*** Þetta birtist upprunalega sem svar við annarri grein. Svarið var orðið að algerlega sjálfstæðu efni svo ég sendi það inn sem grein. ***

Ég er mjög hlynntur beinna lýðræði, og hefur mér í mörg ár fundist lýðræðið á Íslandi verulega gallað að mörgu leyti. Þegar ég tala um þetta, eru rökin sem ég fæ gegn beinna lýðræði yfirleitt þau sömu.

Því ætla ég að hrekja nokkrar algengar fullyrðingar snöggvast.

1. “Enginn myndi nenna að kjósa”
Ég hef nokkurt gegn þessu.

Þá myndi þingið einfaldlega ráða. Þetta væri frekar öryggisventill þar sem ákveðið umdeild málefni væri kosið um. Dæmi um þetta í nútímanum er Sviss þar sem 1% kosningabærs fólks þarf að mótmæla formlega til þess að þjóðin fái að kjósa um það.

Þjóðin hefur ekki áhuga á því að kjósa um það sem það fær ekki að kjósa um. Menn fóru ekki að kynna sér fjölmiðlafrumvarpið hérna af neinu viti fyrr en forseti neitaði að skrifa undir og kastaði þar með draslinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Enda vissi fólk sem var rétt… að það skipti engu máli hvað því fyndist.

2. “Fólkið hefur ekkert alltaf rétt fyrir sér.”
Þetta finnst mér með verri röksemdafærslum.

Stjórnmálamenn hafa heldur ekkert alltaf rétt fyrir sér. Enginn hefur alltaf rétt fyrir sér, og það er í góðu lagi þó að einhverjar slæmar ákvarðanir séu teknar af og til, því það gerist af og til hvort sem er. Það er óumflýjanlegt. Sviss er eitt besta dæmið, það fara fáir að segja að Sviss sé illa stjórnað.

Ennfremur hefur fólk ekki áhuga á því að kjósa um það sem það hefur engan áhuga á, og þar með ekkert vit. Þeir sem hafa áhuga á málefninu kynna sér það, og eru þá líklegri en hinir til að kjósa. Til dæmis hefði fólk lítinn áhuga á því að stjórna því upp á prómíl hvernig skattamálum væri hagað, vegna þess að fólk gerir sér grein fyrir því að það veit ekkert um það. Það eru ÁLITAMÁLIN sem þyrfti helst að kjósa um. Kárahnjúkar, stríðið í Írak o.s.frv., þar sem enginn hefur raunverulega “rétt” fyrir sér hvort sem er.

“Beint lýðræði er of flókið”
Sviss hefur verið með beint lýðræði í sinni núverandi mynd síðan 1848. Þetta var ekki ásláttarvilla, ég skrifaði átjánhundruð-fjörutíu-og-átta. Það segir mér enginn að þetta sé of flókið. Fólki sem finnst þetta flókið, hefur einfaldlega ekki hugmynd um hversu flókin stjórnmál almennt séu, og því ekkert meiri ástæða til að hika við þetta en nokkuð annað.

Nútímatækni er alveg nóg til þess að gera þetta mun auðveldara. Ég er forritari og kerfisfræðingur sjálfur, og ég veit það fyrir víst að það er hægt að gera rafrænar kosningar að raunveruleika án merkilegra öryggisógnana (allavega engu fleirum en eru til staðar nú þegar).

“Beint lýðræði er of dýrt”
Jájá, fulltrúalýðræðið er líka fokdýrt. Ennfremur mannréttindi; það væri hægt að spara helling af peningi með því að leyfa lögreglumönnum einfaldlega að pynta grunaða til að kjafta frá. Það væri líka lang ódýrast að farga öllum geðsjúkum, fötluðum, gyðingum… skilurðu mig? Ef peningar eru langstærsta issuið í svona grundvallaratriðum, erum við á hálum ís.

Ennfremur er nákvæmlega ekki neitt sem bendir til þess að þetta væri neinu kostnaðarsamara en hvað annað sem ríkisstjórnin gerir núna. Hundruðum milljóna er eytt án þess að almenningur hafi hugmynd um það, svona hlutir eru dropi í hafi.

Getur einhver komið með raunverulega ástæðu fyrir því að gera ekki lýðræðið beinna á Íslandi? Það er ekki eins og það væru tímamótabreytingar í heimsstjórnmálum, margir gera þetta og engir, fullyrði ég, þannig að þeir sjái eftir því.

P.S.
Í Grikklandi til forna voru menn reyndar NEYDDIR til þess að kjósa, hvort sem þeim líkaði betur eða ekki. Það dæmi er því ólíkt því sem við erum að tala um í grundvallaratriðum, og óhæft til samanburðar við hugmyndir nútímans.