Sæll, Jón Kristjánsson.

Ég bið um þolinmæði við lestur þessa bréfs.

Ég er Íslendingur númer 2210804089, stundum viðurkenndur sem Helgi Hrafn Gunnarsson.

Ég sendi þér ábendingu vegna þess sem mér skilst að sé fyrirhugað að gera að frumvarpi til laga; reykingabanns.

Ég ætla ekki að mótmæla tillögunni í einu og öllu, en hinsvegar benda á að það eru fleiri sjónarmið sem þarf að taka tillit til, heldur en þá augljósu staðreynd að reykingar séu óhollar. Málið er flóknara en svo, þó að almenningur en sérstaklega stjórnvöld, sýni reykingafólki alveg sérstaklega lítið tillit.

Það er ein, og aðeins ein forsenda sem ég get tekið undir að sé marktæk í þessu efni. Það er að vernda þarf starfsfólk á vinnustað. Núna eru reglur í gangi sem banna fólki að reykja á vinnustöðum, nema á kaffihúsum og skemmtistöðum, þar sem reykingar teljast til eðlilegrar hættu við vinnuna. Það er sjónarmið sem ég tek undir, að vernda þurfi starfsfólk, en ég tek ekki undir að það eigi að gera það með hvaða aðferðum sem er. Beita verður víðsýni þegar kemur að slíku.

Að vernda þurfi gesti, er auðvitað algerlega fráleitt, þar sem enginn skortur er á reyklausum kaffihúsum, og enginn er neyddur til þess að sitja á kaffihúsi eða skemmtistað nema starfsfólk. Fólk þarf að vinna, og þarf þar að geta haft ferskt loft, en skemmtistaðir og kaffihús lúta öðrum grundvallarreglum, og eðlilega.

Gestir ráða ferðinni samkvæmt eigin geðþótta. Ef 75% landsmanna finnst þungarokkstónlist hræðileg, þá á ekki að setja bann við þungarokkstónlist, þar sem það er ákvörðun kaffihúsaeigandans sjálfs. Þetta hefði maður haldið að væri alveg borðliggjandi, en þegar það kemur að fólki sem kýs óvinsæla lifnaðarhætti, þá þykja hvaða aðgerðir sem er við hæfi, burtséð frá þeim óþægindum og réttindaskerðingu sem þær aðgerðir hafa í för með sér. Það sjónarmið, að mismuna eigi fólki samkvæmt lifnaðarháttum, er engu skárra en að mismuna fólki samkvæmt útliti, kynþætti, kynferði eða kyni. Sem dæmi vil ég nefna að Mexíkanar í Bandaríkjunum voru illa litnir vegna þess að þeir þóttu latir. Hefði það verið réttlátt að mismuna Mexikönum ef þeir hefðu raunverulega verið latir? Þeir voru það á þessum tíma! Þeir komu frá latri menningu! En þeir eiga SAMT að fá sama tillit í umræðunni og venjulegt hvítt fólk. Að sama skapi verður að taka tillit til reykingamanna, jafnvel þó þeir séu litnir hornauga. Um þetta fjalla mannréttindi.

Það gleymist að reykingafólk er ekki illa innrætt fólk sem er að reykja til þess að fara í taugarnar á öðrum. Reykingafólk reykir vegna þess að það á við skelfilegan sjúkdóm a stríða, sem heitir fíkn. Í sálfræði og læknisfræði finnurðu nánari skilgreiningu á þeim sjúkdómi, og hvet ég þig eindregið til þess að fletta því upp, hafir þú ekki þegar gert svo. Enginn ákveður að verða fíkill, allra síst á fullorðinsaldri þegar sá er kominn til þroska. Að refsa fólki ævilangt fyrir barnaskap í æsku finnst mér allt of langt gengið. Við reykingafólk gerðum þessi mistök í æsku, og við getum ekkert hætt að reykja þegar okkur sýnist, það eru allir sammála um það. Hinsvegar þykir ríkisvaldinu svo að fólk geti samt hætt þegar ríkisvaldinu sýnist. Ef ég get ekki hætt að reykja þegar MÉR sýnist, hvernig ætti ég að geta hætt að reykja þegar ÞÉR sýnist?

