Nú í kjölfar forsetakosninganna hefur hver pólitíkusinn á fætur öðrum verið að lýsa þeim tölum sem komu upp úr kjörkössunum. Þeir sem hallast til hægri segja að mikil gjá sé á milli forseta og þjóðar og þessi úrslit séu áfellisdómur yfir verkum Ólafs. Aðrir segja, og eru það þeir sem hallast til vinstri, að þetta sé hreinn og beinn sigur fyrir Ólaf og styrki umboð hans til næstu fjögurra ára. En hvað segja tölurnar okkur um þetta allt saman? Hvort er rétt? Var Ólafur að vinna stórsigur eða voru þessar kosningar áfellisdómur yfir honum?
Ef við lítum á tölurnar sem komu upp úr kjörkössunum þá er, samkvæmt gamla mælikvarðanum á kosningar, þ.e. þegar auðir og ógildir seðlar eru taldir saman en ekki taldir með, Ólafur Ragnar Grímsson með 90.662 atkvæði sem er um 85,5% gildra atkvæða, Baldur Ágústsson með 13.250 atkvæði sem er um 12,5% gildra atkvæða og Ástþór Magnússon með 2001 atkvæði sem er um 1,8% gildra atkvæða.
Svo ef við lítum á nýja kerfið sem sjálfstæðismenn fóru sérstaklega fram á við kjörstjórn að yrði tekið upp í þessum kosningum, þar sem auðir seðlar eru sérstaklega taldir með þá lítur þetta svona út: Ólafur Ragnar Grímsson með 90.662 atkvæði sem er um 67,8% atkvæða, Baldur Ágústsson með 13.250 atkvæði sem er um 9,9% atkvæða, Ástþór Magnússon með 2001 atkvæði sem er um 1,4% atkvæða og auðir seðlar voru 27.627 eða um 20,6% atkvæða.
Næsta dæmi er af fyrirmynd Davíðs Oddssonar forsætisráðherra sem ég heyrði í viðtali við hann í fréttum sunnudaginn 27. júní 2004 þegar hann sagði að ef miðað væri við heildarfjölda þeirra sem væru á kjörskrá, væri Ólafur ekki með nema um 42,4% atkvæða og myndi þá dæmið líta svona út: Ólafur Ragnar Grímsson með 90.662 atkvæði sem er um 42,4% atkvæða, Baldur Ágústsson með 13.250 atkvæði sem er um 6,2% atkvæða og Ástþór Magnússon með 2001 atkvæði sem er um 0,9% atkvæða.
Eins og þið sjáið þá eru þessar tölur alveg hræðilega slæm útkoma, fara batnandi eða nei, kannski er þetta stórsigur fyrir Ólaf Ragnar. Hver veit?
En ef við lítum nú á aðrar kosningar sem fram fóru 10. maí 2003, þar sem Davíð lýsti því yfir að þau úrslit hefðu gefið ríkisstjórninni áframhaldandi umboð frá þjóðinni til næstu fjögurra ára. Rifjum nú upp fylgistölurnar eftir því kerfi sem þar var notað en þar voru B- listi Framsóknaflokksins með 32.484 atkvæði eða um 17,7% gildra atkvæða, D-listi Sjálfstæðisflokksins með 61.701 atkvæði eða um 33,7% gildra atkvæða, F- listi Frjálslyndaflokksins með 13.523 atkvæði eða um 7,4% gildra atkvæða, N-listi Nýs afls með 1.791 atkvæði eða um 0,9% gildra atkvæða, S-listi Samfylkingarinnar með 56.700 atkvæði eða um 30,9% gildra atkvæða, T-listi óháðra í Suðurkjördæmi með 844 atkvæði eða um 0,5% gildra atkvæða og U-listi Vinstrihreyfingar – græns framboðs með 16.129 atkvæði eða um 8,8% gildra atkvæða. Auðir seðlar voru um 1.873 eða um 1% og ógildir um 347 eða um 0,2% kjörseðla.
Svona litu úrslitinn út 10. maí 2003, en ef við uppfærum þetta með hinni nýju aðferð sjálfstæðismanna sem sjálfur formaður flokksins setti fram, þ.e. að telja með alla atkvæðisgilda menn hvort sem þeir mættu eða mættu ekki á kjörstað, myndi þetta líta svona út: B-listi Framsóknaflokksins með 32.484 atkvæði eða um 15,3% atkvæða, D-listi Sjálfstæðisflokksins með 61.701 atkvæði eða um 29,2% atkvæða, F- listi Frjálslyndaflokksins með 13.523 atkvæði eða um 6,4% atkvæða, N-listi Nýs afls með 1.791 atkvæði eða um 0,8% atkvæða, S-listi Samfylkingarinnar með 56.700 atkvæði eða um 26,8% atkvæða, T-listi óháðra í Suðurkjördæmi með 844 atkvæði eða um 0,3% atkvæða og U-listi Vinstrihreyfingar – græns framboðs með 16.129 atkvæði eða um 7,6% gildra atkvæða.
Ef þessar tölur eru skoðaðar í samhengi við þau orð sem Davíð lét falla í fréttaviðtali 27. júní, þá virðist, miðað við orð Davíðs, vera svipuð sátt um ríkisstjórnina og forsetann, en fylgi úr kosningunum 2003 var um 44,5% (211.289 manns voru þá á kjörskrá).
En ef við tökum sjálfstæðisflokkinn fyrir og lítum á að hlutfall þeirra sem ekki kusu hann, mættu ekki á kjörstað, skiluðu auðu eða ógiltu seðlana sína, þá virðist ekki vera nein sátt um flokkinn því hann nær ekki nema um 29,2% atkvæða.
Lítum í lokin á auðu seðlana, sem voru 27.627 eða um 20,6% atkvæða. Er það eftirtektavert að ef þó aðeins einungis um helmingur þeirra, sem eru sagðir skráðir flokksmenn í sjálfstæðisflokknum (samkvæmt heimasíðu sjálfstæðisflokksins), hefðu mætt á kjörstað og skilað auðum atkvæðum, hefði það verið nægjanlegt til þess að ná um 15.000 auðum atkvæðum. Ef við tökum nú þá sem kusu flokkinn í alþingiskosningunum 10. maí 2003, hefði ekki þurft nema 44,7% fylgismanna flokksins til að fá 27.627 auð atkvæði í kassana.
Það má því draga af þessu þá ályktun að áróðursherrar sjálfstæðisflokksins náðu svo sannalega til flokksmanna og jafn vel lengra og mögulega hafa þeir líka náð til veðurguðanna því ekki nenntu sumir á kjörstað sökum veðurs.
Eða hvað haldið þið?
S. Holmes
(Tölulegar heimildir; http://www.kosning2003.is/web
og www.visir.is)