. Í gapastokkinn með hann“. Hin aðferðin, sem er kannski nýrri, er svo að neutralísera okkur, stimpla okkur sem rugludalla sem mála skrattan á vegginn en erum í raun sauðmeinlaus. En niðurstaðan verður sú sama; ekki taka mark á orðum okkar. ,,Þeir segja að ég hafi vit til að velja þá, en ég hafi ekki vit til að hafa vit fyrir mér”, eins og skáldið sagði.

Maður gæti svo horfið lengra aftur í tímann og fundið önnur líkindi. Galdrabrennur miðalda þegar gífurlegur fjöldi saklauss fólks var drepið. Í þá daga var nóg að segja yfirvöldum að þú grunaðir náunga þinn um kukl og hann var vís til að vera sendur í dauðann. Oftast voru þetta gömul og fátæk kerlingarhró sem voru brennd á báli. Einnig gast þú átt fótum þínum fjör að launa ef þú varst svo ógæfusöm/samur að fæðast með vörtu, aukatá eða annað líkamslýti. En enginn skal segja að menn hafi ekki beitt fagmannlegum vinnubrögðum til að úrskurða hvort viðkomandi væri að daðra við djöfulinn eður ei. Þú varst bundin(n) á höndum og fótum, fleygt út í vatn og ef þú drukknaðir þá varstu saklaus og frjáls ferða þinna. Ef þú flaust varstu norn og brennd á báli. Einnig hefði mátt reyna Monty Python-aðferðina og athuga hvort þú vægir meira en önd.

Bróðir minn skrifar góða grein á blogginu sínu, www.vangaveltur-vesteins.blogspot.com og hann kallar: „Lýðræði: að geta og gera“. Ég er sjálfur orðinn dauðþreyttur á aðgerðaleysi íslensku þjóðarinnar. Þjóðarsálin er í eðli sínu kvartsár rola sem gerir aldrei neitt í málunum. Saga okkar einkennist af því að við látum vaða yfir okkur. Við tuldrum í barm okkar, fárumst yfir kaffibollum, skrifum stundum í blöð eða aðra miðla, nöldrum og kvörtum um stund en hættum því síðan og málið gleymist. Íslendingar eru nefnilega einnig meistarar í að gleyma hlutum. Ef við kveinkum okkur endalaust en gerum aldrei neitt til að breyta ástandinu höfum við sjálf kallað það yfir okkur og höfum engan rétt til að kvarta.Við hugsum líka oftast um eigið skinn og bíðum þess að einhver annar taki af skarið. Enda er máltækið ,,þetta reddast” jú einkunnarorð Íslendinga. En verra er svo fólkið sem er sama. Hvort það lifir í þvílíkri blekkingu eða veit hvernig málin standa og er sátt við það, veit ég ekki en ég játa að ég á bágt með að skilja hvernig er hægt að horfa upp á hörmungarnar í Írak og gleðjast. Ef okkur er ekki sama en gerum ekkert kemur það í sama stað niður. Ýmsir ímynda sér kannski að þeir geti ekki haft áhrif, enda vill fólkið með völdin gjarnan telja okkur trú um það að einstaklingurinn skipti ekki máli. Það er lygi! Sérhver maður getur haft áhrif, það er skylda hans ef hann vill breyta einhverju. Annars hefur hann fyrirgert rétti sínum til lýðræðis.

Sápukaupmaðurinn Samuel Phelps sigldi að Íslandsströndum 1809 með 3 skip , steig á land með fámennt lið vopnaðra manna og hafði með sér túlk sinn Jörgen Jörgensen. Stiftamtsmaðurinn Trampe hafði bannað Íslendingum að versla við Breta svo Phelps og liðsmenn hans tóku stiftamtmann fastan. Þá hafði Phelps frjálsar hendur til verslunar og til að hafa stjórn í landinu fól hann Jörgen stjórnina. Varð Jörgen betur þekktur sem Jörundur Hundadagakonungur. Hvað gerðu Íslendingar til að reyna að hindra valdatökuna? Ekkert!

Jörgen reyndist svo ágætur stjórnandi og var umhugað um hag Íslendinga. Hann vildi að Íslendingar væru sjálfstæðir, gætu verslað frjálst, vildi veita þeim gífurlega skattalækkun og veita þeim ,,frið og fullsælu”. Hann vildi einnig að menn hefðu jafnan kosningarétt, óháð eign. Hann vildi að 8 ,,dugandi og skynsamir menn” settu lög og rituðu stjórnarskrá og að Íslendingar réðu sér í raun sjálfir.

En Íslendingar kunnu ekki gott að meta og honum varð ekki af ósk sinni. Var þetta hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem Íslendingar hunsuðu þann sem vildi greiða veg þeirra. Eins var það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem Íslendingar létu sig ekki varða þau málefni sem viðkoma þeim og sátu aðgerðalausir.

Sjálfhverfa hefur einkennt Íslendinginn lengi, að hugsa fyrst og fremst um eigið skinn.

Dæmi um þá sjálfhverfu má nefna þegar bandarísk flugyfirvöld ræddu að fækka herliði á vellinum urðu háværar raddir um framtíð atvinnulífs í Keflavík. EINS OG ÞAÐ SÉ HÖFUÐMÁLIÐ! Ég er orðinn dauðþreyttur á svona helvítis aumingjavæli. Hér er verið að ræða varnarmál sem skipta sköpum fyrir þjóðina og kemur inn á túlkun Keflavíkursamningsins og stöðu þjóðarinnar í herbandalaginu NATO. Ef Keflavík getur ekki haldið uppi íbúum sínum er hennar vandamál en ekki hersins. Herinn er ekki þarna til að halda uppi atvinnulífi í Keflavík.

Við erum hrædd við breytingar og hugsum um eigið skinn. Við bíðum eftir að einhver annar geri eitthvað og ætlum að njóta góðs af hitunni. Þjóðarsálin er værukær. Við erum að verða feitu þjónarnir sem Arnas Arnæus talaði um í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness og lauk ræðu sinni á þessum orðum ,,Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barinn þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima”.
Annar merkur íslenskur rithöfundur, Gunnar Gunnarsson lýsti svo tilfinningum sínum gagnvart fyrri heimstyrjöldinni: …þessi styrjöld á næstu grösum bylti um koll vaknandi trausti mínu til framtíðar og forsjónar, sneri með hrottagalsa ærðra undirdjúpa dýrðaróði lífsins í djöflasæringu …Sál mín varð sem sviðið land, saurgað fúlum valköstum, hver urinn akur minnti mig á skotplægða mold, mengaða nýsundurtættum mannahræjum. Mér blæddi inn.
Því miður hefur ekki margt breyst. Við höfum ekki gengið götuna eins til góðs og við vonuðum. Við höfum látið fólkið sem átti að vinna í okkar þágu brjóta á réttindum okkar og svíkja allt sem er helgast þjóð okkar. En það er ekki of seint að gera eitthvað. Nýtum afl okkar, tökum höndum saman, mótmælum þessari aðferð, þrýstum á ríkisstjórnina að hún láti af stuðningi við stríðið með orðum, skrifum og aðgerðum og nýtum atkvæðisrétt okkar. Við erum íslenska þjóðin og við höfum valdið. En með valdi kemur ábyrgð. Ábyrgð um að beita því rétt.

Einar Steinn Valgarðsson

Ps. Ef þú fengið nóg af því að hendur okkar séu blóði drifnar vegna stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við ólögmætt stríð í Írak, að þér forspurðum/forspurðri? Viltu gera eitthvað? Líttu á www.folkid.is