Nú upp á síðkastið hef ég verið að velta fyrir mér einkavæðingu og kostum og ókostum þess. Þegar ég fór að spá í þessu af einhverju viti þá finnst mér oft vera þannig að þeir sem vilja einkavæða sem mest, vilji gera það 1,2 og 3 og taka svo afleiðingum seinna án þess að skoða hlutina af viti fyrirfram.
Ég er nefnilega nýkominn frá London þar sem er umræða í gangi í
tengslum við reynslu Lundúnarbúa af einkavæðingu á neðanjarðarlestarkerfinu og
öðrum almenningssamgöngum. Eftir einkavæðingu hefur nefnilega þjónusta verið
skert, kerfinu er illa haldið við í sparnaðarskyni og og íbúum finnst þeir vera
að borga meira fyrir minna. Lestarbilanir uppá síðkastið hafa verið raktar til
þess að einkaaðilarnir hafa ekki tímt að greiða fyrir nauðsynlegt viðhald. Einnig hefur kostnaður ríkisins aukist við það að hafa eftirliskyldu með einkaaðilum við verk sem þeir hafa verið að vinna fyrir ríkið. Þar heyrast þær raddir í sumum að best væri að ríkisvæða kerfið aftur, fyrirtækjunum
væri ekki treystandi fyrir svona almenningsþjónustu. Annað dæmi í svipuðum dúr
er auðvitað rafmagnsbilunin mikla í Bandaríkjunum þar sem kom í ljós að
einkareknu fyritækin höfðu ekki viðhaldið kerfinu í sparnaðarskyni og svo einnig
varnaðarorð orkumálastjóra Kaliforníu þar sem hann sagði reynslu þeirra ekki
vera góða af einkavæðingu orkuveitna. Þar hafði verðið hækkað og þjónusta
minnkað ólíkt ríkisreknu orkuveitunni. Í báðum þessum tilfellum er um að ræða
stofnair/þjónustu sem er í einokunaraðstöðu og veitir grunnþjónustu(rafmagn,
hita, almenningsamgöngur). Svo er það nú einnig að fyrirtæki verða auðvitað að
ná ákveðnum hagnaði til að halda eigendum ánægðum, sama hvernig farið er að því
og í einokunaraðstöðu er það auðvitað neytendur sem borgar brúsann. Svo er það
annað, einkavæðing hlutlausra rannsóknastofnuna líkt og SUS vill gera við Hafró
sem dæmi. Þar er boðið upp á það að rannsóknirnar verða ekki hlutlausar lengur,
því fyrirtækið þjónar auðvitað hagsmunum eigenda sinna og fer nú ekki að selja
kúnnanum vöru sem hann væri ekki sáttur við. Þarna kæmi líka annað inn í, hvort
ríkið þyrfti þá ekki að kaupa vöruna á uppsprengdu verði sem væri dýrari en
áður. Önnur hætta með einkavæðingu hér á landi er auðvitað sú, að vegna smæðar samfélagsins þá ratar þetta yfirleitt á hendur fárra einstaklinga/fyrirtækja eins og t.d. Eimskips-mafían þegar hún var sem mest, Baugs, og vina þeirra stjórnmálamann sem sjá um einkavæðinguna. Svo er það þessi æsingur með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, það virðist eiga að koma því í hendur á einkaaðilum en hvernig á sú útfærsla að fara fram? Á einstaklingurinn að borga fullt gjald fyrir sig eða senda þá læknarnir reikninginn til ríkisins? Ekki beint góður kostur í hvoru lagi að mínu áliti, þar sem það fyrra þýðir að einstaklingur(neytandinn) hefur ekki efni á þessari þjónustu ef hann sé illa staddur og seinni kosturinn býður upp á það að rekstrarkostnaður hækkar af heilbrigðiskerfi ef læknarnir fara að selja sig dýrar en áður. Er ekki þá hagstæðara að hafa þá á launum hjá ríkinu? Gildir svipað um menntakerfið að manni finnst, jafnrétti til náms myndi hverfa og aðeins þeir efnameiri myndu geta farið í skóla eða peningarnir yrðu sóttir hvort sem er til ríkisins.
Hitt er aftur á móti annað mál að einkavæðing fyrirtækja sem eru í samkeppni
við þá sem eru á almennum markaði eru af hinu góða fyrir neytendann líkt og
símafyrirtæki sem nota sama kerfið. Þó finnst mér að ekki eigi að einkavæða
lagnakerfi Landsímans og verið er að gera því hin fyrirtækin neyðast til að
leigja af Landsímanum aðgang að fjarskiptakerfinu. Þar er ekki tryggður jafnur
aðgangur og þegar Landsíminn verður kominn í einkaeign geta þeir haft
geðþóttaákvarðanir varðandi verð til hinna. Einnig er þarft að minnka
ríkisstyrki til þeirra sem eru í samkeppni við aðra er fá enga styrki líkt og er
í gangi með landbúnaðarkerfið, veldur auðvitað harðnandi samkeppni sem skilar
sér til neytenda.
Allavega varð mín niðurstaða eftir hinar ýmsu hugleiðingar sú að ef á að vera einkavæða þá að gera það við samkeppnishluti en ekki við grunnkerfi eins og samgöngur, lagnakerfi Landsímans, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæsla og öll önnur grunnþjónusta velferðarkerfisins. Sumt má einnig leggja niður, nefndir og ráð sem eru eingöngu til þess að styrkja einkaaðila, líkt og Umboðsmaður íslenska hestsins og svoleiðis gæluverkefni. Þó vill ég ekki að Samkeppnisstofnun, Vinnueftirlitið og svoleiðis eftirlitsstofnair verði lagðar niður þareð þær hafa sýnt nauðsyn sína í samfélaginu með olíufélagasamraðsmalinu, grænmetissamráðsmálunum og aðbúnaðarmálum á vinnustöðum. Veit að þetta er ekki ásættanlegt meðal nýfrjálshyggjumanna en það er nauðsnylegt að hafa hlutlausan eftirlitsaðila til að fylgjast með að fyrirtæki og ríki brjóti ekki lög gagnvart almenningi í landinu.
Vonandi fær þetta einhverja til þess að hugsa um hvað beri að varast í þessum málum.