Málfrelsið er varið í stjórnarskrá, en það er ekki þar með sagt að þú megir undantekningalaust neyta þess þar og þegar þér sýnist. Þú getur t.d. ekki birst á útitröppunum hjá mér, krafist inngöngu og messað yfir mér um kvótamálið á stofuteppinu. Alveg eins er þér ekki stætt á því að kæra Styrmi Gunnarsson þó hann meini þér um greinarbirtingu í Morgunblaðinu. Svo er þetta gamla um að mega ekki kalla “eldur!” í leikhúsi, sem er skylt hömlum á málfrelsi þegar menn hafa uppi herhvöt eða það, sem enskumælandi menn kalla “fighting words”.
Í skólanum hygg ég þó að málið sé miklu einfaldara. Þegar þú gengur í skóla gengstu undir skólaaga á ýmsa lund. Þú fellst á að sinna náminu, mæta í tíma og hlíta umgengisreglum að viðlögðum innri refsiákvæðum, sem koma landslögum lítið við. Ein af þessum reglum, sem menn gangast undir í skóla, er að halda almenna reglu í skólanum, en í því felst m.a. að valda ekki truflun á kennslu.
Yfirleitt er sérstaklega kveðið á um þetta í skólareglum, en mér finnst það jafnsjálfsagt eins og maður þolir ekki mas í einhverjum skríl í bíó, slík truflun kemur málfrelsinu ekki við. Þó þér sé frjálst að láta skoðun þína í ljós máttu ekki velja áheyrendur þína og halda þeim nauðugum. Þeir þurfa að velja þig. Bíógestirnir geta auðvitað valið að yfirgefa bíóið þegar þú hefur upp raust þína til þess að segja eitthvað óskaplega merkilegt, en þá eru þeir um leið að fyrirgera bíómiðanum og þannig ert þú óbeint búinn að valda þeim margvíslegu tjóni. En auðvitað ert það þú, sem átt að þegja. Það er þegjandi samkomulag um það í bíó að þegja. Í versta falli getur þú setið fyrir aumingja fólkinu í hléi til þess að flytja þeim fagnaðarerindi þitt, en þú verður þá líka að sætta þig við það ef það flýr á klósettið eða inn í salinn aftur.
Hið sama á við í skólanum.
En auðvitað er nægur vettvangur fyrir þig til þess að iðka málfrelsið: í frímínútum, fyrir utan skólann, á málfundum, skólafélagsfundum, í skólablaðinu og í mörgum námsgreinum er beinlínis ætlast til þess að menn ræði efnið.
Bara ekki gleyma því að frelsi þitt til þess að tala er ekki æðra rétti annarra til þess að hlusta ekki á þig.