Vegna umræðunnar upp á síðkastið um þetta blessaða öryrkja frumvarp þá komst forseti Íslands í sviðsljósið og var mikið rætt um hvort hann ætti að skrifa undir lagafrumvarpið, hvað myndi gerast ef að hann myndi ekki gera það og hvað yrði um ríkistjórnina og forsetaembættið. Ég held að það sé full ástæða til að gera drastískar breytingar á æðstu stjórnvöldum þessa lands. Þetta blessaða forsetaembætti okkar sem er ekkert nema eitthvað ígildi konungsveldis sogar til sín heila kristnitökuhátíð á hverju ári og fyrir hvað? Uppihald á manni sem má ekkert segja og ekkert gera af því að það hefur skapast hefð fyrir því! Þær eru fáar og ómerkilegar röksemdirnar sem eru notaðar til að réttlæta tilverurétt þessa embættis. Sumir hafa sagt þörf fyrir einskonar sameiningartákn íslensku þjóðarinnar en kommon, getur einn maður staðið fyrir heila þjóð á vesturlöndum í dag, fjölbreytnin er allt of mikil til að hægt sé að finna eitthvað eitt sameiningartákn. Það er líka sagt að það sé voða mikilvægt að forsetinn sé að skjótast út um allan heim í opinberar heimsóknir til að “styrkja tengslin”, hver hefur orðið var við að tengslin við Indland hafi batnað eitthvað undanfarið. Íslenskt atvinnulíf getur auðveldlega sent viðskiptasendinefndir á eigin vegum til annara landa án aðstoðar kóngsígildisins á Bessastöðum.
Forsetaembættið er eitt af þessum gömlu stofnunum í samfélaginu sem voru hafnar yfir efa en sem betur fer hefur virðingin fyrir embættinu minkað töluvert eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tók við og hóf “Séð og heyrt” væðinguna sem felst í því að enginn kemst hjá því að vita allt um einkalíf mannsins. Séð og heyrt væðingin mun væntanlega ná hámarki í beinni útsendingu sem verður þröngvað upp á sjónvarpseigendur Íslands frá brúðkaupi hans og Doritar. Plebbar þessa lands verða eflaust mjög ánægðir með Ólaf okkar og versla grimmt Ólafs og Doritar boli, kaffikönnur, penna og upptökuna frá brúðkaupinu á VHS og kannski jafnvel DVD. En á meðan verðum við hin að spyrja sjálf okkur “Er þetta í alvörunni það sem við viljum?” Svar mitt er nei, annað hvort verður þetta embætti gert pólitískt þannig að forsetinn verði höfuð framkvæmdavaldsins (fara eftir stjórnarskránni.) Eða einfaldlega að fara leið Hannesar og leggja allt draslið niður.