Góðan dag!
Hvern mynduð þið vilja sjá sem forseta, hvern mynduð þið vilja sjá sem 4. frambjóðanda gegn þeim sem eru að bjóða sig fram? Ég er ekkert svakalega spenntur fyrir neinum af þessum þremur sem eru í framboði nú. Ég myndi vilja sjá einhverja manneskju, svipaða og Vigdísi Finnbogadóttur, sem forseta landsins og SAMEININGARTÁKN!
Hvernig væri t.d. Ólafur Jóhann, rithöfundur, mér líst vel á hann svona í fljótu bragði, mæli með honum í framboð eftir 4 ár þegar Ólafur Ragnar “hættir”. Annars eru eflaust margir sem eru ekki beint stórlega pólitískir sem gætu komið til greina og þjóðinni líkar vel við.
Mér líkar illa við þessa sundrungu sem hefur orðið í þjóðfélaginu og hvernig núverandi forseti er í miðri hringiðu deilumála. Múgæsing hefur verið þvílík undanfarin ár í mörgum málum að manni stendur bara ekki alveg á sama hvert stefnir, ég vil meina að uppspretta þessarar múgæsingar séu fjölmiðlar. Meira að segja er reynt að klína skít á Vigdísi Finnbogadóttur í fjölmiðlum, mér finnst það mjög ósmekklegt og ekki beinlínis til að afla þeim fjölmiðlum vinsælda.
Ég get ekki sagt að ég sé sammála því að setja þessi fjölmiðlalög sem hvað heitust hafa verið í múgæsingunni undanfarið, en aftur á móti get ég heldur ekki verið þeim ósammála. Hvers vegna!? Af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki kynnt mér þau, ég hef bara heyrt og lesið hluta af því sem fram hefur komið í fjölmiðlum, og það hefur verið nokkuð einhliða. S.s. ég get ekki tekið afstöðu m.v. það, þó svo að mjög margir virðast gera það.
Eins og er þá er ég mjög efins um synjunarvald forsetans, mér finnst það vald setja svartan blett á forsetaembættið, því eins og nú, þá gefur það “tæki” forsetanum kost á því að fá hluta þjóðarinnar upp á móti sér. Sjálfur var ég á sínum tíma ekkert ofboðslega hrifinn af því að fá Ólaf Ragnar sem forseta, en hann var skásti kosturinn þá í stöðunni og hefur verið svo “heppinn” að hann hefur ekki fengið neinn “alvöru” frambjóðanda gegn sér sem er líklegur til að steypa honum af stalli. Ég var farinn að venjast honum ágætlega sem forseta, þó fannst mér hann ekki vekja þessa góðu kennd og stolt hjá mér og Vigdís gerði á sínum tíma. Svo kemur þessi bomba og eflaust hefur hann aflað sér vinsælda hjá mörgum sem hafa látið þessa múgæsingu hafa áhrif á sig, en aftur á móti hefur hann aflað sér óvinsælda hjá stórum hópi Íslendinga sem áður voru orðnir nokkuð sáttir við manninn.
Ég segi að 4. frambjóðandinn í framboði næsta laugardag sé ósýnilegi maðurinn, s.s. sá sem við, hvert og eitt okkar, viljum frekar sjá en þessa þrjá frambjóðendur og með því að velja hann, þá er um að gera að skila auðu og taka þannig mjög afgerandi afstöðu. Fólk er ekki tilneytt að velja einn af þessum þremur, veljum 4. manninn!