Nema ef við tölum danska herinn sem herinn okkar þangað til að hann gafst upp 1940 og gat því ekki varið okkur gegn Bretum.
Svo er kannski hægt að tala um herina okkar sem börðust á Sturlungaöld, í hinum margfrægu bardögum við Apavatn, Víðistaðabardaga og sjóorrustuna á Húnaflóa.
Ég tók eftir því fyrir einvherjum mánuðum að skrifaðar voru greinar í einhver dagblöð, um kostnað við útbúnað o.fl. í sambandi við stofnun íslensks hers. Þær voru án undantekninga algert rugl, rétt eins og flest allt annað sem skrifað og sagt er um vopnaskak í íslenskum fjölmiðlum. Sem er ekki skrýtið þar sem aðilarnir sem eiga hlut að máli eru algerlega ómenntaðir á þessu sviði.
Þess vegna datt mér í hug að koma með útlistanir á kostnað ríkisins sem myndi fylgja stofnun íslensks hers.
Loftvarnir Íslands eru í dag fjórar tveggja hreyfla orrustuþotur. Ein slík kostar allt frá einum til fimm milljarða íslenskra króna. Það fer allt eftir aldri, hæfni, framleiðslulandi og.fl. vélarinnar. Eina rússneska Sukhoi 27 mætti t.d. fá fyrir um tvo og hálfan milljarð, meðan að glænýr Evrufæter gæti kostað fjóra.
Ef við gefum okkur að við fengjum okkur átta Su-27 á 2,5 milljarða höfum við bara eytt 20 milljörðum króna, sem er náttúrulega ekki neitt í samanburði við Kárahnjúkavirkjum sem kostar 70 milljarða. En þar með er þetta ekki búið, því nauðsynlegt er að útvega ýmiss konar vopnabúnað fyrir þessar vélar. Til að mynda langdrægar ratsjárstýrðar gagn-flugvéla eldflaugar sem þessar flugvélar geta borið. Meðal þeirra eru R-27 eldflaugar í ýmsum útgáfum, meðal annars í hitasæknum útgáfum. Gætu þær kostað að meðaltali um 30 milljónir króna stykkið. Þar sem hver vél getur borið tíu elflaugar í einu væri þægilegt að eiga vopn fyrir um 50 bardagaferðir fyrir allar 8 flugvélarnar. Það eru ekki nema um fjórir milljarðar. En þar með er það ekki búið. Kostnaður við ýmis önnur vopn, svo sem frjálst fallandi sprengjur, óstýrðar eldflaugar og sprengikúlur fyrir sjálfvirka fallbyssur, i almennilegu magni gæti verið allt frá 500 milljónum og upp úr, allt eftir því hversu flottir á því menn vilja vera. Mikilvægasti þátturinn er þó þjálfun flugkappa. Eitt stykki flugkappi gæti kostað 100 milljónir króna á ári í hreinan rekstur, enda kostar hver flugtími hálfa milljón króna að meðaltali þegar litið er á rekstur flugvélar, bæði hvað varðar varahluti og eldsneyti. 150 - 200 flugtímar eru taldir hæfilegir í nágrannalöndum okkar og ekki ættum við Íslendingar að vera þeim minni, sérstaklega í ljósi þess að við getum haft hlutfallslega dýrara heilbrigðiskerfi en þeir.
Með þessum 8 flugvélum þyrftum við að hafa minnst átta flugkappa og sextán flugvirkja. Ef við reiknum úr að meðallaun þeirra séu kannski 400.000 kr á mánuði fáum við að reksturinn á þessum flugher er um 915 milljónir á ári og líklega meiri þar sem menn þurfa að afskrifa og endurnýja vopnabirgðir. Stofnkostnaðurinn er þá 25 milljarðar með flugvélum og smá vopnabúnaði. Það er enginn peningur, þegar litið er til þess að þetta þarf til að verja heiður lands og þjóðar!
Björn Bjarnason kom einhverntíman með þá hugmynd að það ætti að stofna 500 manna heimavarnalið.
