Jæja, núna er maður loksins skriðinn undan feldinum. Ég las slatta af þessum ágæta vef sem þú bentir mér á.
Eftir að hafa vaðið fram og til baka eins og jójó í skoðun minni, er niðurstaðan sú að ég er í grundvallaratriðum sömu skoðunar og áður, þó hún sé útfærð aðeins öðruvísi.
Þú bendir réttilega á að þetta lýðræði sem ég þrái svona ógurlega, sé ákveðin ógn við einstaklingsfrelsið, sem er algert grundvallaratriði. En gallinn við þennan rökstuðning, er að siðferðislegur réttur til einstaklingsfrelsis (sem er greinilega að mínu mati sem og þínu, alger), er að mínu mati að siðferðislegur réttur þjóðar til þess að ráða sínum málum, er jafn.
En hið sama er hægt að segja um hitt; ég tel það ákveðna hræsni að leyfa einstaklingnum að mála veggina sína svarta en ekki að leyfa almenningi t.d. að kjósa um stríðsþátttöku, hvort heldur sem það er til hins betra eða verra.
Málið er siðferðislegs eðlis, og er ekki spurning um það hvað sé betra eða jafnvel praktískara, heldur “réttara”.
Eftir þessar vangaveltur lít ég dæmin sem þú tókst áður öðrum augum, og nú skil ég Sókrates-tilvitnun þína mun betur.
Þú spyrð hvort lýðræðið hefði átt að ráða þá, og ég segi alfarið nei, vegna þess að þar klikkaði nákvæmlega sama grundvallaratriði og ég trúi á í sambandi við lýðræðið; einstaklingsfrelsið. Það þurfti að eyða frelsi Sókratess til þess að tryggja lýðræðið, hvort tveggja sem ég tel tiltölulega heilagt.
Svo er verkfræðilega vandamálið við að koma algeru einstaklingsfrelsi á. Lýðræðið er í eðli sínu mjög gott tól til þess að losna við það að almúginn noti ofbeldi til að fá sínu fram, og til þess að ég eða þú, getum haft þær afleiðingar í för með okkur að einstaklingsfrelsi verði gulltryggt í stjórnarskrá eins og við báðir viljum, verðum við að hafa eitthvað um það að segja. Og þá þurfum við þetta lýðræði sem ég er að tala um.
Kæmist einstaklingsfrelsið að, þyrfti líka að réttlæta það. Það væri að mínu mati ekki nógu gott að segja bara “það á bara að vera þannig vegna þess að ég vil að það sé þannig, jafnvel þó að 90% þjóðarinnar sé á móti því”. Réttlætingin er nákvæmlega sú, að lýðurinn sjálfur, alþýðan, hefur komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingurinn skuli njóta sömu réttinda og almúginn; réttinda til þess að fara með eigin málefni.
En það er rétt sem þú segir, og við erum sammála þar, að almúginn á ekki að ráða yfir einstaklingnum, bara yfir því sem snertir almúgann sjálfan, t.a.m. því sem gert er í nafni þjóðarinnar.
Rétt eins og öfugt. Einstaklingur á ekki að ráða yfir múgnum. Og ÞAÐ, er það sem ég gagnrýni við núverandi stjórnvöld með upprunalegu greininni, að valdið sem siðferðislega ætti að vera fólskins, er í höndum fárra, jafnvel í þeim málum þar sem yfirvöld hafa engu nákvæmari heimildir en almenningur, og er þá best að nefna stríðið. Hann las sömu greinarnar, hann heyrði sömu röksemdirnar, enda hafði hann rétt fyrir sér. Þar vissi almúginn alveg hvað hann var að tala um, og hann átti að ráða þessu.
Svo gætum við tekið annað málefni. Kannabiseign og neyslu. Ég er 120% hlynntur lögleiðingu neyslu og eign á kannabisefnum, þrátt fyrir það að 75% þjóðarinnar (samkvæmt könnun Morgunblaðsins, að mig minnir) sé “mjög andvíg” (orðrétt). Þegar ég las þetta varð ég auðvitað að spyrja mig hvort ég væri ekki hræsnari fyrir að heimta lögleiðingu kannabisefna en jafnframt að hafna andstæðri niðurstöðu, byggðri á kerfi sem ég væri nákvæmlega jafn hlynntur.
