Ég hef nokkuð verið að velta fyrir mér hvort örlög Samfylkingarinnar ætli að verða þau sömu og örlög Alþýðuflokksins. Alþýðuflokkurinn náði aldrei fullu risi vegna kröfu hans um markaðvæðingu landbúnaðarins og frjáls innfluttnings á landbúnaðarvörum. Íhaldssamir varðhundar úreltra hugmynda stóðu vörð um staðnað kerfi hafta og miðstýringar. Nú geta getgátur einar sagt okkur til um það hvort frjáls markaðsleið í landbúnaði hefði breytt stöðu íslensks landbúnaðar frá því sem hann er í dag. Það eina sem við getum sagt, staðan hefði í.þ.m. ekki verið verri en hún er í dag, þ.e. rjúkandi rúst.
Á sama hátt boðar Samfylkingin fulla markaðsvæðingu sjávarútvegsins, að allar veiðiheimildir fari á markað en er ekki úthlutað miðstýrt af ríkisvaldinu til einstakra fyrirtækja og skipa. Það athyglisverða er hverjir verja þessa miðstýringu veiðiheimilda, Framsóknarflokkurinn og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn sem boðar að hann standi vörð um markaðsfrelsi og baráttu gegn miðstýringu. Þarna er flokkurinn tvísaga.
Það má líka velta því fyrir sér hvort þessi leið miðstýringar í fiskveiðum fái sömu örlög og íslenskur landbúnaður, þ.e. hrynur.
Rökin fyrir því að ekki sé hægt að fara markaðleiðina er að þá geta fyrirtæki ekki lengur veðsett veiðheimildirnar. Mér finnst það stór spurning, rekstrarfræðilega séð, hvort slík veðsetning gangi upp til lengdar. Segja má að verið sé að veðsetja framleiðsluna, þegar slíkt er gert þolir varan litlar sveiflur í verði. Hún er pressuð upp að hámarksverði og er því illa samkeppnishæf gagnvart lágmarksverðum keppinautanna. Slíkar útgerðir eru í svipuðum sporum og háþjónustu flugfélög sem lenda í samkeppni við lágþjónustu flugfélög. Þau verða á engan hátt samkeppnishæf um verð, en verð er nú einu sinni það sem hagsýnn kaupandi á markaði stýrist aðalega af.
Það sem hefur verið kallað fyrningarleið er eingöngu tímabundið ástand á meðan verið er að markaðsvæða veiðiheimildakerfið að fullu. Með réttri stillingu fyrningarinnar, þ.e. hún sé rétt fyrir neðan afskriftir þá verða útgerðafélög ekki fyrir neinu tjóni af hennar völdum, þar sem fyrningin er lægri en afborganir af veðsetningunni.
Ef það tekur útgerðafélag 10 ár að greiða niður veðið á aflaheimildinni þá gæti fyrningin tekið 15 ár. Í þessi 15 ár hefur útgerðarfélagið tvennskonar kvóta annars vegnar “eignarkvóta” sem fyrnist á 15 árum og fer því síminnkandi og hins vegar kvóta sem það kaupir á frjálsum og opnum markaði og verður vaxandi hluti af aflaheimild þess. Fyrirtækið hefur framsalsrétt á eignarkvóta sínum og getur verslað með hann eins og hingað til. Eignakvótinn er því verðmæti og vel veðhæfur til að greiða niður veðið sem útgerðarfélagið hefur veðsett í honum.
Það verður því alls ekkert hrun hjá útgerðafélögum, þótt unnið verði skipulega að því að markaðsvæða útgerðina að fullu og losa undan miðstýrðri úthlutun eftir misgáfulegum reiknireglum.
M.