Ég er sjálfur reykingamaður sem hefur reynt að hætta margoft í mörg ár. Gallinn er sá að ég er að hætta (og mistakast) svo oft að það er bókstaflega farið að hafa verri áhrif á heilsu mína heldur en að einfaldlega reykja áfram. Á þessu er enginn skilningur, hvorki á meðal stjórnvalda né almennings. Hjá mér er fullur hugur á að hætta að reykja, en eina lausnin sem ríkisstjórn og þjóð eru tilbúin til að veita mér, er aukið áreiti gagnvart mér. Í stað þess væri nærri lagi að gera reykingafólki auðveldara fyrir að hætta, og er margt hægt að gera í þeim efnum án þess að taka til svo róttækra aðgerða sem bann er.

Vissulega er fólk sem reykir, oftar fólk sem er ekki að ganga best í lífinu, enda oft forsenda þess að það byrjar að reykja til að byrja með sú að það er ekki fullkomlega sátt við það þjóðfélag sem það býr í. Þetta veldur því að til stjórnvalda kemst almennt fólk sem reykir ekki. Þetta hefur þann skiljanlega, en leiðinlega galla í för með sér að fólkið sem stjórnar landinu, hefur enga samúð með reykingafólki og nákvæmlega ekki neinn skilning á vandanum fyrir þeim sem reykir. Eingöngu er tekið tillit til vandamála þeirra sem reykja EKKI. Það er miður, þar sem vandamál tengd reykingum lenda fyrst og fremst á reykingafólki sjálfu, ekki þeim sem reykja ekki (þó að óbeinar reykingar séu vissulega þáttur í umræðunni).

Það þykir mér leitt og sorglegt að sjá Framsóknarmann, sem að öllu jöfnu hefði staðið fyrir sátt og málamiðlunum, fyrir svo róttækum og algerlega óþörfum breytingum. Ef nota á það sem rökstuðning að 75% þjóðarinnar vilji reyklaus kaffihús, þá er það markaðarins að sjá um það, sem og hann mun gera, og ER að gera. Að neyða þessa þróun áfram í gegnum ríkisvaldið er ekki rétta leiðin, jafnvel þó hún hafi virkað í Noregi og Írlandi. Um er að ræða siðferðislegt atriði að hluta til. Það svínvirkaði í Kína að skjóta einfaldlega ópíumneytendur, en hvort er þá meira vandamál, ópíumið, eða viðbrögð samfélagsins við því?

Hugmynd 1.

Eitt sem ríkisstjórnin getur gert til þess að sporna gegn reykingum, er að leyfa meðferðarvörur í sjoppum og búðum. Þá er ég að tala um nikotínplástra, nikotíntyggjó, nikotín-tungurótartöflur og nikotín-stauka svokallaða (sem eru notaðir á mjög svipaðan hátt og tóbak, án reyks). Alltaf kemur það upp í umræðuna að þá fari börn að nota þetta, en það er bara ekki neitt sem bendir til þess að svo fari, í fyrsta lagi vegna þess að það er ekkert “kúl” við það að vera með einhverja töflu undir tungunni, plástur á handleggnum og hvað þá nikotín-staukinn, þar eð hann er vægast sagt mjög asnalegur fyrir ungdómnum og mun alltaf vera. Ennfremur eru þegar sígarettur seldar í búðum og sjoppum, sem eru mun meira tælandi fyrir börn og unglinga heldur en nánast algerlega skaðlausar nikotínvörur. Ennfremur er mun skárra að einhver verði háður venjulegum nikotínvörum heldur en tóbaki, þar sem nánast engir slæmir fylgifiskar reykinga, koma vegna nikotínsins, heldur vegna aukaefna í tóbaki.

Þetta er það mikilvægasta. Ég fullyrði hiklaust að þetta hefði mun betri áhrif á reykingamál heldur en nokkurt bann við nokkurri neyslu. Ennfremur myndi hún miklu frekar valda sátt, og með þessu væru kaffihús sem LANGAR til þess að verða reyklaus, í mun betri aðstöðu til þess að vera samkeppnishæf við reykkaffihúsin, með því að selja nikotínvörur á staðnum, sem reykingafólk getur þá notað tímabundið á meðan það er á tilteknu kaffihúsi. Fólk verður að gera sér grein fyrir því að algert nikotínleysi á kaffihúsum og skemmtistöðum, þar sem fólk kemur til að slappa af og skemmta sér, er ekki valmöguleiki fyrir reykingamann. Fíkn er ekki þess eðlis að það sé hægt að slökkva á henni tímabundið.

Vandinn við nikotínvörur fyrir reykingamönnum er tvíþættur; það er fyrst og fremst aðgengi, en einnig verð. Verðið verður að lækka, og er ég fullviss um að stjórnvöld geta átt mikinn þátt í því, þar eð skattpíningar eru eflaust í gildi við þær vörur eins og flest annað hérlendis.