Ég get ekki kallað það hræsni lengur af sjálfum mér, að vilja lögleiða kannabisefni en jafnframt brjóta í bága við vilja þjóðarinnar; vegna þess að þarna er þjóðin sjálf að brjóta á rétti einstaklingsins; sem er eitthvað sem ég get alls ekki tekið undir. Ekkert frekar en að ég get tekið undir bann á eign og neyslu kannabisefna… en ekkert síður heldur.
Þú hefur ekki beinlínis breytt afstöðu minni, en haft mjög jákvæð áhrif á hana. Ég er ennþá fastari en fyrr á því að einstaklingsfrelsi og lýðræði séu siðferðislega nákvæmlega sami hluturinn, EN, þú hefur aftur á móti komið vel þeim punkti á framfæri, sem ég tek algerlega undir, að einstaklingsfrelsinu má alls ekki fórna fyrir lýðræðið. Ég bæti hinsvegar við, “né öfugt”.
“Lýðræðið er í eðli sínu mjög gott tól til þess að losna við það að almúginn noti ofbeldi til að fá sínu fram”
Þvert á móti er lýðræði, þar sem frelsi er lítið og/eða vald stjórnar er mikið, tilvalið tól til að almúginn geti notað ofbeldi til að fá sínu fram. En lýðræðið er á móti ágætis tól þar sem frelsi er mikið til að hafa hemil á stjórninni því hún endurnýjast í sífellu. Ef þú skoðar skrif t.d. Thomas Paine og Jefferson þá má sjá að einmitt þess vegna var látið reyna á lýðræði í Bandaríkjunum, svo enginn einn gæti tortímt frelsinu sem þeir börðust svo hart fyrir.
“Kæmist einstaklingsfrelsið að, þyrfti líka að réttlæta það”
Réttlæta það fyrir hverjum? Frelsi er í eðli sínu réttlátt. Og raunar, samkvæmt Aristóteles, þá er réttlæti ómissandi til að tryggja frelsi, og öfugt.
“Réttlætingin er nákvæmlega sú, að lýðurinn sjálfur, alþýðan, hefur komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingurinn skuli njóta sömu réttinda og almúginn; réttinda til þess að fara með eigin málefni.”
Nei, nei og aftur nei. Réttlætingin felst í eþík, í rökréttu og hlutlægu siðfræðislögmáli. Það felst enginn réttlæting í samþykki alþýðunnar, og reyndar er það þversögn við einstaklingsfrelsið að það skuli einungis vera “réttlætanlegt” ef ákveðinn meirihluti segir það. Það er ekki frelsi, heldur leyfi.
Sem dæmi, ef 10 menn af 1000 eru þrælar og einn þeirra krefst frelsis “bara af því að hann vill það”, þarf hann þá að fá leyfi hinna 9, eða hinna 999 til að “réttlæta” frelsi sitt?
Eins og þú segir sjálfur: “Málið er siðferðislegs eðlis, og er ekki spurning um það hvað sé betra eða jafnvel praktískara, heldur ‘réttara’.”
Er þá mælikvarðinn á hvað sé réttara hversu stór meirihluti alþýðunnar er sammála?
“Rétt eins og öfugt. Einstaklingur á ekki að ráða yfir múgnum.”
Hugsaðu aðeins um þetta. Það er ekki til neinn múgur. Þú gætir alveg eins sagt “einstaklingur á ekki að ráða yfir öðrum einstaklingum”. Múgurinn er ekkert annað en hópur einstaklinga sem hafa réttindi hver um sig. Hópurinn er ímyndun þín, en einstaklingarnir eru raunverulegir hver fyrir sjálfum sér. Hver og einn þeirra er frjáls og hugsandi, óháður hinum. Og að sjálfsögðu á enginn þeirra að ráða yfir hinum.
“Ég get ekki kallað það hræsni lengur af sjálfum mér, að vilja lögleiða kannabisefni en jafnframt brjóta í bága við vilja þjóðarinnar; vegna þess að þarna er þjóðin sjálf að brjóta á rétti einstaklingsins;”
Það er hún svo sannarlega að gera, og ég get heilshugar verið sammála þér að bönn við hvers konar neyslu og sölu eru óréttmæt.
