Að hengja marga, marga bakara fyrir smið Ég hef samúð með íslenskum tónlistarmönnum, það er ábyggilega ekki auðvelt að draga björg í bú ef maður er tónlistarmaður á Íslandi.

En ég hef ekki mikla trú á því að þessi “nýja” gagnageymsluaðferð að brenna geisladiska snerti íslenska tónlistarmenn mikið. Er það réttlætanlegt að setja höft á innflutning á tækni sem er aðeins að litlum hluta brúkuð til þess að brjóta höfundarréttarlög? Hingað til hefur það forskot sem Íslendingar hafa á aðrar þjóðir í tæknimálum verið litið jákvæðum augum á hinu háa Alþingi og fremur þótt ástæða til að auka það sbr. lækkanir á gjaldskrá Landssímans til að koma til móts við íslenska netverja.

Ég held að meirihluti þeirra sem standa í því að “brenna” diska noti þá fyrir tölvugögn. Hvort sem það er svo ólögleg afritun á hugbúnaði eða ekki er annað mál og kemur stefgjöldum ekki við. Það hlýtur því að vera sárt að tilheyra þeim hópi því óneitanlega er ósanngjarnt að krefja fólk um gjald sem aðrir ættu að greiða. Svipuð tilfinning og að þurfa borga í stöðumæli fyrir einhvern annan, eða öllu heldur stöðumælasekt.

En hvað með þá sem afrita tónlist, ættu þeir ekki að borga brúsann? Ef marka má skoðanakönnunina, sem er nú á forsíðu Huga.is, er aðeins einn af hverjum fimm sem afritar eitthvert magn af íslenskum diskum. En athugið að það þýðir ekki endilega að sá hinn sami komi ekki til með að kaupa diskinn síðar. Sjálfur fæ ég t.d. oft lánaðan einhvern disk sem ég hef áhuga á, brenni hann fyrir sjálfan mig og skila upprunalega eintakinu til baka samdægurs. Ef ég fíla diskinn skokka ég oftast niður í Hljómalind og kaupi hann. Hvers vegna? Vegna þess safn af upprunalegum diskum með bækling fullan af myndum og upplýsingum um hljómsveitina er langt um eigulegra en gylltir diskar sem allir eru eins.

Í morgunþætti Rásar 2 í dag (27. feb) viðurkenndi Eiríkur Tómasson, gestur þátttarins og formaður ÍHM, að sala á íslenskri tónlist hefur ekki dregist saman á undanförnum árum. Það má því vera ljóst að þetta er engin staðkvæmdartækni. Fólk kemur áfram til með að kaupa geisladiska úti í búð engin sölurýrnun er sjáanleg. En hvað réttlætir þá þessa tollálagningu? Fríður flokkur tónlistarmanna leiddur af Magnúsi Kjartanssyni, forstjóra STEF, vill meina að það sé fullt af fólki að hlusta á tónlistina þeirra og þeir fái ekki krónu fyrir, svo einfalt er það. En samkvæmt sölutölunum þá hefur þessi tækni ekki breytt neinu um það hversu mikið þeir selja í dag því magnið er það sama og þeir hefðu selt ef þessi tækni hefði aldrei litið dagsins ljós. Þeir eru því þannig séð ekki að “tapa” neinum peningum við tilkomu tækninnar heldur einfaldlega ekki að græða neitt á henni.

Merkilegast finnst mér þó hvað hægt er að lesa úr þessum nýju lögum. Ég túlka þetta þannig að ríkið sé að væna alla þá sem kaupa geisladiskaskrifara, skrifanlega geisladiska, segulbönd og VHS spólur um ólöglega afritun, en hvað með allt það efni sem ég framleiði sjálfur? Hvernig er hægt að réttlæta það að ég þurfi að borga Sálinni hans Jóns míns fyrir að fá að geyma það á disk? Og furðulegt þykir mér hvað þessar álagningatölur eru út í bláinn. Ég segi út í bláinn því auðsýnt er að það er ekki nokkur leið að komast að því hversu margir það eru sem í raun brjóta höfundarrétt tónlistarmanna.

Með þessari reglugerð hefur Alþingi endanlega sýnt fram á mátt sinn og megin, velur bara tölu út í bláinn og enginn fær við neinu hreyft! Ímyndið ykkur að 10-11 væri eina verslunin á landinu og hún tæki sig til og hækkaði vöruverð sitt allríflega vegna “hugsanlegs” þjófnaðar í verslunum þeirra. Hver væri sanngirnin í því?


P.S. Einhver ágætur Íslendingur hefur tekið sig til og sett upp vefsíðu fyrir þá sem vilja hreyfa við mótmælum hvort sem tekið verður mark á þeim eða ekki.

P.S.S. Slóðin er :: www.quake.is/motmaeli ::