Þessi grein birtist eftir mig í Fréttablaðinu 30 september síðastliðinn.
Ég hef verið að velta fyrir mér hver framtíð landsbyggðarinnar er. Nýlega bárust fréttir frá Seyðisfirði um að öllu starfsfólki í frystihúsi bæjarins verið sagt upp. Ástæðan er rekstrarörðuleikar. Fyrir nokkrum árum voru stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi, Útgerðarfélag Akureyringa og Samherji, að hamast við að kaupa frystihús í minni byggðalögunum. Siðan keypti Eimskip Útgerðarfélag Akureyringa og fylgdi togari gjarnan með í kaupum ásamt kvóta. Í nafni hagræðingarinnar hefur þeim síðan verið lagt eða seldir og kvótinn færður á önnur skip félagsins. Skipin hafa stundum landað á stöðunum eða fiskurinn keyrður á vettvang. Ríkisvaldið er ekki sökuldólgur heldur ráða markaðslögmálin.
Nú er svo komið að frystihús á minni stöðum bera sig ekki og eðli málsins samkvæmt er þeim lokað. Við það rísa íbúar upp og hrópa á ríkisvaldið að skaffa fyrirtækinu kvóta eða koma með ný atvinnutækifæri í plássið í þeim tilgangi að þeir geti haldið áfram að hírast í húsum sínum á hjara veraldar. Fyrr í sumar var mikið rætt um ástandið á Rayfarhöfn. Íbúar æptu á ríkisvaldið og óskuðu eftir sérstökum 300 tonna kvóta til að útvega þeim örfáu Íslendingum sem nenntu að vinna í frystihúsi staðarins vinnu.
Það eru tugir smáplássa hringinn í kringum landið þar sem lifibrauðið er lítið frystihús. Á sumum stöðum er meirihluti þeirra sem verka fiskinn útlendingar, sérstaklega á Vestfjörðum. Í þessum plássum er kennarahallæri og oft vantar lækni eða prest. Þegar börnin vaxa úr grasi liggur leið þeirra burt í skóla og oftast snúa þau ekki til baka. Afleiðingarnar eru að plássin leggjast af.
Það er ekkert annað en gálgafrestur þegar verið er að beita sértækum aðgerðum til að koma til bjargar. Að mínu mati er lang best að ríkið kaupi húseignir fólksins. Ríkið gæti síðan selt húsin aftur sem sumarhús því hugsanlega vilja einhverjir dvelja þarna yfir sumarið. Með þessu skapast nýtt tækifæri fyrir fólk að byrja aftur. Líklegast er að íbúar flytjist til stærri byggðarlaga í sama kjördæmi. Raufarhafnarbúar myndu flytjast niður á Austfirði en þar er mikil uppbygging fram undan.
Það er skiljanlegt að fólk vilji búa á landsbyggðinni. Sjálfur er ég landsbyggðarmaður. Með því að leggja litlu plássin niður styrkjast þau stærri og afkomumöguleikar og velferðarþjónusta verða betri. Það er ekki verjandi fyrir okkar litla land að vera með stórmennskubrjálæði og halda uppi hverju krummaskuðinu á fætur öðru með sértækum aðgerðum.