“Ég er ennþá fastari en fyrr á því að einstaklingsfrelsi og lýðræði séu siðferðislega nákvæmlega sami hluturinn”
Þar er ég að hluta til sammála þér, en það er þá líka til lýðræði og lýðræði. Annars vegar demókratískt lýðræði þar sem allt vald á himni og jörðu er falið í atkvæði og örlög manna eru ákveðin af lýðnum einum saman. Hins vegar er svokallað republic, þar sem ekkert (eða takmarkað) vald er falið í atkvæðum og enginn ræður örlögum annars. En “republic” er líklega afbakaðasta orð í sögunni, þannig að í nútímalegri orðum skulum við kalla slíkt laissez faire kapítalisma, eða “neytendalýðræði”.
Undir slíku kerfi er kosið, en aðeins til að ákvarða stöður sem fara með málefni ríkis. Þeim stöðum er ekkert vald gefið yfir fjármálum, trúmálum, atvinnuvegi, samgöngum né neinu slíku. Heldur aðeins vald yfir dómi og lögum. Slíkt kerfi þolir engan veginn beint lýðræði því dómur og lög verða að vera hlutlæg. Atkvæði mæla á huglægan hátt, sem er ágætt til að velja menn í stöður, en ekki til að ákveða dóm og lög.
Við búum að vissu leyti við síðara kerfið, en þó töluvert í bland við það fyrra. Það holdgast í því að stjórn sem er kosin fer með meira vald en æskilegt eða réttlátt er.
0
Veistu, mig er farið að gruna mjög sterklega að við séum í rauninni bara nokkuð sammála. Mér sýnist þú einfaldlega vera að ræða þetta út frá heimspeki, á meðan ég er að reyna að troða þessu inn í stjórnmál.
Og jájá, samkvæmt Jefferson og hinum og þessum ágætis körlum er frelsið jafn mikið grundvallaratriði og þú og ég viljum meina. En það er bara ekki nóg að það sé það, fólk þarf líka að vera sammála um það. Ellegar berjast fyrir því… með vopnavaldi. Og þar kemur lýðræðið inn í.
Ég þarf ekkert að réttlæta það fyrir sjálfum mér, hvort ég hafi rétt til þess að segja það sem mér sýnist. Hinsvegar, ef ég fer í beinni útsendingu að tala um skoðun mína á t.d. fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, þá dugar það ekki til að ég réttlæti það fyrir SJÁLFUM MÉR, að ég megi það ef mér sýnist að gera svo.
Þá eru nefnilega allir sem horfa á, komnir inn í spilið, og hvort sem þeir hafa rétt á því að hafa skoðun á mínu framferði eða ekki, HAFA þeir skoðun á framferði mínu. Og þess vegna þurfa allir einhverjar algerar grundvallarforsendur til þess að miða við, til þess að rökstyðja mál sitt. Við byrjum á því að komast að því litla sem við erum sammála um, til þess að byggja restina ofan á. Svo er auðvitað misjafnt hvaða grundvallarforsendur menn gefa sér, og þú ert mjög greinilega mjög einbeittur á einstaklingsfrelsið.
Ég skil alveg hvað þú meinar, og ég er sammála þér í grunnatriðum, EF við erum að gefa okkur þær forsendur sem við tökum marktækar, á borð við orð Jeffersons og annarra ágætra manna sem þú nefnir. Ef við GEFUM OKKUR þær forsendur er ég fullkomlega sammála þér. Ég er hinsvegar á móti því að við setjum allt sem ríkisstjórn á að stjórna, undir þau grundvallaratriði bara vegna þess að ÉG SJÁLFUR er sannfærður um þau grundvallaratriði. Það eru grundvallaratriði þegnanna sem skipta máli.
Ég held við mína skoðun, og ég er sammála þér “in theory”. “In practice” hinsvegar, er ég það ekki.
0
“En það er bara ekki nóg að það sé það, fólk þarf líka að vera sammála um það”
Til að frelsið eigi rétt á sér þarf enginn að vera sammála um það nema sá sem vill vera frjáls. Aftur ef nægur hellingur fólks er ósammála um að einn skuli vera frjáls, þá er líklegt að frelsi hans verði lítið. Hann hefur jafnan rétt á frelsi fyrir það.
“Ég er hinsvegar á móti því að við setjum allt sem ríkisstjórn á að stjórna, undir þau grundvallaratriði bara vegna þess að ÉG SJÁLFUR er sannfærður um þau grundvallaratriði.”
