Um návígi á Íslandi séð ofan úr Hraunbæ.

Ég er svo sem enginn sérfræðingur í stjórnmálum þó að ég lesi blöðin og horfi á sjónvarpsfréttir þegar ég hef ekkert betra við tímann að gera eins og að fara á hestbak eða viðra hundinn minn. Ég er því áhorfandi að þessum átökum í dag.

Það sem mér sýnist vera að gerast er að návígið er að koma okkur í hreinar ógöngur rétt enn einu sinni. Það eru allir komnir í skotgrafinar og mega ekki vera að því að sjá að krían er komin og lóan trítlar um í Elliðaárdalnum og gróðurinn allur að koma til. Þar er sólin okkar ráðgjafi.

Í gærkvöldi ók ég á Suðurnesin og sá í fyrsta skipti friðað æðavarp. Það vissi ég ekki að væri til þar. Ég sá líka gamlan uppgerðan torfbæ sem heitir Stekkjarkot og vörður í hrauninu en í verstöðvarnar á Reykjanesi lágu skreiðarleiðirnar forðum.

Ég er svo sem ekkert dyggðaljós og hafði gaman af átökum þegar ég var að selja auglýsingar í tímarit hér áður fyrr. En svo fær maður sig leiðan á því og fer að gera eitthvað annað.

Ég er svo sem heldur enginn sérfræðingur í fornum fræðum þó ég hafi skrifað lítillega um gamlar reiðleiðir. Aðeins hef ég þó gluggað í Ísledingasögurnar og Sturlungu.

Á Sturlungaöld kom líka upp þetta óþolandi návígi. Það versta var að Guðmundur biskup góði dróst inn í það en hann flæktist um landið með utangarðsfólk. Þannig voru átakapunktarnir í þá daga. Veraldlegir höfðingjar börðust innbyrðis og hann í miðjum slagsmálunum. Þetta endaði með því að við misstum sjálfstæðið í hendur Noregskonungum sem betur fer. þjóðin var að tortíma sjálfri sér með innbyrðis átökum.

Á viðtali í DV um daginn við Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup yfir Íslandi sýnist mér að hann líti ekki á sig sem annan Guðmund góða og horfir bara undrandi á þessi ósköp. Mér sýnist hann halda perunni ágætlega og svo er einnig með fjölmiðlafólk t.d. á Morgunblaðinu og Ríkissjónvarpinu.

Ef þessir aðilar færu að leggjast í leðjuslaginn líka þá værum við nú fyrst endanlega búin að vera. Þetta þýðir ekki að kirkjan sé ópólitísk en hún er sem betur fer í hófstillt nú um stundir og heilbrigt mótvægi við Ríkisvaldið.

Varðandi fréttamennsku í dag þá nær það auðvitað engri átt að fréttamenn séu farnir að vaða inn á Alþingi Íslendinga með míkrafóna og upptökutæki og halda að alþingismenn séu einhverjir svargikkir spursfífla. Slíkt ber vott um skrílræði en ekki lýðræði og hlýtur að enda með ósköpum. Þessu verður að linna.

Eitt sinn var ég götustrákur og ég er það enn, en að mér dytti í hug að ráðast að forsætisráðherra landsins með ósvífni, það kom aldrei til greina. Ég hélt mig þar sem ég átti heima nefnilega á götunni og á kaffihúsum.

Meira var það nú ekki og nú þarf ég að fara út og viðra hundinn minn og hver veit nema ég komi við á bensínstöðinni á Ártúnshöfða og fái mér kók og prins.

Kveðja úr Hraunbænum

Örn H. Bjarnason
Kt.131137-2499