Microsoft og George W. Bush eiga það sameiginlegt að hætta aldrei að koma manni á óvart með hræsni og/eða heimsku.

Bandaríkin, eins og flestir vita, byggja á ákveðnum grundvallaratriðum. Grundvallaratriðin eru frelsi, lýðræði og mjög sterk virðing fyrir samkeppni.

T.a.m. eru Bandaríkin í WTO (World Trade Organization), NATO og Sameinuðu Þjóðunum. Núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna virðist hinsvegar einbeita sér markvisst að því að grafa undan öllum þessum samböndum.

Sameinuðu Þjóðirnar:
Það eru alveg hreinar línur að með “alvarlegum aðgerðum” sem skilgreindar voru í ályktun Sameinuðu Þjóðunum gagnvart stríðinu í Ïrak, fól ekki í för með sér stríð. Hefði svo verið, hefðu sömu löndin og greiddu atkvæði með ályktuninni, ekki verið á móti stríðinu í Írak. Þetta hlýtur að vera borðliggjandi. Hvers vegna ættu þessar þjóðir að hóta stríði og svo vilja alls ekki hóta stríði deginum eftir, án þess að breyta neinum forsendum? Bandaríkjastjórn hinsvegar, tók sér bessaleyfi og ákvað að túlka ályktunina sér í hag, þvert á við mjög augljósa meiningu ályktunarinnar. Með því brutu þeir stofnsáttmála Sameinuðu Þjóðanna, og í rauninni finnst undirrituðum að það ætti að hóta að reka Bandaríkin úr sambandinu, en það er auðvitað ekki hægt vegna þess einfaldlega að Bandaríkin eru svo stór, efnuð og vel vopnuð. Eftir þetta, saka þeir lönd eins og Þýskaland og Frakkland, um að grafa undan trúverðugleika Sameinuðu Þjóðanna. Hver er það sem er að brjóta gegn vilja Sameinuðu Þjóðanna?

Halda þessir menn að þessi sambönd séu upp á punt? Þau eru til þess nákvæmlega að treysta öðrum löndum til að standa við það sem þau skrifa undir, vinna undir forsendum, vera í sama liðinu. Þegar liðið er ósammála, þá fer núverandi stjórn einfaldlega á bakvið samninga sem hafa verið í gildi í marga áratugi, og fullorðnir menn hafa séð ástæðu til að halda, og virða, jafnvel þó þeir séu sjálfir ósammála.

“Frekja”, dettur mér strax í hug.

NATO:
Það er ekki auðséð hvernig það verður með varnarsamstarf Bandaríkjamanna og Íslendinga, en framkoma þeirra hingað til hefur verið með eindæmum. Auðvitað væri herinn farinn ef við hefðum ekki kvittað undir Íraksstríðið. Takk, Dabbi og Halldór! Dabbi og Halldór höfðu hinsvegar því miður rétt fyrir sér, við þurfum að beygja okkur og taka það upp í afturendann á okkur til þess að fá snefil af virðingu frá sitjandi Bandaríkjastjórn. Það vita menn að það er bara staðið við það sem hentar Bandaríkjamönnum að standa við. Fjandinn hirði náttúruna (Kyoto-bókunin), fjandinn hirði alþjóðasamfélagið (Íraksstríðið), fjandinn hirði Ísland, nema þegar verið er að taka það að aftan.

WTO:
Bush setti stáltolla fyrir um ári til þess að hjálpa stáliðnaðinum í Bandaríkjunum gagnvart erlendri samkeppni. WTO hefur lög og reglur sem leyfa löndum að framkvæma svona í ákveðnum mæli til þess að bjarga falli efnahags á meðan efnahagurinn er að aðlagast aukinni samkeppni frá útlöndum. Bush vildi halda tollunum, WTO sagði nei. Hann áfrýjaði og aftur var sagt nei, og í þetta skipti var það lokasvar, líkja mætti því við hæstarétt. Þeir hafa notað áfrýjunarvaldið, þeir eru búnir að setja fram sín rök fyrir því að hafa þessa tolla, og þau standa ekki. Skilaboðin eru alveg skýr; þessir tollar ERU ólöglegir, og það MUNU verða settar efnahagslegar skorður á Bandaríkin af hálfu WTO ef þetta verður ekki leiðrétt sem fyrst! en samt láta haukarnir eins og þeir hafi val. Bush þykist ennþá vera að íhuga hvort hann eigi að fara eftir því sem er búið að dæma hann til þess að gera tvívegis.

Skólabókardæmi um ríkisstjórn, sem þykist byggja á grundvallaratriðum á borð við lýðræði, hollustu og virðingu… bara þegar það hentar þeim.

Þetta er svipað og mál- og athafnafrelsið á Íslandi. Maður má segja hvað sem maður vill, bara á meðan maður er sammála meirihlutanum. Maður má gera það sem maður vill, bara á meðan aðrir vilja að maður geri það. Þvílíkt frelsi, hvílíkur grundvöllur.

Hvílík hræsni.