Sammála því, þess vegna er það grundvallaratriði að ríkisstjórnin stjórni sem allra allra minnstu, til að sem allra mest sé undir sannfæringu hvers og eins komið. Pólítískt frelsi er ekki mögulegt öðruvísi.
Ríkið er vald, og þeir sem fara með vald ríkisins hafa vald yfir samborgurum sínum. Við getum aldrei skilið að ríki og vald. Þetta skildu stofnfeður fyrsta stjórnarskrárbundna lýðvelsisins ósköp vel. En til að frelsi og réttlæti fái sín að njóta verður að skilja að vald og vilja. Annars er næsta víst að þeir valdlausu lúti vilja valdhafanna.
Til að tryggja trúfrelsi verður að skilja að ríki og kirkju, til að tryggja viðskiptafrelsi verður að skilja að ríki og viðskipti, o.s.frv. Að öðrum kosti verður alltaf einhver sem beitir valdi ríkisins gegn frelsi annarra. Og skilgreiningin á frelsi er einmitt þessi, að vera laus við valdbeitingar.
Það er því ekkert skrýtið að stofnfeður Bandaríkjanna hafi kallað ríkisvaldið nöfnum eins og “necessary evil”, og þá ekki í gríni. Þeim var dauðans alvara. Í orðum Washington:
“Government is not reason. It is not eloquent. It is force. Like fire, it is a dangerous servant and a fearful master.”
0
Mér finnst alveg mögnuð, þessi virkilega einlæga trú á því að einstaklingsfrelsið sé æðra öllu öðru.
Ég festist sífellt á þeirri niðurstöðu að þessar pælingar þínar eigi heima meira í heimspeki en í stjórnmálum, og með ÞEIM forsendum er ég alveg sammála þér.
En það er ekkert gaman að því, rífumst smá.
“Til að frelsið eigi rétt á sér þarf enginn að vera sammála um það nema sá sem vill vera frjáls. Aftur ef nægur hellingur fólks er ósammála um að einn skuli vera frjáls, þá er líklegt að frelsi hans verði lítið. Hann hefur jafnan rétt á frelsi fyrir það.”
En heldurðu að ríkisvaldið sé eina valdið? Ef einstaklingsfrelsið væri svona algert eins og þú talar um, hver ætlar að stöðva nágranna þinn í því að hindra frelsi þitt?
Svarið er einfalt. Sá sem hefur meira af vopnum. Þá hefur valdið einfaldlega færst úr því að heita “ríki”, og orðið að einræði þess valdamesta. Þetta er nú ástæðan fyrir því að almúginn sá ástæðu til þess að koma á skipulagi til að byrja með; sameiginleg trygging allra um að þeir sem væru einfaldlega sterkastir (í HANDAFLI, þess vegna, hvað þá með nútímaþáttum eins og vopnum og gáfum), myndu ekki ráða yfir öllum hinum.
Svo var ríkið ekki að standa við sitt, þannig að það varð til lýðræði, sem er auðvitað svona patch ofan á patch ofan á patch, en það er ekki þar með sagt að það eigi allt saman að víkja, bara til þess að undirstrika að einstaklingsfrelsið gæti verið betra í Útópíu.
Sameiginlegt ríki allra landsmanna er alls ekkert það eina sem heldur uppi skoðunum og viðhorfum á almenningi með valdi. Ef það væri ekki fyrir ríkið, væri sá þáttur yfirvalds einfaldlega í höndum sterkra einstaklinga (hvernig sem þú vilt túlka “sterkra”).
0
“Mér finnst alveg mögnuð, þessi virkilega einlæga trú á því að einstaklingsfrelsið sé æðra öllu öðru.”
Og þér má finnast það því þú ert jú frjáls einstaklingur með eigin hugsanir og skoðanir.
“Ég festist sífellt á þeirri niðurstöðu að þessar pælingar þínar eigi heima meira í heimspeki en í stjórnmálum”
Stjórnmál eru náskyld heimspeki. Það er engin pólítík sem ekki byggir á einhverskonar heimspeki. Í rauninni er ekkert, hvorki vísindi né listir, sem byggja ekki á heimspeki. Það skiptir ekki máli hvort þú gerir þér grein fyrir því eða ekki, þú notar heimspeki meðvitað og ómeðvitað á hverjum degi.
