Ég er búinn að vera að skoða niðurstöðurnar úr Alþingiskosningunum aðeins betur og ég sé að kosningakerfið okkar er miklu fullkomnara en ég hélt.
Það sem að er áhugavert er að það er ekki til staðar neitt einasta misræmi á atkvæðavægi hjá kjósendum - atkvæði Reykvíkinga hafa nákvæmlega jafn mikið vægi og atkvæði fólks í norðausturkjördæmi til dæmis. Þ.e. skiptingin á þingsætum milli flokka er nákvæmlega sú sama og ef landið væri eitt kjördæmi.
Það er meira að segja svo að ef landið væri eitt kjördæmi myndi Frjálslynda flokkinn samt vanta nákvæmlega 13 atkvæði til að slá út 12. mann Framsóknarflokksins og koma sínum fimmta að!!!
Hinsvegar er kosningakerfið okkar sett upp þannig að mun fleiri þingmenn koma úr landsbyggðarkjördæmum heldur en ef landið væri eitt kjördæmi. 36,78% allra greiddra atkvæða í kosningunum núna komu úr landsbyggðarkjördæmunum þremur, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi en þessi kjördæmi eru hinsvegar með 47,62% af þingmannafjöldanum sem er náttúrulega dálítið misræmi. Persónulega finnst mér þó skipta litlu hvaðan af landinu þingmennirnir koma - þeir búa hvort eð er flestallir á Suðvesturhorninu. ;-)
Sumir hafa verið að álykta sem svo að úrslit kosninganna hefðu verið öðruvísi ef landið hefði verið eitt kjördæmi - en það sem flestir virðast vera að klikka á er að þeir eru að beita einföldum prósentuútreikni - hugsa sem svo að fyrst Sjálfstæðisflokkurinn fékk 35,9% atkvæða í kosningunum ætti hann að fá 35,9% af þingsætunum á Alþingi sem væri þá 21 þingsæti í stað 22 sem hann fékk í kosningunum. Þetta er hinsvegar misskilningur.
Einfaldur prósentureikningur er aldrei notaður til að ákvarða kosningaúrslit í þingkosningum því hann verður of oft flókinn og vafasamur, t.d. er spurning hvenær á að námunda og hvaða flokkur er næstur að koma manni inn o.þ.h.
Í staðinn hafa verið þróaðar reiknireglur sem eru mun skýrari en einfaldur prósentuútreikningur og ein af þeim er d'Hondt reglan svokallaða sem er t.d. notuð hér á Íslandi og við kosningar til Evrópuþingsins. d'Hondt reglan hefur verið notuð lengi á Íslandi og ef landið yrði gert að einu kjördæmi yrði hún pottþétt notuð áfram.
Ég vil benda þeim á sem þykir kosningakerfið á Íslandi vera ósanngjarnt að prófa einfaldlega að reikna út úrslitin sjálfir eins og þau væru ef landið væri eitt kjördæmi og beita til þess d'Hondt reglunni. Þá sést hve fullkomið kosningakerfið okkar raunverulega er.
Tenglar:
Kosningalög - sjá XVI. kafla:
http://www.althingi.is/lagas/128a/2000024.html Upplýsingar um hvernig d'Hondt reglan virkar:
http://www.mia.com.mk/izbori2002/en/dontov_mod el.asp