Í morgun(17.september) renndi ég yfir Moggann að vanda og skimaði þar m.a. yfir frétt um samþykktir Davíðs-jungen(SUS) og þurfti svo að lesa handa vandlega aftur til að sía inn ýmislegt sem stóð þar. Fyrst er það nú landbúnaðarmálin en þeir vilja afnema styrkja og haftakerfið í landbúnaði. Það er nú gott og blessað er maður nú sammála þeim enda hefur þetta kerfi verið mikill þyrnir í mínum augum, eytt meira í það en menntamálin og er hvorki að skila sér til neytenda né bænda. Auk þess er mismunun innan kerfisins, þeir sem eru með rollur fá mest(ásamt mjólkurkúabændum) en fuglakjöt, svínin og nautin fá talsvert minna og nær því ekkert sem fer til nautgripabænda. Jæja, gangi þeim vel að koma þessu í gegn hjá flokksforystunni og Framsókn.
Svo skulum við snúa okkur að hinu sem var virkilega áhugavert, allt það sem var í tengslum við sjávarútvegsmálin, ég fór á heimasíðu SUS til að athuga hvort þetta væri rétt og sá þar Mogginn var ekki að plata mig, Mogginn lýgur aldrei:).
Ég ætla að taka það fyrir í þessari grein.
1. - Hafnað er með öllu hugmyndum stjórnvalda um svokallaða línuívilnun. Mikilvægt er að stjórnkerfi fiskveiða sé þannig úr garði gert að allir sitji við sama borð. Það gerir að verkum að allir geri út við sömu skilyrði í stað þes að ákveðnir útgerðarflokkar gera út á velvild löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Slíkt er að gerast nú með fyrirhugaðri línuívilnun fyrir ákveðinn útgerðarflokk. Með slíkri ívilnun er verið að færa veiðiheimildir frá einum aðila til annars líkt og sjávarútvegsráðherra hefur viðurkennt.
Verð nú að segja að sumu leyti hafa þeir rétt fyrir sér, mismun byggðar á kostnað annara gengur ekki. En er þessi tilfærsla ekki til staðar þegar innan kvótakerfisins á annan hátt með framsali aflaheimilda?. Nú er þetta einnig beint úr herbúðum LÍÚ sem hafa lagst á móti öllu sem heitir smábátaveiðar og hafa unnið ötullega að því að láta ríkisstjórnina drepa niður slíka útgerð. Línuveiðar eru eingöngu stundaðar af smábátum á dagróðri. Smábátaútgerð er sú sem kemur með mestan fisk á markað og til vinnslu í landinu á meðan stærri útgerð er yfirleitt með vinnslu í borð í skipum og/eða flytur beint út án þess að skapa mikla atvinnu í landinu.
2.“SUS fagnar því að hafnar séu hvalveiðar á ný eftir áralangt bann. Nauðsynlegt er að gæta jafnvægis þegar kemur að nýtingu sjávarstofna og því eðlilegt að hvalveiðar séu stundaðar til jafns við aðrar veiðar. SUS telur rétt að hvalveiðar fari fram undir sömu formerkjum og aðrar veiðar. Þær eru undir stjórn Hafrannsóknarstofnunnar, sem ákvarðar heildarkvóta í samræmi við stærð og veiðiþol stofnsins. Það er óþarfi að fela hvalveiðar á bak við vísindi, atvinnuveiðar skulu hefjast strax í samræmi við rétt Íslendinga til að nýta sínar auðlindir.Málflutningur umhverfisverndarsamtaka á borð við Greenpeace þegar kemur að verndum hvalastofna er með ólíkindum. Það er nauðsynlegt að Íslendingar láti ekki undan þrýstingi hentistefnu slíkra samtaka sem kjósa að beina spjótum sínum að smærri ríkjum í þeim tilgangi m.a. að vekja athygli á sér.Skorað er á þá hagsmunaaðila sem koma að nýtingu hvalastofnsins að leita leiða svo hámarka megi arðinn af nýtingu auðlindarinnar..” Gott hjá þeim en eigum við ekki að klára vísindaveiðarnar fyrst? Held að þeir viti eiginlega ekkert um þessar veiðar og hvað þær ganga út á og ættu að leita sér frekari upplýsingar um hvers vegna er verið að rannsaka dýrin. Þeir geta örugglega fundið upplýsingar á heimasíðu Hafró eða tala við einhvern þar.