Það eru engin rök að brennimerkja eitthvað “heimspeki” og telja það afgreitt.
“En heldurðu að ríkisvaldið sé eina valdið?”
Nei, en ríkisvaldið er yfirgnæfandi valdið, og sterkasta aflið í hverju samfélagi. Vald ríkisins er einnig fest í lög, og er þannig sjálf-styrkjandi.
“Ef einstaklingsfrelsið væri svona algert eins og þú talar um, hver ætlar að stöðva nágranna þinn í því að hindra frelsi þitt?”
Ég. Og ef ég get það ekki þá kalla ég á ríkisvaldið til að aðstoða mig í krafti laganna að vernda frelsi mitt.
“Svarið er einfalt. Sá sem hefur meira af vopnum. Þá hefur valdið einfaldlega færst úr því að heita ”ríki“, og orðið að einræði þess valdamesta. Þetta er nú ástæðan fyrir því að almúginn sá ástæðu til þess að koma á skipulagi til að byrja með; sameiginleg trygging allra um að þeir sem væru einfaldlega sterkastir (í HANDAFLI, þess vegna, hvað þá með nútímaþáttum eins og vopnum og gáfum), myndu ekki ráða yfir öllum hinum.”
Já! Húrra. Þetta er alveg rétt. Þarna í upphafi ertu að tala um algjört skipulagsleysi, eða anarkisma. Afleiðingin er síðan, eins og þú segir, einræði. Svona var nærri allur heimurinn á miðöldum t.d. Menn réðu einfaldlega því sem þeir gátu haldið með vopnavaldi. Og réðu yfir þeim mönnum sem þeir gátu ógnað nægilega.
Mér sýnist þú vera búinn að týna þræðinum sem þú varst búinn að finna hérna áður. Lýðræðið var ekki lausnin á einræðisvandamálinu og anarkismanum. Lausnin var að setja í lög takmarkað ríkisvald og láta einstaklingum eftir allt frelsi annað en að beita aðra einstaklinga valdi að fyrra bragði. Þetta er ótrúlega einföld hugmynd, og hið farsælasta stjórnarfar í allri mannkynssögunni.
Slíkt stjórnarfar hófst fyrst í Bandaríkjunum á seinni hluta 18. aldar. Ef þú vilt kynna þér þessar hugmyndir nánar vil ég mæla með að þú lesir skrif þeirra sem voru uppi þá og tóku þátt í þeirri endurreisn. Og þú munt komast að því, þér til mikillar furðu, að lausnin var ekki lýðræði heldur frjálsræði. Ekki “democracy” heldur “limited republic”.
Ég ætla að gefa þér stuttan lista yfir skrif sem þú ættir að kynna þér, og í raun allir ættu að kynna sér sem hafa áhuga á stjórnmálum eða stjórnmálasögu, og kenningum um hlutverk ríkisins.
1. Aristóteles. Faðir rökfræðinnar og sá sem mótaði helst gríska eþík og hugmyndir um réttlæti.
2. Thomas Aquinas. Enduruppgötvaði aristóteles eftir myrkaldir og hóf endurreisn grískrar hugsunar.
3. Frederic Bastiat. Endurreisnarsinni í frakklandi á 19. öld. Veltir fyrir sér lögum, réttlæti, lýðræði og pólítík. Gífurlega áhrifamikill fyrir franska byltingar- og lýðræðissinna. Enn áhrifamikill fyrir frjálshyggjumenn nútímans.
4. James Madison, Thomas Jefferson og Thomas Paine. Áhrifavaldar og hugsuðir amerísku byltingarinnar.
5. Ayn Rand og Leonard Peikoff. Endurreistu á 20. öld kenningar Aristótelesar og amerískra byltingarsinna og útfærðu þær nánar í pólítík, listum og menntun.
0
Við erum löngu komnir í hring, félagi. Mig langar bara að svara einni klausu frá þér sem ég tel útskýra ótta minn dálítið.
“Nei, en ríkisvaldið er yfirgnæfandi valdið, og sterkasta aflið í hverju samfélagi. Vald ríkisins er einnig fest í lög, og er þannig sjálf-styrkjandi.”
Ríkisvaldið er einmitt yfirgnæfandi valdið, og sé það lýðstýrt er það lítið vandamál á meðan einstaklingsfrelsið er virt jafnt lýðræðinu (enda, eins og ég kom inn á áður, nákvæmlega sama fyrirbærið bara með stigsmun, ákvarðanarétt hlutaðila).
