Er Davíð að færa Sjálfstæðisflokkinn til vinstri? Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort Davíð Oddson sé að færa Sjálfstæðisflokkinn til vinstri. Miðað við umræðuna síðustu vikur hefur þetta flogið um huga minn. Mér finnst alveg dæmalaust að hann skuli styðja og eða setja fram frumvörp eins og SPRON frumvarpið og nú fjölmiðlafrumvarpið.

SPRON málið var að mínu mati einhver sú mesta valdníðsla sem framin hefur verim á Íslandi síðustu ár. Hvað annað er hægt að kalla svonalagað? Að stoppa löglegan viðskiptasamning, bara vegna þess að honum líkar ekki við samninginn. Það hefði kannski ekki komið mér mikið á óvart ef Ögmundur Jónasson hefði lagt það fram, en Davíð! Við þetta missti ég mikið álit á honum.

En síðan kemur fjölmiðlafrumvarpið sem köld vatnsgusa framan í mig. Hvernig dettur þessum hægrimanni í hug að leggja svona vitleysu fram. Það fer ekki framhjá neinum heilvita manni að þetta frumvarp er aðeins lagt fram gegn Norðurljósum og Baugi. Hann getur sagt opinberlega að honum lítist ekki á blikuna á fjölmiðlamarkaði. En maður leggur ekki fram sérsmíðað frumvarp gegn ákveðnu fyrirtæki. Þetta kalla ég að misnota vald sitt. Ekki hefði ég búist við því að Sjálfstæðisflokkurinn legði fram slíkan skandal. Þess vegna velti ég því nú fyrir mér hvort Davíð sé að reyna að færa flokkinn til vinstri.

Ég efast um að þetta auki vinsældir hans meðal ungra Sjálfstæðismanna. Ég var einmitt að skoða Frelsisdeildina sem Heimdallur stendur fyrir. Það sem náði athygli minni í henni var hversu neðarlega Davíð var. Þessi deild er mælikvarði á það hversu vel ritstjórn frelsi.is finnst þingmennirnir hafa staðið sig í því að auka einstaklingsfrelsið. Fyrir stuðning við frelsisfrumvörp fá þingmenn Sjálfstæðisflokksins stig. Fyrir stuðning við frumvörp sem efla ítök ríkisins á þjóðinni tapa þeir stigum. Nú er staðan þannig að Davíð er í 3-4 sæti, talið neðan frá. Þetta mætti þýða sem svo að Davíð sé meðal mestu kommanna í flokknum. Hann er núna með –8 stig á meðan meðalstigafjöldi á þingmann er –1,6 stig.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og stöðu Frelsisdeildarinnar má nálgast á slóðinni http://www.frelsi.is/frelsisdeildin/nr/2077
“I'd love to go back to when we played as kids,