/* Þetta er bréf sem ég sendi Gesti Steinþórssyni, skattstjóra í Reykjavík. Ég ætla að deila því með ykkur þar sem það á ekkert síður við almenning heldur en háttvirtan skattstjóra. */
Sæll vertu, Gestur.
Mér skilst að þú sért Gestur Steinþórsson, skattstjóri í Reykjavík. Endilega leiðréttu mig ef það er rangt hjá mér.
Ég heiti Helgi Hrafn Gunnarsson, og ég er með fjórar frábærar hugmyndir sem ég held að myndi gera lífið mun léttara bæði fyrir skjólstæðinga ykkar og ykkur sjálf.
Áður en ég læt vaða, vil ég biðja þig um að láta mig vita ef ég er að senda röngum manni bréf. Ég ætlast ekki til neins af neinum sem er ekki í þess sama verkahring, og ég tek það ekkert nærri mér ef þú bendir mér á einhvern annan sem ég þarf að tala við til þess að fá gagnrýni við þessum hugmyndum.
Hugmynd númer 1.
Hún er sú að fjölga fólki í símsvörun. Ég er núna bókstaflega búinn að eyða heilli hleðslu af mjög nýlegri rafhlöðu í bið. Reyndar hafa eflaust farið heilar 5 mínútur eða svo í raunverulegt tal við manneskjur, restin hefur verið bið. Fyrir utan það, er mjög erfitt að ná sambandi inn til ykkar yfirhöfuð, eftir að línan hafði gefst upp í allan dag við að reyna að komast inn á skiptiborð, smellti ég á 1 og fékk þá samband við Sjöfn í þungaskattinum, og hún gat komið mér inn á línu til skiptiborðs, og eflaust hefur það ekki tekið nema 20 mínútur af bið, en síminn lagði þó allavega ekki á mig eins og ef ég smellti ekki á 1. Hér eru engar ýkjur í gangi, ég er búinn að vera með símann við eyrað í allan dag. Ég held allavega að það myndi létta mikla byrði af starfsmönnum ykkar ef þeir væru fleiri, vegna þess að fólk verður óneitanlega pirrað við þetta og kemur því óhjákvæmilega leiðinlega fram við starfsfólkið ykkar. Ánægðir starfsmenn vinna vel, eins og þeir segja.
Hugmynd númer 2.
Hún er sú að fjölga fólki í því sem sinnir kærum vegna framtals. Svo er nú með mig eins og greinilega marga, að ég komst ekki í það að skila skattframtali, þó að þið séuð greinilega með allar þessar tölur hjá ykkur og að ég ætti ekki einu sinni að þurfa að fara inn á netið og smella á “Senda framtal” (sem var reyndar það eina sem ég þurfti að gera). Vegna þessa var áætlað á mig, og skulda ég semsagt 350.000 krónur í skatt vegna þessa. Núna þegar ég kæri, tekur það víst allt fram í September að skoða allar þessar kærur í réttri röð. Því miður er ég aðeins mannlegur og þarf því að borða mat og borga reikninga og annað eins og hvert annað fólk, og held ég nú að ég verði orðinn ansi renglulegur í September ef ég fæ ekki peningana mína til baka, sem ég veit rétt eins og þið, að ég á með réttu.
Hugmynd númer 3.
Sýna lágmarks kurteisi í innheimtu. Í stað þess að bókstaflega ræna fólk með því að taka af þeim þann pening sem þið ættuð vel að vita að það á ekki að borga, hvernig væri að senda reikning, eða tilkynna það á einhvern máta áður en það er hreinlega vaðið í launin hjá fólki? Þetta held ég að myndi spara kærutímann talsvert, svo ekki sé minnst á álit fólk á ykkur, svo ekki sé minnst um allar biðraðirnar í símanum hjá ykkur. Þú getur rétt ímyndað þér að fólk hangi í símanum að reyna að tala við rétta manneskju þegar það er að gera það til þess að hafa efni á mat eða húsnæði. Hér eru engar ýkjur í gangi. Þið hjá skattstjóra þekkið þetta kerfi ábyggilega voðalega vel, en við hin gerum það ekki. Þið þurfið ekkert að fara út í góðgerðarstarfsemi, hugmyndin er bara sú að sýna… LÁGMARKS… kurteisi. Það sem telst algert lágmark fyrir siðmenntað fólk. Lágmarks kurteisi sem jafnvel er ætlast til af börnum, hvað þá fullorðnu fólki sem vinnur við að innheimta almannafé. Ég biðst afsökunar ef þér þykir þetta ókurteisi af minni hálfu, en ég segi bara eins og ég sé.
Hugmynd númer 4.
Áætla á fólk samkvæmt heilbrigðri skynsemi en ekki samkvæmt einhvers konar… geðveiki. Þið vitið jafn vel og ég, að oft á tíðum hafið þið allar tiltækar tölur hjá ykkur, og væri nú svosem hægt að áminna fólk eitthvað eða jafnvel beita hóflegum dagsektum ef það staðfestir ekki, í stað þess að áætla einhverjar lifandi skelfingar óskapar upphæðir sem eiga sér hvergi tengsl við raunveruleikann. Til þess að kæra áætlunina á mig þurfti ég eingöngu að skrá mig inn á netið og staðfesta að allar þessar tölur sem voru þarna fyrirfram, væru réttar. Mátti ekki áætla launahækkun í samræmi við kannski vísitölu, eða eitthvað? Eða jafnvel bara nota tölurnar sem þið hafið? Eitthvað sem tengist raunveruleikanum? Þið vitið það jafn vel og ég, ef við sleppum öllu kjaftæðinu, að ég á ekki að borga 350.000 krónur í skatt. En við verðum víst að bíða fram í September til þess að þið getið lesið það svart á hvítu einhvers staðar. Á meðan skal ég reyna að skrimta á baki fjölskyldunnar, ekki að hún hafi ekki betri hluti við sína peninga að gera en að ala fullorðinn mann upp vegna þess eins að skattstofan þarf að sýna það í verki hvað hún er merkileg.
Svo hvað segirðu, hvernig líst þér á þetta? Er ég alveg úti að aka hérna?
Með kveðju og fullri virðingu,
Helgi Hrafn Gunnarsson
helgi@binary.is