NEMA auðvitað, þegar stórfyrirtækjum og auðmönnum eru gefin of mikið völd. :) Og hvort sem þessi Útópía þín gerir ráð fyrir því ekki, eru peningar gríðarleg völd. Til þess einmitt að það sé hægt að halda uppi velferðarkerfi, þarf einmitt að vera mótvægi, sem er ríkið. Og til þess að ríkið verði ekki bara enn eitt fyrirtækið sem sér um eigin hagsmuni, þarf það að vera lýðstýrt.
Auðvitað notar maður heimspeki í daglegu lífi, ég var ekkert að dissa heimspeki. Það er vanmetið fag, ég er bara ósammála því að blanda saman hugleikjum og útópískum hugsunarhætti saman við stjórnmál. Heimspeki er svo mikið “in theory” hvað varðar stjórnmál, það þarf líka að taka inn í myndina “in practice”, sem oft er alls ekkert það sem “in theory”-hlutinn sagði til um. Þetta ættir þú að vita eftir þennan lestur þinn.
Ég held við höfum ekkert komist áfram í umræðunni. Lýðræði og einstaklingsfrelsi eru ennþá nákvæmlega jafn mikil grundvallaratriði fyrir mér, og þú ert ekki ennþá að skilja hvað ég er að fara með því að líkja því saman. Eða kannski ertu því bara ósammála í grundvallaratriðum, ég sé allavega ekki að við getum sannfært hvorn annan. :) Verum bara sammála um að vera ósammála, þó það sé orðið klisja. ;)
0
“Og hvort sem þessi Útópía þín gerir ráð fyrir því ekki, eru peningar gríðarleg völd.”
Nei. Peningar eru einskis konar vald. Með peningum einum saman geturðu aldrei þvingað neinn til neins. Það þarf alltaf að koma til meðvituð sjálfstæð ákvörðun viðkomandi svo peningar hafi nokkuð að segja. Það er aðeins hægt að nota peninga til að skipta þeim fyrir eitthvað verðmætt, en, og taktu nú eftir, aðeins ef hinn aðilinn er tilbúinn að skipta verðmætunum fyrir peningana. Þar endar hlutverk peninga og það er eina nytsemd þeirra.
Það nægir þér ekki að segja að peningar séu gríðarleg völd, “sama hvort” þetta og hitt “gerir ráð fyrir því”. Þú verður að sýna fram á nákvæmlega hvernig peningar eru völd því það er ekki viðtekinn sannleikur hérna megin.
Vissulega, ef einhver hefur völd, óháð fjármagni, þá getur annað boðið honum fjármagn til að nýta þau völd til einhvers tilgangs. En vandamálið liggur ekki í peningunum heldur í valdinu sjálfu. Það þarf að spyrja hvort umrætt vald eigi rétt á sér á annað borð, einmitt vegna þess að vald er hægt að misnota.
Dæmi: stjórnin hefur algjört vald (segjum sem svo) yfir hvernig bíl þú mátt kaupa. Jón bílasali gefur stjórninni milljón til að ákveða að þú megir aðeins kaupa bíl frá honum, sem kemur sér auðvitað ferlega illa bæði fyrir þig og aðra bílasala en Jón. Vandamálið er ekki að Jón er of efnaður heldur að stjórnin hefur of mikið vald. Færðu valdið yfir á “lýðinn”. Vandamálið er það sama. Ef Jón er nógu efnaður (eða vinsæll og skemmtilegur) þá getur hann sannfært meirihlutann að kjósa sína tegund af bílum sem hina einu réttu. Hins vegar, ef enginn hefur þetta vald getur hver sem er keypt hvaða bíl sem er af hverjum sem er, eins og vera ber.
Þetta finnst þér kannski fjarstæðukennt dæmi, en skiptu Jóni bílasala út fyrir ÁTVR, RÚV, Tryggingastofnun Ríkisins, Húsnæðislánasjóð eða hvaða ríkisapparat sem er og þú sérð þá að þetta er ekki svo langsótt.
“Verum bara sammála um að vera ósammála”
Ég held að það sé frekar skilningsbrestur hjá hvorum fyrir sig frekar en að við séum í grundvallaratriðum ósammála.
0