Í flestum tilvikjum myndi 500 manna hernaðareinign vera kölluð herfylki. Til þess að reikna út kostnað við eitt slíkt stykki þurfum við að líta á einhvers konar dæmigert hernaðarskipulag. Eitt stykki sjálfstætt vélvætt fótgönguliðsherfylki í frekar nútímavæddu umhverfi inniheldur:einar höfuðstöðvar, þrjú fótgönguliðsundirfylki, eitt sprengjuvörpu ,,batterí'', eina gagnflugvélaflokksdeild, eina gagnskriðdrekaeldflaugaflokksdeild, njósnaflokksdeild, merkjaflokksdeild, flutningaflokksdeild og stundum jafnvel sjálfvirkrarhendsprengjuvörpuflokksdeild. Samanlagður stofnkostnaður við eitt svona herfylki með þessum búnaði gæti numið 300-900 milljónum í stofnkostnað. En rekstrarkostnaður gæti numið 2 milljörðum á ári í laun og skotfæraeyðslu og fleira. Ef við vildum hinsvegar frekar fótgönguliðsherfylki búið brynvörðum ökutækjum eins og BTR, BMP og fl. gætum við bætt við allt að 900 milljónum við stofnkostnaðinn og jafnvel meira ef við viljum endilega kaupa eitthvað bandarískt dót. Þetta myndi jafnframt auka rekstarkostnað til muna, kannski janfvel milljarði ef þetta verður of hátæknivætt.
Almennilegur Íslenskur her myndi innihalda fjögur svona herfylki.
Núna höfum við ekkert minnst á alvöru skriðdreka. En eitt stykki bandarískur M1A2 Abrams skriðdreki kostar 500 milljónir nýr. Rússneskur T-90 rétt um 100 milljónir nýr. Finnar fengu notaða þýska Leopard II á 50 milljónir stykkið og Pólverjar fengu þá á 10 milljónir. Eitt brynfylki með 30 skriðdrekum gæti því kostað 15 milljarða ef keypt væru ný vestræn tryllitól, en ekki nema 1,5 - 3 ef peningavitið er í lagi. Nú og ef við værum Pólverjar kostaði þetta ekki nema 300 milljónir.
Þess má reyndar geta að í tölunni 30 stykki skriðdrekar, er einnig tekið til ýmiss önnur brynvarin tæki sem kosta skriðdrekaverð og er nauðsynleg fyrir fulla virkni skriðdrekafylkis. Þeirra á meðal eitt stykki yfirskriðdreki, sem er búinn alls konar aukabúnaði til stjórnunar skriðdrekafylkinsins, dráttarvélar á beltum til að draga bilaða skriðdreka og fleira og brynvarða skotfæratrukka.Síðan má ekki gleyma eldsneytiskostnaði, skotfærakostnaði og launakostnaði. Í áhöfn hvers skriðdreka eru 3-4 menn og skulum við álykta út frá því að fleiri en 120 manns séu í skriðdrekafylki. 300 milljónir króna í árlegan launakostnað væri því líklega ekki fjarri lagi. Ein fallbyssukúla af 120-125mm stærð getur kostað frá einni milljón króna, þ.e. ef um alvöru kúlu er um að ræða en ekki æfingakúlu sem kostar kannski um 100 þús kall ný. Hver skriðdreki getur borið fleiri en 40 kúlur og ef við reiknum með að hver skriðdreki þurfi að eiga 50 fulla farma á hverjum tíma fáum við 2 milljarða króna.
* þess má geta að sumar tölurnar í þessu eru fengnar út úr minni, námundaðar o.fl. en annars er þetta allt afar nákvæmt, eða allavega töluvert nákvæmara en kostnaðaráætlanarnir um byggingu Þjóðarbókhlöðu og endurnýjun Þjóðminjasafnsins. Eða bara nákvæmara en allar kostnaðaráætlanir sem unnar eru fyrir íslenska ríkið yfir höfuð.
Örn drekkr, undarn