3.“ Haldið verði áfram til frekara frjálsræðis með því að afnema höft á framsali aflaheimilda Enn fremur leggur SUS til að lögum verði breytt á þann hátt að aflaheimildir verði skilgreindar sem bein eignarréttindi. Núverandi kerfi leggur hömlur á ýmsa aðila sem koma að sjávarútvegi s.s. landvinnsluna sem hvorki getur keypt né ráðstafað kvóta að eigin forsendum.”- What the fuck???
M.ö.o. þá vilja þeir festa það í lög að útgerðarmenn eiga kvótann, ekki þjóðin og auka kvótabrask og sjá til þess að peningarnir færist á einar hendur. Núverandi höft sjá til þess allavega að það þarf allavega að veiða eitthvað til þess að menn fái áframhaldandi kvóta. Sumir af þessum mönnum sem auðgast hafa á kvótabraski hafa aldrei unnið handtak á sjó og látið skipið liggja við bryggju.
4.“Fjárfesting erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi verði heimilaðar. Aðgangur að erlendu fjármagni er grundvöllur frekari framfara og tækninýjunga í greininni. Núverandi hömlur á fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi er mismunun á sjávarútvegsiðnaði gagnvart öðrum greinum þegar kemur að því að sækja fjármagn á markaði.” Þetta er mjög umdeilt og e.t.v. stangast á það að þeir vilji ekki ganga í ESB en þar þyrftu þeir einmitt að opna fyrir fjárfestingum. Þessi yfirlýsing hefur greinilega ekki verið lesin yfir af forsvarsmanni LÏÜ.
5. “Afnema þarf lög um hámarkskvótaeign fyrirtækja. Lög um hámarkskvótaeign eru óhagkvæm, enda ætti kvótinn að vera á hendi þeirra sem mest vilja fyrir hann borga hverju sinni. ” Ahem, m.ö.o. þá eiga stórfyrirtækin að hafa allan kvótann og alls ekki leyfa smáköllum og smábátasjómönnum að komast í eigur LÍÚ. Hámarkskvótaeignin er til þess að sjá til þess að þetta dreifist allavega eitthvað, sem er mikill þyrnir í augum eigenda flokksins.
6. “Byggðakvóta ber að afnema. Hugmyndafræði að baki byggðakvóta er í besta falli vafasöm. Með úthlutun byggðakvóta er gengið þvert á allar kenningar um frjáls viðskipti og hagkvæmni. Þegar aflaheimildir eru færðar af handahófi á milli útgerða er hagkvæmni og skilvirkni fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir borð borin um leið og byggðarlögum er mismunað.” Bravó, ég hef aldrei verið hrifinn af byggðarverndarstefnu ríkisstjórnarinnar en það þarf samt að laga þetta á einhvern hátt innan kerfisins þannig að framsal aflaheimilda valdi ekki mismunun byggðarlaga. Þetta verður alltaf umdeilt.
7.“ Sjómannaafsláttur er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði útgerða af hálfu ríkisins og hvorki hagkvæmur né réttlætanlegur og ber því að afnema.”
Ef mig minnir rétt þá var sjómannaafslátturinn settur á til að fá fólk til þess að fara á sjó. Ég hef farið út á sjó og ég verð nú að segja að afslátturinn á fyllilegan rétt á sér. Fjarlægð frá fjölskyldu, mikil vinna, einangrun, mest vinnuslys, auk þess þurfa sjómenn enn að borga í olíu og kvótakaupum. Nú munir sumir segja að þeir séu svo vel launaðir en það á um bara lítinn hluta þessara manna, margir hverjir eru oft á kauptryggingu þegar lítið fiskast(ca. 120 þús á mánuði ef mig minnir rétt) og skip geta legið við bryggju mánuðum saman ef þau eiga engan kvóta. Kvótalítil og kvótalaus skip eru rekin á nippunni og menn þar rétt svo komast upp í 200-250 þús á mánuði og eru þá jafnvel 1-2 mánuði á sjó. Ef það á að leggja niður afsláttinn þa á einnig að leggja niður afslátt vegna hlutabréfakaupa og tryggja það að menn séu ekki borga bara fjármagnstekjuskatt af launum sínum með því að stofna gervifyrirtæki.
8.“SUS hvetur til kvótasetningu smábáta og þar með að allur fiskveiðiflotinn sé færður undir sama fiskveiðistjórnunarkerfið. ” Þeir hafa verið á sóknardagakerfi og allt gert til þess að fækka því hvað þeir mega vera marga daga á sjó.
