Umræða í Kastljósi RUV nú í kvöld vakti athygli mína, en ástæða þessarrar umræðu var grein í Mbl. frá Birni Inga Hrafnssyni um aukingu þjóðarútgjalda varðandi lyfjakostnað.
Þar vakti sá hinn sami athygli á því að Íslendingar innbyrða mun meira af bólguleyðandi lyfjum en nágrannar okkar á Norðurlöndum.
Fulltrúi Læknafélagsins var á báðum áttum varðandi fræðilegar forsendur til skoðanamyndunar á máli þessu en markaðsmaðurinn sem var þar sem fulltrúi lyfjafyrirtækjanna bar fyrir sig heilsuhagfræði hvað varðar röksemdir fyrir aukinni lyfjanotkun, þ.e. ný lyf væru betri og þjóðhagslega hagkvæmari til lengri tíma litið.
Sú röksemdafærsla að hin nýju lyf sem eru alla jafna dýrari séu þjóðhagslega hagkvæmari þarfnast skoðunar við, sökum þess að ef til vill aðeins hluti landsmanna kann að hafa efni á því að nota þau hin sömu lyf, vegna þess hve þau eru DÝR.
Hluti landsmanna býr við það að almannatryggingagreiðslur svo sem ellilífeyrir er skorinn við nögl, og mikill hluti þessarra greiðslna þeirra hinna sömu fer í það atriði að greiða fyrir lyf og aftur lyf, en lyfjanotkun fólks á efri árum þarf að skoða sérstaklega hér á landi þar sem dæmi hafa komið fram um að samverkun mismunandi lyfja hafa orsakað enn frekari vandamál en til staðar voru fyrir.
Ég bíð til dæmis eftir því að svefnlyfjanotkun eldri borgara verði könnuð miðað við Norðurlöndin, en mér segir svo hugur um að þar eigum við einnig met Íslendingar.
Lyf eru nauðsynleg til þess að lækna sjúkdóma en gera ekkert gagn ef enginn er sjúkdómurinn og það að svefnleysi hrjái nær hvern mann er dvelst á öldrunarstofnunum hér á landi er atriði sem ég trúi ekki að sé til staðar.
með góðri kveðju.
gmaria.