Sælt veri fólkið. Að vera ungliði hvaða stjórnmálaflokks sem er er gott hlutskipti þessa dagana. Enn hlandvolgt nýjabrumið af nýrri ríkisstjórn og tækifærin í stríðum straumum fyrir hvolpapólitíkusa sem vilja ná athygli herra síns með nógu háu gelti.

Til að vera með í leiknum og í anda einkavæðingaröfgasinnaðra meðlima ungliðaæsku davíðs kóngs hef ég sett saman hugmyndir sem eiga að gera einkavæðingu ríkisstjórnarinnar að veruleika.

Þar sem samband ungra sjálfstæðismanna sér djöfulinn í horni hverrar ríkisstofnunar og vill að ungir fjárglæframenn fái að læsa fingrum sínum í áður ósnertanlega hluti eins og ríkissjónvarp eða heilbrigðisþjónustu liggur beinast við að spyrja um það sem stjórnar öllu batteríinu, sjálfa ríkisstjórnina. Rök flestra með einkavæðingu byggjast oft á þeirri staðreynd að mörgum ríkisbáknunum er stjórnað með pólitík og flokkapoti, sem er slæm leið til að stjórna fyrirtæki.

Hver sá sem horfir (hver sá sem nennir því og þorir að segja frá því) á stjórnmálaumræður í sjónvarpi er einfaldur ef hann tekur ekki eftir málþófi, pólitískum bitlingum, hagsmunapoti, pólitískum árásum, pólitík…. Pólitík er leiðinleg, eða það myndi margur áhorfandinn segja, og vera sammála því að pólitík tefji fyrir.
Jæja nóg um það. Í nafni einkavæðingar ætti að taka fyrir þessi ráðuneyti.


Viðskiptaráðuneyti: Sjálfsagt mál væri að bjóða rekstur þess og málefni út. Bissness is bissness og kemur pólitík ekkert við. Nýrisnir bissnesmógúlar og reyndir gætu barist um hnossið og gæti td Baugur sett Jóhannes í stól ráðherra. Búbót væri í því að selja viðskiptaívilnanir (þetta er svo sniðugt tískuorð) á tilboði með kjötinu í kæliborðinu. Kolkrabbinn myndi hverfa með öllu og í stað kæmi stöndugur bónusgrísinn, merki um það hvað fjármálabraskarar í landið okkar eru í raun “cheap” Mikill bónus þar.

Umhverfisráðuneyti gæti farið til Landsvirkjunnar. Eldheit ástríða þeirra í verndun náttúru hefur sannað sig og gæti Siv Friðleifs í raun verði áfram Umhverfisráðherra þar sem hún er þegar á launaskrá hjá Landsvirkjun og herjar með þeim í breiðfylkingu gegn óbyggðum söndum og melum sem engin hefur hvort eð er séð.
Svo með skemmtigarði umhverfis spánýtt kárahnjúkaorkuver og kannski upplýsingamiðstöð um uppraðaða gróðursæld umhverfis vota gröf áður ómengaðrar náttúru sem uppistöðulónið yrði myndi Landsvirkjun festa sig í sessi.

Sjávarútvegsráðuneyti skráist á LÍÚ og verður eignarhaldsfélag, sjálfsagt formsatriði reyndar þar sem Árni M Mathiesen er þegar þægur háseti í sameiginlegum blóðsugutogara Íslenskra Útvegskónga og ráðuneytið sjálft bara lítil skrifstofa niðrí bæ sem á eftir að flytja í höfuðstöðvar Landssambands Íslenskra Útvegsmanna.

Dómsmálaráðuneyti fer til Jón Ólafssonar og fyrirtækjaveldis hans innlendis sem og erlendis. Fáir hafa jafnmikla innsýn í réttarfar Íslands og þekkja jafnmargar leiðir framhjá lagabálkum og reglum til að halda í ríkidæmi sitt fyrir aðeins skattskráðar 50-60 þúsund krónur á mánuði (eða var það minna). Svo gæti hann reyndar strokað út ónauðsynleg skattalög og leiðindarreglugerðir sem hafa þann eina tilgang að halda Jóni greyinu frá næsta milljarðamarki.

Samgönguráðuneyti fer til Flugfélags Íslands. Þar sem ólöglegt er víst samkvæmt tilvonandi herrum okkar í Evrópusambandinu að ríkisstyrkja einstaka fyrirtæki er sjálfsagt að koma þessu blessaða flugfélagi sem alla sína tíð hefur borðað úr hendi ríkisins á sjálfstæðar fætur. Flugfélagði gæti þá afnumið alla akvegi og ferjur og gert flugið að eina mögulega ferðamáta landsmanna. Minna dugar vart þar sem múgurinn þykist víst ekki hafa efni á því að fljúga þessa dagana.

Heilbrigðisráðuneyti fer til Pharmaco. Við Íslendingar erum aumingjar með hor sem veikjast meir með hverju árinu og eyðum samkvæmt því í heilbrigðisþjónustuna. Áður fyrr voru sjálfshjálparaðferðir notaðar og fólk sent heim með meinlitla kvefið sitt og smáverkina en nú skal gera gangskör á og selja þessu fólki nýjustu og dýrustu samheitalyfin ásamt fokdýrum alnæmislyfjum sem munu gera Pharmaco að veldi án samlíkingar og hreinsa þróunarlöndin af fátækum eyðnisjúklingum sem munu ekkert hafa efni á sullinu og deyja hvort eð er.

Forsætisráðuneytið legg ég til að verði gert að hlutafélagi og Halldór gerður stjórnarformaður. Konungur vor Davíð I verður áfram eigandi og verndari fyrirtækisins Íslands. Íslandco lengi lifi! Húrra! Húrra! Húrra! Húrraaa!
—–