9.“Það er sjálfögð krafa að sjávarútvegur njóti jafnræðis þegar kemur að skattlagningu. SUS leggur til að auðlindagjald verði fellt niður.” Auðlindagjaldið var sett á til að reyna að mynda einhverja sátt um aflaheimildakerfið. Þetta hefur verið mikill þyrnir í augum LÍÚ að þurfa að greiða fyrir sjálfsagðan eignarétt sinn í auðlindinni.
10.“Afnema þar þá einokunaraðstöðu sem Hafrannsóknarstofnun hefur við rannsóknir á vistkerfi sjávar og tillögur um heildarafla sem veiða má árlega. Nauðsynlegt er að koma á samkeppni á þessu sviði vísinda, líkt og ríkir um rannsóknir á öðrum vísindasviðum, til dæmis í efnahagsmálum þar sem margir aðilar gefa út verðbólguspá.
Til þess að samkeppni ríki á þessu sviði og fleiri en ein skoðun komist að í þessum mikilvæga málflokki leggur SUS til að Hafrannsóknarstofnun verði lögð niður í núverandi mynd og rekstur hennar færður í hendur einkaaðila. Jafnframt verði hagsmunaaðilum í greininni gert kleift að byggja upp fleiri ein eina rannsóknarstofnun á þessu sviði og stuðlað að því að fleiri en einn aðili rannsaki vistkerfi sjávar, áætli stofnstærð og mæli með ákvörðun um árlegan heildarafla við Íslandsmið.
” Jáhá, maður veit að Hafró hefur ekki verið vinsælt hjá hagsmunaðilum í sjávarútvegi. Þó það megi gagnrýni ýmislegt þar þá eru þeir hlutlausir aðilar í ráðgjöf og einkafyrirtæki í þessum bransa myndu enda hér á landi í yfirleitt eign hagsmunaaðila. Fiskveiðiráðgjöf er talsvert ólík verðbólguspám sem skipta ekki miklu máli fyrir þjóðarbúið þar sem einvher Kaupþingstöffarinn leikur sér með excel og gerir e.t.v. innsláttarvillu. Talsverð gagnasöfnun fer fram og ég á einhvern bágt með að sjá einkafyrirtæki standa í óarðbærum rannsóknum eins og á lífríki sjávar(átu, sjávarhita o.fl.) heldur myndu þau einblína á rannsóknir á nytjastofnum eingöngu sem hagsmunaaðilar væru til í að borga fyrir. Auk þess kæmu þá e.t.v. mismunandi niðurstöður frá mismunandi aðilum, gaman að hlusta á þá rífast hver sé með bestu niðurstöðuna og yrði örugglega svipað og ef Veðurstofan yrði einkavædd, aðeins bestu veðurspárnar birtar enda söluvænlegastar. Í öllum löndum sem stunda hafrannsóknir er það ríkið sem sér um rannsóknirnar á auðlindinni(meira að segja BNA) og ég efast um að sjálfstæðar skoðanir sem ganga á móti vilja eigenda einkafyrirtækisins yrðu leyfðar í ráðgjöf. Auk þess eru svona rannsóknir dýrt batterí með enga hagnaðarvon og ríkið þyrfti að borga brúsann hvort eð er miðað við vælið í útgerðina hvað þeir eiga bágt þegar kemur að því að þurfa að borga eitthvað.
Einnig hefur það nú verið svo að öll þau ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með sjávarútvegsmál að þeir hafa farið ávallt fram úr ráðgjöf Hafró um ákvörðun hámarkskvóta(fyrir utan Þorstein Pálson þegar hann náði að verða óþægur og minnkaði kvótann)
Mín niðurstaða allavega eftir lestur þessarar ályktunar er að þetta er eins og klippt beint ur stjornarsamþykkt LÍ, maður veit nú að þeir eiga Sjálfstæðisflokkinn en þeir gætu nú reynt að fela það. Vonandi mun fólkið sem stóð að þessari yfirlýsingu ekki fá völd í hendurnar og sérstaklega ekki í þessum málum því þetta er til þess fallið að tryggja það að auðlindin mun bara vera fyrir fáa útvalda þar til að fiskimiðin verði orðin að auðn og þeir skella sér til Kanarí eða Karabíska hafsins með gróðann Ég ætla nú að renna yfir restina af þessu og e.t.v. taka eitthvað betur fyrir og svo ef einhverjum skyldi detta það í hug þá er ég ekki Frjálslyndur.