Við þekkjum öll tískumálefnin - málefni sem komast í tísku að ræða um í ákveðinn tíma en detta svo upp fyrir og annað kemst í tísku. Á smærri skalanum má nefna umræðuna um laun forstjóra, virkjun við Kárahnjúka, skatta á bensín og spillingu ákveðinna stjórnmálamanna. Á stærri skalanum má nefna réttindi samkynhneigðra og umræðuna um hlutverk ríkisvaldsins í atvinnulífinu. Smái skalinn telur í dögum, vikum og mánuðum. Stærri skalinn telur í árum og áratugum.
Menn skipta sér gjarnan í hópa í hverju málefni. Sumir velja flokkslínur og þá annaðhvort með eða gegn samvisku sinni, sumir velja eftir hugmyndum ákveðinna fyrirmynda, enn aðrir ákveða einfaldlega að vera á móti - nánast sama hvert málefnið er. Enn aðrir hafa hugsjónir og sýn sem þeir fylgja í hverju máli, óháð áliti meirihlutans.
Kostirnir við að ákveðin málefni komast í tísku geta verið margir. Samkynhneigðir hafa fundið fyrir því. Eftir að umræðan um réttindi þeirra varð opinskárri hafa sífellt fleiri ákveðið að velja leið umburðarlyndis og frelsis og vilja ekki mismunun á einstaklingum eftir kynhneigð. Á heimsmælikvarða mælast réttindi samkynhneigðra hvað mest á Íslandi og þróunin er í þá átt að bráðum verði ekki um mismunun af hálfu hins opinbera að ræða.
Þetta er svipuð þróun og átti sér stað með jafnrétti kynjanna á sínum tíma. Nú bannar stjórnarskrá mismunun eftir kynferði, húðlit og fleira. Þetta er gott mál og sýnir aukinn samfélagsþroska okkar.
En ókostir tískumálefnanna eru líka til. Þessu fá minnihlutahópar að kenna á, og nú síðast sá minnihlutahópur sem lítur á kynlíf gegn greiðslu sem fullkomlega eðlilegan hlut. Staðreyndin er sú að þeir eru til sem kjósa að selja kynlífsþjónustu (vændi, “símasex”, ofl), hvort sem það er af því það er skásti kosturinn af fáum góðum eða vegna peninganna eða hvernig sem það nú er. Að sama skapi eru til þeir sem vilja kaupa kynlífsþjónustu og sjá ekkert óeðlilegt við það. Þetta er ekki meirihluti fólks. Þetta er minnihlutahópur, rétt eins og þeir sem kjósa að láta flengja sig, kjósa að stunda kynlíf með einstakling af sama kyni, kjósa húðflúr, tungupinna, hanakamb, pönktónlist eða hvað sem er. Þetta eru minnihlutahópar sem í MESTA lagi eru að skaða sjálfa sig og einstaklinga innan þeirra, en þó alltaf af fúsum og frjálsum vilja. Slíkur er réttur fullorðinna sjálfráða geðheilla einstaklinga í þessu samfélagi.
Tískumálefnin eru tvíeggja sverð. Stundum leiða þau samfélagið í átt til frelsis og umburðarlyndis, og stundum í hina áttina. Fyrir frelsinu berjast margir, óháð því hvaða málefni eru í tísku og hvaða afstaða er í tísku, og ég vil biðja þá sem þetta lesa að hafa í huga að rödd frelsisins er oft veik þegar tískuskoðanirnar tröllríða öllu og valta yfir minnihlutahópa og veikradda einstaklinga miskunnarlaust í nafni góðs siðferðis og skoðana meirihlutans.
Hlustum á rödd frelsis. Vinsamlegast.