Þegar ég er ein og eirðarlaus þá skelli ég mér stundum í tölvuleik sem heitir Tropico. Þar bregð ég mér í hlutverk einræðisherra á lítilli eyju í Karabíahafinu. Markmiðið er að halda fólkinu góðu, græða peninga og byggja upp landið og að sjálfsögðu að vinna kosningar á nokkurra ára fresti. Ef fólkið á eyjunni er hinsvegar eitthvað ósátt við mann þá getur maður lent í því að eiga erfitt með að vinna kosningarnar og þó maður hækki öll laun og byggi spítala og skóla á síðustu stundu, þá dugar það ekki alltaf til.
Þá má hinsvegar reyna að SVINDLA, sjá til þess að nokkur vafaatkvæði gildi í rétta átt. Ég nota þetta eins lítið og ég get, því ég er svo skrítin að ég fæ samviskubit yfir því sem ég geri rangt, jafnvel þótt það sé bara í tölvuleik. En það er greinilegt að það eru aðrir sem hafa ekki sömu samvisku og ég, meira að segja menn sem stjórna í alvöru yfir lítilli eyju og öllu sem á henni gerist, en ekki bara í tölvuleik.
Nú í kvöld hefur alþjóð fengið staðfestingu á því að við búum á svipaðri eyju og ég leik mér við að stjórna í Tropico. Bananalýðveldi kalla sumir þetta.
Kjörbréfanefnd Alþingis hefur semsagt ákveðið að hvorki atkvæði úr Alþingiskosningum né utankjörfundaratkvæðin verði talin aftur eins og Frjálslyndi flokkurinn hefur farið fram á, þrátt fyrir að Frjálslyndi flokkurinn telji sig geta fært sönnur á, eða fengið eiðsvarnar yfirlýsingar um að nokkur ákvæði kosningalaganna hafi verið brotin.
Það var víst rifist eins og hundur og köttur um þessi mál í Kjörbréfanefndinni og minnihlutinn er ekki sáttur og vill fá skýrslur frá yfirkjörstjórnum allra kjördæma og því að úrskurða kosningarnar gildar þangað til farið hefur verið yfir öll óvissuatriði.
Auk þessara frægu dæma sem fólk hefur verið að hneykslast á upp á síðustu daga með utankjörstaðaatkvæðin sem höfðu verið opnuð af póstinum og tafist að koma vegna þess að þau voru læst inni í skemmu í Bretlandi þá voru önnur og alvarlegri brot sem brjóta beint í bága við kosningalög.
Í Reykjavíkurkjördæmi norður var t.d. umboðsmanni Frjálslynda flokksins HAFNAÐ af yfirkjörstjórn um að að vera viðstaddir kosningu og talningu atkvæða og gæta þar með réttar síns lista, á þeim forsendum að hann var í framboði. Lögin greina hinsvegar á um að frambjóðendur í aðalsætum listanna séu réttir umboðsmenn hans og því ólöglegt að banna þeim aðgang.
Þetta gerir það svo að verkum að önnur kosningalög eru sjálfkrafa brotin því atkvæði á að telja saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna allra lista áður en yfirkjörstjórn er tilkynnt niðurstaðan, en það var að sjálfsögðu ekki hægt í Rvk-norður vegna þess að umboðsmaður Frjálslyndra fékk ekki að vera viðstaddur.
Varðandi ógilda kjörseðla á svo víst að skrá niður ástæður ógildinganna í gerðabók, en það var víst ekki alltaf gert og einnig er vitað með vissu að ekki var alltaf eins með farið um hvað væri ógilt og hvað ekki. T.d. voru einhver níu atkvæði merkt V-væru ógild í tveimur kjördæmum, en slík atkvæði fóru annarsstaðar til Vinstri grænna.
Einnig er því haldið fram að í Suðvestur og Norðausturkjördæmi sýslumannsembættið og kjörstjórnir þar hafi torveldað fólki að greiða utankjörfundar með villulegum og röngum fyrirmælum. Og þykir það sannað að hin ýmsu sýslumannsembætti voru ekki að standa sig varðandi utankjörfundaratkvæði og ógiltu þar tugi atkvæða.
Að lokum hlýtur hverjum manni að finnast ótrúleg hagsmunatengsl Sjálfstæðisflokksins og yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þar er formaður yfirkjörstjórnar Þórunn Guðmundsdóttir. Hún er fyrrverandi umboðsmaður lista Sjálfstæðisflokksins og starfsmaður á lögmannsstofunni Lex. Núverandi umboðsmaður lista Sjálfstæðisflokksins er Helgi Jóhannesson, starfsmaður á lögmannsstofunni Lex. Þá eru frambjóðendur á listum Sjálfstæðisflokksins, þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Bjarni Benediktsson, báðir starfsmenn lögmannsstofunnar Lex.
En í Reykjavíkurkjördæmi norður voru þrefalt fleiri ógild atkvæði en í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Suðvesturkjördæmi og einn talningarmaður í Reykjavík-norður fullyrðir að misjafnt var farið með ógildingu atkvæða fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Frjálslynda flokkinn.
Ég stend algjörlega á gati yfir því að það skuli vera Alþingi sem á að ákveða hvort endurtalning eigi að eiga sér stað en ekki einhver “aðeins” óháðari dómstóll, það er ekki verið að gæta lýðveldisins með þessu og leyfi ég mér að efast um að þetta sé svona í öðrum ríkjum sem við erum vön að bera okkur saman við.
Og í framhaldi af því ég er í algjöru sjokki yfir að það skuli ekki eiga að samþykja þessa endurtalningu. Þetta er náttúrulega hneyksli og þá skiptir engu máli hvar maður stendur í pólítíkinni, svona lagað má bara ekki vera hægt að komast upp með !
Ef þetta er ekki bananalýðveldi þá veit ég ekki hvað….. ég held að ég sé bara flutt til Kúbu, þar er þó allavegana sól og hiti, salsa og romm !