Kosningar á enda og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætla freista þess að viðhalda stjórnarsamstarfi sínu þriðja kjörtímabilið í röð. Því fagna ég auðvitað enda að mínu mati skársta ríkisstjórnarmunstrið sem völ er á í dag. Ég ætla samt ekki að ræða það sérstaklega heldur leggja fram óskalista minn til næstu fjögurra ára:
SKATTALÆKKANIR:
Skattar á tekjur einstaklinga verða að lækka á næstu árum. Þetta sögðu allir stjórnmálaflokkar (nema VG) fyrir kosningar þegar loforðayfirboðin stóðu sem hæst. Menn geta deilt um hvar ríkið á að skera niður til móts við skattalækkanirnar en fyrir mér er það nánast aukaatriði á meðan skattalækkanir verða að veruleika, og helst verulegar. Gagnrýnendur þess að fólk haldi eftir stærri hluta launa sinna tala um að þensla sé handan við hornið og þá megi ekki lækka skatta. Ég er fullkomlega ósammála því enda varðar það ríkið ekkert í hvað fólk eyðir sínum eigin launum. Seðlabankinn hefur sitt sjálfstæði og sín verðbólgumarkmið og getur breytt vöxtum og hefur staðið sig ljómandi vel hingað til og svo mun verða áfram. Fólk á að fá að halda eftir eins miklu af launum sínum og unnt er og ráðstafa í flottari GSM-síma, afborgun lána, stærri bíla, betri föt, hollari mat eða hvaðeina sem því sýnist.
Fyrir utan tekjuskattslækkun á svo auðvitað að drífa í niðurfellingu eignaskatts, lækkun virðisaukaskatts, lækkun/afnám tolla, afnám erfðafjárskatts, afnám hátekjuskatts og lækkun/afnám ýmissa opinberra gjalda. Þetta yrði besta kjarabót sem nokkur ríkisstjórn gæti státað af, og gildir þá einu hvað fólk hefur í laun/bætur á mánuði.
EINFÖLDUN STJÓRNSÝSLUNNAR:
Eftirfarandi frétt af mbl.is segir alla söguna (birt í heild sinni án leyfis):
“Sífelld hækkun opinberra útgjalda er verulegt áhyggjuefni og mikilvægt er að ný ríkisstjórn hefji vinnu við fækkun ríkisstofnana með niðurlagningu og sameiningu þeirra og setji sér það markmið að fækka ríkisstofnunum um 30-40 á næstu fjórum árum.
Þetta er meðal þeirra atriða sem Verslunarráð Íslands hvetur til að verði tekin til alvarlegrar skoðunar við vinnu við gerð nýs stjórnarsáttmála sem nú stendur en skýrsla ráðsins, sem send hefur verið formönnum stjórnarflokkanna, kallast ”Tíu leiðir til að auka árangur fyrir Ísland“.
Verslunarráð minnir á að framundan sé tímabil aukinnar spurnar eftir vinnuafli og því mjög brýnt að stjórnvöld dragi úr vinnuaflseftirspurn hins opinbera. Það sé ekki síst á tímum góðæris sem mest hætta sé á að útgjöld ríkissjóðs aukist og aðhald í ríkisrekstrinum minnki. Einföldun ríkisrekstrarins sé ein besta leiðin til að draga úr útgjöldum til lengri tíma; nú séu starfræktar 230 ríkisstofnanir og ný ríkisstjórn eigi því að setja sér það markmið að fækka þeim um 30-40 á kjörtímatímabilinu sem í hönd fer. Með fækkun ríkisstofnana megi einfalda ríkisreksturinn og auka hagkvæmni þeirra stofnana sem eftir verði.
Verslunarráð leggur í þessu sambandi til að sett verði á stofn hagræðingarnefnd sem hafi það hlutverk að vinna að einföldun og sparnaði í ríkisrekstrinum á næstu fjórum árum.”
Fréttin:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent /frett.html?nid=1032206
Skýrslan:
http://www.mbl.is/m edia/75/75.pdf
Tengd frétt:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html ?nid=1032285
BREYTT FORGANGSRÖÐUN:
Ríkið þenst út sem aldrei fyrr. Sá munur hefur að vísu verið á þenslu ríkisins síðustu ár og þenslu ríkisins á fyrri tímum að nú er hagvöxtur og aukin velta í þjóðfélaginu að skila meiri og meiri skatttekjum í ríkissjóð, ólíkt því sem oft áður hefur verið þegar ríkið einfaldlega stækkaði sinn hluta af staðnaðri/minnkandi þjóðarköku. En þótt ríkið sé að þenjast út vegna eigin farsællar efnahagsstjórnar þá er það engin afsökun til að líða slíkt. Ríkið á að minnka! Margmilljarða dekur við tónlistarfólk á ekki að líðast. Ríkisábyrgðir hingað og þangað eiga ekki að líðast. Sendiráðafyllerí á ekki að líðast. Fjáraustur í illa rekið heilbrigðiskerfi á ekki að líðast. Svona mætti lengi telja.
Ríkið á að einbeita sér að fáum verkefnum og leita allra leiða til að nýta skattpeninginn sem allrabest. Miðstýrt ríkisrekið heilbrigðiskerfi er til dæmis lítið annað en áramótabrenna á skattpening. Staðnaðan hugsunarhátt til ríkisrekstrar verður að brjóta niður. Kæruleysi varðandi útþenslu ríkisvaldis verður að útrýma. Vinstri- og hægrimenn geta deilt eins og þeim sýnist um hvernig rekstrarfyrirkomulag á hinu og þessu eigi að vera, en stjórnmálamenn verða að sameinast um að halda ríkinu á mottunni og einbeita sér að fáum verkefnum og leysa þau vel af hendi, ásamt því að bera virðingu fyrir því að aflafé fólks er því dýrmætt og sóun á því er ófyrirgefanleg.
Listinn gæti orðið lengri en ég læt þetta nægja í bili og vona að hugur minn hafi komist til skila.