Rosalega væri það nú fínt ef að Danir myndu sjá um að kosta samgöngur á Íslandi, Norðmenn myndu sjá um Hafró og fiskveiðistjórnunarkerfið, Svíþjóð héldi uppi menntamálum okkar og kostaði skóla landsins, Írar myndu sjá um Viðskiptaumhverfið og þar með skattkerfið, Ástralir myndu sjá um að fullnægja orkuþörf okkar með því að leggja sjóstreng til okkar og gefa okkur orkuna, Finnar myndu kosta velferðarmálin, Sviss ræki bankana en við fengjum arðinn, Kanadamenn myndu sjá um að kosta spítalana og umgjörðina í kringum þá, og Bandaríkin myndu sjá um varnarmálin okkar og væri með herstöð á landinu. Ísland yrði ríkasta land í heimi. Fengi tekjur í ríkissjóð og þyrfti ekki að eyða neinu í kostnað því aðrar þjóðir sæu um reksturinn.
Að bandaríkin skulu sjá um varnarmál íslendinga er eins og að Magnús Ver myndi sjá um að verja húsið mitt. Honum þótti það einu sinni fínt því að versti óvinur hans Hjalti Úrsus átti heima hliðina á mér, og ef Hjalti færi yfir helmingalínuna ætti hann ekki von á góðu. En Hjalti Úrsus var hættur að slást og var byrjaður í heiðarlegri vinnu og var orðinn heiðvirður borgari, flestir vinir hans voru á leiðinni í góðtemplarafélagið (1.jan 2004) og honum langaði líka inn. Meira að segja voru Magnús Ver og Hjalti úrsus orðnir vinir, en þar sem Magnús Ver hafði gert samning um að verja húsið mitt fyrir Hjalta þá varð hann að gera það. Ég græddi líka á því, út af því að Magnús þurfti að kaupa sér að éta svo mikið að börnin mín fengu vasapeninga með því að elda fyrir hann, og í staðinn slapp ég við að finna eitthvað fyrir börnin mín að gera.
Þrisvar hefur verið ráðist á Ísland: Tyrkjaránið 1627, Jörundur Hundadagakonungur 1809, og hernám Breta 10.maí 1940.
Þegar Jörundur kom til landsins þá var Reykjavík aðeins 300 manna þorp, Tyrkjaránið var árið 1627 og ekki þarf meira að segja um það. Hernám breta var meira vinsamleg heimsókn en hernám, þeir hernámu okkur til að verja okkur fyrir því að Þjóðverjar myndu hernema okkur. Á þessum tímum vorum við ekki í öflugusta herbandalagi heimsins, kallast NATO.
Í nútímanum eru litlar líkur á því að eitthvað land lýsi yfir stríði á Íslandi, svo litlar að ef eitthvað land lýsir yfir stríði á Ísland meðan ég lifi þá skal ég éta skóna mína. En því ber að fagna að heimurinn er orðinn öruggari heyrist í umræðunni. En um leið er heimurinn orðinn óöruggari, út af nýrri ógn, ógn sem er ekki hægt að staðsetja í einu landi, ekki á einum stað, og kallast HRYÐJUVERK.
Og eins og alþjóð veit, er ekki hægt að verjast þeim með her. Því spyr maður sjálfan sig þeirrar spurningar hvort það þurfi yfir höfuð að hafa her hér, og ef svo fer sem lýtur út fyrir að BNA fari frá Suðurnesjunum, með sínar 4 orrustuflugvélar (2,5milljarður hver), þá tel ég að Ísland eigi að sýna fordæmi og sleppa því að hafa her. Það ræðst enginn á mann sem allir vita að svari ekki fyrir sig.
Ég tel þó að flugvarnir séu nauðsynlegar, en það er jafnvel betra að gera samninga við Breta eða aðrar evrópuþjóðir um samvinnu á þessu sviði, þar sem við yrðum ekki tilberar á peninga.
Niðurstaðan er kannski þessi; Það verður aldrei ráðist á Ísland af öðru landi, kannski munu hryðjuverkamenn gera vart við sig hérna, en það er þá aðeins vegna stuðnings okkar við BNA í Íraksstríðinu eða tilveru bandarískrar herstöðvar hér. Það væri nú svoldil kaldhæðni að láta ráðast á sig út af vörnunum.
Það sem þyrfti til að fá heiminn til að sameinast væri vitneskja um ógn utan úr geimi, þó það væri bara lygi, þá væri það til að þjappa heiminum saman og fá fólk til að sameina krafta sína, og hætta að beita þeim að hvor öðrum.