Hugmynd 2.

Lögbinda má áhættuþóknun eða tryggingar fyrir fólk sem vinnur innan um reyk. Það væri mun eðlilegra fyrir hagsmuni fólks sem vinnur innan um reyk, heldur en að einfaldlega banna hættuna sjálfa. Þar með er öllum hagsmunum þjónað. Viðskiptavinir staðanna hafa lengi haft val um reykleysi, og þeim er engin vorkunn fyrir að vilja pranga sér inn á staði sem þeim er illa við. Það er bara eins og ef þú færir sjálfur inn á einhvern þungarokksbar, og vildir bara að barinn breytti högum sínum fyrir þig, frekar en að þú færir einfaldlega á stað sem væri þér meira að skapi. Um þetta hljóta fullorðnir menn að vera sammála.

Hugmynd 3.

Að kaffihúsum og skemmtistöðum sé leyft að heimila reykingar að því gefnu að almennileg (og ég meina ALMENNILEG) loftræsting sé til staðar. Jafnvel mætti lögbinda að starfsmaður hafi rétt á að starfa ekki á þeim svæðum staðar þar sem loftræsting er ekki við hæfi. Flest kaffihús eru með óviðunandi loftræstingu fyrir starfsfólk, og myndi þá bann gilda um þau, en þeir staðir sem hefðu hana, fengju ennþá svigrúm til þess að þjóna hagsmunum reykingamanna, án þess að starfsfólk verði fyrir hættu.

Gott dæmi um þetta er á Hvammstanga. Þar er bar/kaffihús/skemmtistaður, sem er mestmegnis reyklaus, en svæði er samt til staðar þar sem reykur sleppur ekki út, og þangað fara bara reykingamenn, þar eð enga þjónustu er þar að fá. Sitji maður við reyklausa svæðið kemur maturinn til manns, en sitji maður við reyksvæðið, þá verður maður að sækja matinn sjálfur. Þetta þjónar öllum hagsmunum og um þetta er mikil sátt. Þetta væri mun Framsóknarlegri lausn heldur en eitthvert heilagt stríð við reykingafólk.

Vissulega hafa ekki allir staðir færi á því að vera með sérstakt reyksvæði, en það hafa allir staði færi á almennilegri loftræstingu, og ellegar mætti svosem banna þeim að heimila reykingar, fyrir hönd starfsmanna. En aldrei má banna reykingar fyrir hönd gesta, þar eð það er ekki þeirra val hvaða húsreglur gilda á mínum stað frekar en mínu heimili, sama hver fjöldi þeirra er.

Og að lokum,

er ég sjálfur reykingamaður og dauðsé eftir því að hafa byrjað eins og nánast allt fullorðið fólk sem reykir. En ég er orðinn nokkuð þreyttur á algeru skilningsleysi stjórnvalda og almennings á því að þetta er ekki bara vandamál þeirra sem reykja ekki, þetta er fyrst og fremst vandamál okkar sem reykja, og fyrir utan það, þá á fólk að hafa rétt á því að ráða sínum málum, jafnvel þegar illa fer. Heima hjá mér reyki ég ef mér sýnist, og kaffihús eiga að sjálfsögðu að hafa sama rétt til þess að setja eigin húsreglur.

Helsta vandamál okkar reykingamanna, er að í staðinn fyrir að nota hjálp til þess að leysa vandamálið, er notað áreiti og stundum hreinlega kúgun, eins og fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda með banni. Sama hversu óhollar reykingar eru, þá er það kúgun og ekkert annað, að grípa inn í hagsmuni reykingfólks með þessum hætti, og brýtur í bága við allar grundvallarhugmyndir lágmarks frelsis. Ég ítreka að ég er ekki að verja reykingar, heldur rétt manna til að reykja. Ég er t.a.m. á móti því sem þú hefur sagt í þessu efni, en ég mun verja til dauðans rétt þinn til að segja það.

Ef svo væri ekki, mætti réttlæta ríkisafskipti af hverju sem er.

Mér þætti gaman að fá að sjá viðbrögð þín við þessum hugmyndum. Þessar hugmyndir eru ekki settar fram í árásarhug, heldur þvert á móti, til þess að auka sátt og samlyndi samborgara okkar.

Þetta land er alveg nógu stórt fyrir okkur öll.

Með kveðju,
Helgi Hrafn Gunnarsson
helgi@binary.is