Nokkrar pælingar um það hvernig stjórnarfarið yrði ef hér væri guðsríki (kristna pælingin) á jörð.

Lítum hér fyrst á þjóðhöfðingjann.
Þar værum við með einhverskonar einræðisherra, þar sem í fyrsta lagi er hann ekki lýðræðislega kjörinn, ekki eru neinar reglur til um vanhæfi stjórnandans eða ábyrgð hans vegna embættisbrota. Stjórnartími hans er ekki afmarkaður (þar sem guð á víst að vera eilífur) og þeim sem reyna að steypa honum af stóli er kastað í dýflyssu sem á víst að vera nálægt iðrum jarðar.

Almennt er viðurkennt að ríkisvaldið skiptist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

Því er rétt að líta næst á löggjafarvaldið;
Sama á við og fyrr, hvergi í lagasetningunni (boðorðin 10) er lýðræðislegu ferli fyrir að fara, reglurnar eru settar einhliða af guði og án allrar þáttöku þegnanna. Að vísu eru reglurnar birtar, sem er eitt skilyrði þess að þær uppfylli skilyrði réttarríkisins. Hinsvegar er varla hægt að segja að þær uppfylli önnur skilyrði þess að teljast lög, t.d er ekkert nefnt í lögunum um viðurlög en þó virðast þau vera til staðar eins og síðar verður rætt í sambandi við dómsvaldið. Almennt er talið mjög ósanngjarnt að hægt sé að refsa án þess að skýrlega standi í lögum að athæfi sé refsivert.
Hér er einnig rétt að athuga að í lögunum er ekki beint fyrir að fara miklu jafnrétti eða jafnræði sem þó er almennt viðurkennt í dag að séu grundvallarmannréttindi. Því má spyrja hvort þessi lög séu réttlát.
Flestum myndi finnast hæpið að ætla að byggja ríki á 10 reglum sem nánar eru útfærðar í dæmisögum, en varla er hægt að segja að dæmisögur uppfylli skilyrðið um skýrleika lagareglna. Einnig virðast lög guðsríkis vera að meginstefnu íþyngjandi en fáar mæla fyrir um einhvern rétt þegnunum til handa.
Því er hægt að segja með nokkurri vissu að samkvæmt viðmiðunarreglum þeim, sem kenndar hafa verið við réttarríkið, eru lög guðsríkis í núverandi mynd ólög og að vettugi virðandi.

Víkjum næst að framkvæmdarvaldinu.
Svo virðist sem því sé varla fyrir að fara í guðsríki, ekki er t.d fyrir að fara almannatryggingakerfi, heilbrigðiskerfi eða löggæslu af hálfu guðsvaldins. Hinsvegar virðast vera dæmi um það að guð úthelli reiði sinni yfir menn vegna gjörða þeirra án dóms eða annarri lögákveðinni heimild. Hæutverk framkvæmdarvalds er almennt nánari framkvæmd laga en hér virðist aðeins verið að refsa fólki fyrir lögbrot, en það leiðir væntanlega af því hversu fáar ívilnandi reglur er að finna í lögunum.

Dómvaldið:
Hér er aðeins um að ræða einn dómara og eitt dómsstig, sem þýðir að dómunum verður ekki áfrýjað. Dómarinn einn hefur heimild til að taka upp mál en þegnarnir hafa ekki rétt til að fá úrlausn ágreiningsmála sinna fyrir dómstólnum. Þegnarnir eru allir leiddir fyrir dómarann sem dæmir þá annað hvort til refsingar til eilífðar eða til sæluvistar. Sumir þurfa víst að bíða árum eða árhundruðum saman eftir dómi þar sem allir verða víst dæmdir saman á dómsdegi, en samkvæmt almennum reglum væri þá sök flestra fyrnd. Ekki fá þeir heldur notið aðstoðar löglærðra manna fyrir dómstólnum og hafa jafnvel ekki rétt til þess að taka til varna, sem þó er almennt talið að flokkist til grunnréttinda að mega verja sig ef maður er borin sökum sem varðað geta eilífðarvist í undirheimum.

Einnig má deila um hversu heppilegt það sé að allir þrír þættir ríkisvaldsins séu á höndum eins og sama aðila.
Spurningin sem ég vil varpa fram er sú, hvort guðsríki hafi verið góð pæling þegar einveldi var almennt við lýði, en erum við ekki komin svolítið framúr því núna með nútíma stjórnarfari? Margir kristir halda því fram hversu frábært það værið að hafa guðsríki á jörðu, en að þessu öllu virtu verð ég að segja að ég kýs frekar að halda því lýðræðislega stjórnararfari sem við höfum í dag þó það sé að mörgu leyti gallað.
www.blog.central.is/runin