Jæja.

Kannski útúrdúr úr stjórnmálum, en Íslenskum fjölmiðlum hefur tekist að koma þessu málefni inn í stjórnmálalegt horf, sem og að þjóðarleiðtogar eru að taka þátt í þessari umræðu. Eftir að hafa eytt öllum deginum í tremmakasti yfir skattamálum, held ég að það sé rétt að skrifa um eitthvað sem er aðeins meira hlægilegt heldur en sorglegt.

Og það er Kaþólska kirkjan.

Páfinn vill skera upp herör gegn þeirri plágu sem hjónabönd samkynhneigðra eru. Það eru ekki ómerkari menn en gáfnaljósið George W. Bush sem er sammála Páfanum að þessu sinni, og fullyrðir það semsagt að hjónaband karls og karls geti aldrei orðið eins og karls og konu. Hvort sem maðurinn er að tala af eigin reynslu eða samkvæmt eigin trúarbrögðum má vera að einstaka manni þyki óljóst, en hitt er alveg á hreinu að “sannkristin” trú þolir ekki samkynhneigð karla, þó að samkynhneigð kvenna sé reyndar hvergi fordæmd í Biblíunni samkvæmt minni bestu vitund.

Í Morgunblaðinu frá Þriðjudeginum er smá skeina af síðu þar sem fjallað er stuttlega um það að ungir Samfylkingarmenn afhentu helsta presti Kaþólikka á Íslandi bréf til Páfa, þar sem þessi afstaða Páfans er gagnrýnd. Presturinn, greinilega einhver að aldri, tekur þarna auðvitað kurteisislega við þessu og kveðst ætla að koma því áfram, án þess að taka fram eigin skoðun á málinu, en Kaþólikkar eru víst ekkert allir sammála um rétta afstöðu gagnvart þessu máli.

Sem er merkilegt, vegna þess að mér skildist að Páfinn væri óskeikull.

Mér þykir nefnilega svo merkilegt að menn hafi ennþá fyrir því að hlusta á það hvað Páfinn telji rétt eða rangt. Það var árið 1996 sem Páfinn yfirlýsti það að þróunarkenning Darwins og sköpunarsaga Biblíunnar gætu mögulega stemmað saman. Það var einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar sem annar Páfi tilkynnti almúganum það að þróunarkenning væri ekki bara tóm vitleysa. Þar áður hafði þróunarkenningin verið harðlega gagnrýnd og fordæmd algerlega af Kaþólsku kirkjunni.

Sem minnir mig á það! Hvað var aftur málið þarna með Galileo Galilei? Æjá, sólin snýst víst í kringum jörðina. Og jörðin er víst flöt, alveg rétt!

Merkilegt að menn segja að vísindamenn gömlu tímanna hafi talið að jörðin væri flöt. Jájá, steinaldarmenn töldu svo eflaust vera, en það hefur verið Kaþólska kirkjan sjálf, sem hefur verið að grafa upp ótrúlegustu hluti úr Biblíunni, reiknandi út eitthvað sem passar alltaf svo skemmtilega við fyrri heimsvaldastefnu þeirra, sem menn kalla síðan vísindalegar athuganir seinna meir.

Vitið þið hvers vegna jörðin var flöt? Vegna þess t.d. að í Biblíunni er minnst á… “allt til enda veraldar”, í einhverju ljóði. Þetta er á meðal rakanna. Getið þið hugsað ykkur? Ég get líka ekki betur séð eftir eigin lestur á fyrsta guðspjalli nýja testamentisins, að sá sem rúnkar sér með hægri hendinni skuli skera af sér handlegginn, en að rúnka sér með vinstri handleggnum er víst í fínu lagi. Ég er í alvöru ekkert að snúa út úr hérna, svona skil ég bókstafinn! Og ætla menn að taka mark á þessu?!?

Ókei, gefum þeim nú smá séns. Gefum okkur að það sé til þessi líka prýðilegi Guð og hann sé góður og Jesús sé bestur og allt þetta. Trúa þessir menn virkilega því að Guð líti niður á mannkynið, sjái 6 milljarða þeirra og hugsi, “Hmmm… fjárans Palestínumenn að slátra Gyðingunum mínum, en fjandinn hirði þessa helvítis homma! Þeir munu sko brenna í víti ef þeir láta ekki af þessum viðbjóði!”

Mér finnst þetta heldur fyndin kenning, sérstaklega í ljósi þess að mér skildist að Guð væri góður. Umburðarlyndur og fyrirgjöfull. Ekki hómófóbískur síonisti sem notar kosinn karlskratta á jörðu niðri til þess að halda uppi allri þeirri mestu vitleysu sem gengur á bóga við vísindaþekkingu manna á hverjum tíma fyrir sig.

Eða nei, fyrirgefið! Það er víst sá Guð sem er teiknaður í Biblíunni góðu!

Ekki misskilja mig, ég virði Kristna trú, eða öllu heldur, það sem hún gengur út á, og Jesús var vissulega maður sem menn hefðu gott af því að taka meira mark á. En það eru takmörk fyrir því hverslags vitleysu er hægt að umbera án þess að brosa a.m.k. í annað, eða jafnvel bara skellihlæja. Biblían er holl lesning, en hún er trúarrit. Hún er ekki heilagur sannleikur, Páfinn er ekki alvitur, og stjórnmálamenn, hvort sem þeir tilheyra Repúblikanaflokk Bandaríkjanna eða Samfylkingu Íslands, ættu að láta það í friði að blanda saman stjórnmálum og trú.

Og að lokum kaldhæðnishjal til þess að tryggja mér bedda á himni.

Fyrirgefðu, Páfi! Ég veit að þú ert óskeikull! Ég veit að jörðin er flöt og ég veit að sólin snýst í kringum jörðina en ekki öfugt! Ég veit að það er rangt að vera gagnkynhneigður! Og skattstofan í Reykjavík er sanngjörn og berst fyrir réttlæti skattborgara og svín fljúga!

Ó, og George W. Bush heldur afstöðu sinni vegna þess að hann er svo gáfaður!

I rest my case.