Það eru vægast sagt söguleg tíðindi að Framsóknarflokkurinn skuli hafa tekið að sér að standa fyrir því að gjalda afhroð stjórnarstefnu núverandi flokka síðari hluta komandi kjörtímabils með því að fá að halda í annan tauminn á hestinum.

Hér er um að ræða hrókeringu á réttum tíma til handa Sjálfstæðismönnum sem þannig sleppa við það að standa skil á þeim
mikla loforðapakka sem þeir hinir sömu gáfu kjósendum fyrir kosningar og ekki er fyrirhugað að efna fyrr en eftir dúk og disk.

Yfirlýsingar flokkanna um aðgerðir eru fögur markmið sem áður hafa komið fram en ekki verið efnd líkt og endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar, sem er orðin svo flókin að alþingismönnum alennt óar við að þurfa að taka á.

Það var til dæmis ekki að frumkvæði heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins að Tryggingastofnum ríkisins var tekin til skoðunar á fyrra kjörtímabili núverandi flokka, þar sem kom í ljós að stór hluti sjúklinga var án allra trygginga heldur var það vegna gagnrýni sjúklinga sjálfra og samtaka þeirra á starfssemi stofnunarinnar að Ríkisendurskoðun var falið að gera úttekt á starfsseminni sem leiddi ýmsa vankanta í ljós.

Það var heldur ekki að frumkvæði sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili að leyfa það að meðafli sjávarfangs mætti vera 5% í stað þess að vera hent í hafið, heldur var orsökin myndir í sjónvarpi þar sem verið var að henda meðafla vegna hinna heimskulegu fiskveiðistjórnunarlaga sem innihéldu sektir við þvi að koma með verðmæti að landi.

Eftir þessar myndir var lögunum breytt og Hafrannsóknarstofnun var nýlega að senda frá sér yfirlit yfir lengdarmælingar á þorski og ýsu sem eiga að heita brottkastmælingar þar sem mældir eru sentimetrar á fiski sem veiddur hefur verið á hafi úti og sama fiskjar sem landað er á markaðnum, líkt og líklegt sé að sentimetratalan breytist eitthvað meðan verið er ferðast með fiskinn í land.

Minna hent af þorski, var niðurstaða rannsókna þessara að sögn Mbl.
17. maí í frásögn af þessum rannsóknum þar sem kemur fram að þær hinar sömu hafi hafist 2001.

Hví ekki fyrr ?

Í mínum huga er hér um að ræða álíka rannsóknir af hálfu hins opinbera á brauðfótum og viðgengist hafa varðandi árangur af veittri heilbrigðisþjónustu í landinu miðað við kostnað við slíkt og auka gjaldtöku.

Óvísindalegar úr hófi fram.

Jafnframt ætlar þessi ríkisstjórn að jafna launamun karla og kvenna sem er stórfróðlegt einkum og sér í lagi varðandi rekstur hins opinbera yfir höfuð þar sem láglaunakvennastéttir halda kerfinu gangandi meira og minna menntaðar og ómenntaðar meðan yfirmenn í valdastöðum, hirða ágóðann af því að halda öllu gangandi einhvern veginn hjá ríki og sveitarfélögum hvors kyns em eru.

Skattalækkanir eru ekki í sjónmáli enda ómögulegt að lækka skatta
á þá er halda þjóðfélaginu gangandi og spurning hvort innan tíðar verði störf í þágu hins opinbera allt sjálfboðaliðastörf innt af hendi án þess að þiggja laun til afkomu fyrir vikið.

Kanski vaknar verkalýðshreyfingin þótt ólíklegt megi telja.

Hinn nýi sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar innifelur fátt nýtt til þess að auka verðmætasköpun umfram það sem verið hefur, að sjá má og ráðherrahrókeringar millum flokkanna bera vott um sjónleik
sem bjóða á landsmönnum á komandi kjörtímabili, þar sem Framsóknarmenn þurfa aldeilis að stjórna með eindæmum ef þeim á að takast að halda velli á hverju sviði fyrir sig.

með góðri kveðju.
gmaria.