03.01.2004.
Síðasti þáttur Kastljósins í RUV anno 2003 var um margt athygglisverður. Þar var Kolbrún Halldórsdóttir þingm. VG á meðal viðmælenda. Þema þáttarins voru minnistæðir atburðir á síðasta ári. Þegar Kolbrún komst að þá flutti hún mál sitt af krafti rétt eins og hún væri á framboðsfundi. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum, hvað manneskjan lét út úr sér.
Til að fá fullvissu mína beið ég eftir endurflutningi Kastljóssins í dagskrárlok og tók þáttinn upp. Þegar ég hafði horft á hann nokkrum sinnum, varð ég þess full viss að mér hafði ekki misheyrst né misskilið vesalings konuna.
Nú metur hver fyrir sig því hér fylgir mál hennar orðrétt og án þess að vera slitið úr samhengi.
“ÞETTA VAR SEM SAGT ÁRIÐ ÞEGAR RÍKISSTJÓRNIN INNSIGLAÐI ÞANN ÁSETING SINN AÐ EYÐILEGGJA HÁLENDIÐ NORÐAN VATNAJÖKULS, KOMA Í VEG FYRIR ÞAÐ AÐ VIÐ GÆTUM EIGNAST ÞAR ÞJÓÐGARÐ Á HEIMSMÆLIKVARÐA. ÞVÍ NÚNA ER EINI MÖGULEIKINN SEM VIÐ KOMUM TIL MEÐ AÐ EIGA EF FRAM HELDUR SEM HORFIR, EF ÞEIM TEKST AÐ KLÁRA ÞESSA KÁRAHNJÚKAVIRKJUN SÍNA…..”
“Ert þú eitthvað efins um það?” greip Sigmar þáttarstjórnandi fram í fyrir henni.
“ÞAÐ ER NÚ ALLTAF SVONA KANNSKI EINHVER ÓSKHYGGJA EINHVERSTAÐAR Í HJARTANU, JÁ ÞÁ VONAR MAÐUR KANNSKI AÐ NÁTTÚRUÖFLIN OG LANDVÆTTIRNAR GRÍPI Í TAUMANA EN AUÐVITAÐ ER SÚ VON EKKI BJÖRT….”
Hér er þingmaður á Alþingi Íslendinga að vonast eftir einhverjum atburðum af náttúrunnar hendi, af þeirri stærðargráðu að þær stöðvi framkvæmdir við Kárahnjúka til frambúðar. Umbrot af þeirri stærðargráðu verða vart kallaðar annað en náttúruhamfarir i einni eða annari mynd.
Útilokað er að skilja orð hennar á annan veg.
Ekki virðast sem mannslíf, mannvirki og önnur verðmæti, sem í hættu kynnu að vera, raski ró Kolbrúnar í þessari von sinni og teldist sennilega eðlilegur fórnarkostnaður. Framkvæmdir verða að stöðvast, á einn eða annan hátt, gildir einu hvernig, ef ekki með góðu þá illu.
Ekki virðist Kolbrún hugsa út í það, að þær hamfarir sem gerðu von hennar og draum að veruleika, kynnu að valda meiri skaða og breytingum á landinu en virkjunin sem hún berst svo hatramlega gegn.
Ég er sjálfur náttúruverndar sinnaður og hafði mínar efasemdir um þessar framkvæmdir. En málflutningur Kolbrúnar í gegnum tíðina hefur því miður ekki verið náttúruvernd til framdráttar nema síður sé. Allar öfgar í þessu efni sem öðrum eru til skaða og það er ekki ofsagt að að málstaður náttúruverndar setji ofan í hvert sinn sem Kolbrún opnar munnin í þeirra þágu.
Þeir aðilar hér á landi sem vilja hvað harðast vaða yfir allt og alla á skítugum skónum, dansa stríðsdans af kæti í hvert sinn sem Kolbrún opnar munnin vitandi að nú fitnar púkinn þeirra á bitanum.
Ég var fyrir síðustu kosningar að velta því fyrir mér að kjósa VG. En sem betur fer gerði ég það ekki, því þá hefði ég óbeint borið ábyrgð á Kolbrúnu H. og það er hreint ekki geðfelld hugsun núna.
Mér finnst hún skulda landsmönnum öllum afsökunarbeiðni á orðum sínum og hugsunum, og þá ekki hvað síst öllu því fólki sem vinnur við Kárahnjúka og á líf sitt undir því að áramótaósk hennar verði ekki að veruleika.
Ef þið viljið senda henni rafpóst um málið er póstfang hennar kolbrunh@althingi.is
Kveðja Lotti.