Föstudaginn síðasta, 6. ágúst nánar tiltekið, birtist frétt á áberandi stað í Fréttablaðinu þar sem fjallað var um nýjar reglur sem fylgja skal við nýskráningar inn í Sjálfstæðisflokkinn. Er frétt þessa efnis góð og gild og ekkert nema gott um hana að segja að því leiti en þó er annað sem stingur í stúf og veldur mér töluverðu hugarangri.
Í fyrsta lagi ber að nefna að ég hef öruggar heimildir fyrir því að höfundur fréttarinnar sé Sigríður Auðunsdóttir sem reynist svo aftur vera systir Helgu Kristínar Auðunsdóttur, sem er í framboði með Bolla Thoroddsen.
Látum vera þó Sigríður telji sig hafna yfir hagsmunatengsl og getur svosem vel verið að hún geti með nokkuð öruggum hætti staðið hlutlaus að fréttaflutningi þeim sem hún lætur frá sér. Það er þó ekki þannig því í fréttinni verður hún uppvís að því að hafa rangt eftir Atla Rafni Björnssyni (auk þess að rangfeðra hann), núverandi formanni Heimdallar.
Einnig hef ég öruggar heimildir fyrir því að Sigríður hafi hringt í meðlimi síðustu stjórnar Heimdallar og spurt þá hvort Helga Árnadóttir hafi verið höfð með í ráðum þegar ákvörðun var tekin um að fresta inntöku nýrra meðlima fyrir síðasta aðalfund. Hefur hún í þeim samtölum fullyrt að hún hafi fengið staðfest frá “tveimur” stjórnarmeðlimum þess árs að Helga hafi verið í símasambandi við stjórnina þegar ákvörðun var tekin, þó að ljóst sé að enginn fótur sé fyrir þeirri fullyrðingu hennar.
Þegar þetta liggur ljóst fyrir má velta fyrir sér hvað Sigríði gengur til en tengsl hennar eru mikil við hinn svokallaða “Deigluhóp”, að minnsta kosti ákveðna aðila innan hans þó óþarfi sé að fara nánar út í þá sálma.
Virðist Sigríður ætla að beita aðstöðu sinni á Fréttablaðinu í pólitískum tilgangi og brjóta með því Siðareglur blaðamannafélagsins. Má t.a.m. ætla að 5.gr. siðareglnanna gæti náð yfir þetta framferði hennar þar sem m.a. segir:
“blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum
þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda”