Í dag lifum við undir fulltrúalýðræði svokölluðu, eins og þið væntanlega vitið flest. Þar er gert ráð fyrir því að lýðurinn velji sér leiðtoga sem síðan taka ákvarðanirnar fyrir okkur. Þetta er ævafornt fyrirkomulag og hefur virkað skítsæmilega í gegnum aldanna rás.
Hér er fyrirkomulagið.
Á fjögurra ára fresti höfum við tækifæri til þess að setja X við einn af mörgum flokkum. Það er nákvæmlega það eina sem við höfum til þess að stjórna þessu landi sem þjóð.
Kenningin á bakvið fulltrúalýðræðið er það að ef stjórnin stendur sig illa, þá verður einhver annar kosinn, og þegar svokallað “stjórnmálalegt gap” hefur myndast, ætti samkvæmt kenningunni nýr flokkur sjálfkrafa að myndast, með vinsælli hugmyndir að leiðarljósi. Sbr. almennri óánægju núna, að Nýtt Afl verður til (sem enginn virðist reyndar hafa hugmynd um hvað stendur fyrir, enda mjög ungur flokkur).
Hér er vandamálið.
Í dag virðast menn ekki einu sinni alveg sammála um það hvað er verið að kjósa. Er verið að kjósa til Alþingis eða ríkisstjórnar? Er verið að kjósa stefnur, málefni eða fólk? Með þessu heila X-i sem við höfum á fjögurra ára fresti, þ.e.a.s.
Ég yrði t.d. sjálfur að kallast skítsæmilega til hægri, a.m.k. miðað við Íslending. Ég var alfarið á móti því hvernig staðið var að Kárahnjúkamálinu (þó ég hafi enga skoðun á virkjuninni sjálfri, bara málsmeðhöndluninni), alfarið og ALGERLEGA á móti stríðsyfirlýsingunni, algerlega á móti DeCODE braskinu og er algerlega á móti kvótakerfinu, en látum þau málefni liggja í smástund. Ég get ekkert kosið Sjálfstæðisflokk eða Framsókn vegna þessa, þó að ef ég lesi yfir stefnulýsingu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks lítist mér bara rúmlega ágætlega á þær báðar.
Sjálfstæðisflokkinn, sem brjóta í bága við alla mína siðferðiskennd þó að opinbera stefnan þeirra þóknist mér? Samfylkingu sem vill breytingar á mörgum réttum stöðum en er í öðrum málum algerlega á móti mínum grundvallarhugsjónum, þar á meðal einstaklingsfrelsinu (áfengis- og kannabismálin, látum þau líka vera í friði)? Vinstri Grænum vegna þess að ég er friðarsinni og náttúruverndarsinni, en hægrimaður?
Það er ekkert hægt að kjósa flokkana eftir málefnum, fólki og stefnum. Málefnin fara ekki saman við stefnurnar, og oft á tíðum eiga þær ekkert við hægri- eða vinstristefnu að gera, t.d. í stríðsmálinu. Í DeCODE málinu og Kárahnjúkamálinu voru vinstrileg sjónarmið í gangi af mið- og hægriflokkum! Og Samfylkingin á að heita vinstriflokkur sem samt vill lækka allskonar skatta.
Við, þjóðin, sögðum NEEEEEEEEIIIII við stríðinu. Það er hægt að nefna einhverjar prósentur, en þegar menn líta yfir málið í heild er mjög augljóst að Íslenska þjóðin var eins mikið á móti þessu og hún verður í nokkru máli. Og hver eru áhrifin? Hvernig komst þetta til skila? Nákvæmlega sama ríkisstjórn situr áfram, nema fyrir nokkur sætaskipti til að friða höfðingja Framsóknar, og auðvitað til þess að losna við Sólveigu Pétursdóttur af augljósum ástæðum.
HVAÐ ÞARF, til þess að það sé hlustað? Hvað eiga hægrisinnaðir en jafnframt heilvita menn að kjósa? Hvað eiga vinstrisinnaðir en heilvita menn að kjósa? Það er ekki nóg val í boði! Hverju nákvæmlega erum við að þykjast ráða? Það er nóg af verulega umdeildum málum í gangi, en það er ekkert hægt að breyta því með flokkalýðræðinu, einfaldlega vegna þess að málefnin eru svo miklu fleiri og fjölbreyttari heldur en flokkarnir sjálfir.
Ég sé tvær leiðir til þess að gera þetta að raunverulegu lýðræði. Það er annars vegar að veikja fulltrúalýðræðið og virkja beint lýðræði, a.m.k. að einhverri stærðargráðu, eða einfaldlega vera með einhvern helvítis helling af flokkum í boði.
Það er tvennt sem menn hafa geta borið á móti þessu.
Annarsvegar það að þetta sé of mikið vesen. Við því get ég sagt að lýðræði og mannréttindi eru vesen almennt, og ég get ekki mögulega samþykkt að beint lýðræði kosti meiri peninga eða vinnu heldur en kosningar eins og við þekkjum þær í dag. Það þyrfti bara að framkvæma þær öðruvísi.
Hitt er að þjóðin hafi ekki vit á flestum málum. Þetta er, eins og hin röksemdin, nákvæmlega það sama og menn geta sagt til þess að styðja jafnvel einræði, eða hvað sem er sem er and-lýðræðislegt. Ennfremur er siðfræðileg spurning sem menn gleyma sem yfirgnæfir praktísku spurninguna alfarið, og það er réttur þjóðar til þess að ákvarða framtíð sína, að taka gáfulegar ákvarðanir jafn sem heimskulegar. Alþingi er bara fólk eins og við og gerir líka heimskulega hluti af og til eins og sitjandi ríkisstjórn hefur ítrekað sýnt fram á. Að lýsa yfir vantrausti á þjóðinni þegar ekkert bendir til þess að hún eigi það skilið, finnst mér meira eins og að leggja til að Saddam verði bara settur í forsætisráðuneytið til þess að hafa vit fyrir okkur vitleysingunum.
Svo er notlega hitt, hvers vegna ætli landinn sé svona ofboðslega vitlaus að vilja ekki fara í stríð, vilja hafa eitthvað að segja um Kárahnjúka og DeCODE? Nú, vegna þess væntanlega að hann fær aldrei tækifæri til þess að gera bein mistök! Nema með því að kjósa yfir sig HVER ríður henni í rassgat, ekki HVORT. Jafnvel mörg alger klúðursmálefni eru ekki nóg.
Aukandi beint lýðræði hefur hvergi mistekist, og er kannski best að líta þá til Sviss, þar sem það hefur verið lýði síðan 1848. Það segir mér enginn að fyrirkomulag sem virkaði í miðri Evrópu eftir stríð árið 1848 sé of átakanlega flókið og erfitt fyrir Íslendinga, sem ekki bara er dugleg þjóð (enda þurfum við að vera það til að lifa svona stórt á svona litlu landi), heldur mjög tæknivædd.
Hvers vegna ætti ég að hafa skoðun á t.d. stríðinu ef það skiptir nákvæmlega engu máli? Hvers vegna fæ ég, sem þegn þessa land, ekkert að segja um þetta? Ég verð að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef ég ætla að vera trúr mínum skoðunum, en ég vil ekki kjósa mennina (og þyrfti að strika yfir 90% frambjóðenda hans ef ég kysi hann), og sure as shit get ég ekki kosið samkvæmt “óháðu” málefnunum sem þeir hafa verið að standa fyrir hingað til.
Þetta er nú þegar orðið of langt hjá mér, þannig að ég ætla að skrifa aðra grein um þetta þegar menn eru aðeins búnir að rífast og kasta skít yfir þessari. Þar ætla ég að sýna fram á það með mynd ósamræmið á milli málefna og ákvarðanamöguleika almúgans.
Fyrir öll þessi málefni og allt þetta fólk, og þessar örfáu stefnur, höfum við einn kross á fjögurra ára fresti til þess að stjórna þessu landi.
Mér finnst það mjög langt frá því að vera nóg.