Ég var að lesa í mogganum núna rétt í þessu um 2 mál þar sem dómur var staðfestur fyrir hæstarétti í dag. Annars vegar yfir mönnum sem fluttu inn hass, og hins vegar yfir manni sem var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn ekki einni, ekki 2, heldur 3 stúlkum.
Einn mannanna sem flutti inn hassið “í hagnaðarskyni” (en hagnaðist ekki á því nota bene) fékk 2 ár í fangelsi fyrir brot sitt á meðan kynferðisafbrotamaðurinn fékk ekki nema 18 mánuði í fangelsi og þar af 15 mánuði skilorðsbundið! Maðurinn getur semsagt tekið frá sumarið og skroppið aðeins í fangelsi þangað til í haust.
Þvílíkt vægðarlaust misferli réttlætis! Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta það að maður sem reynir að hagnast á plöntuafurð sem ekki er stjórnvöldum þóknanleg, án þess að skaða einn né neinn né brjóta á rétti neins, hljóti þyngri dóm en maður sem þrívegis brýtur grunnmannréttindi einstaklings, og það barns í þokkabót?
Til hvers eru dómur og lög ef ekki til þess að vernda réttindi okkar sem einstaklinga og til að refsa þeim réttlætislega sem brjóta á frelsi okkar til að lifa í friði frá ofbeldi og kúgun? Að maður sem gróflega brýtur þennan rétt, brýtur persónulega friðhelgi þriggja barna, beitir börnin ofbeldi og veldur þeim varanlegu andlegu tjóni, skuli fá að skreppa í fangelsi í eina sumardvöl er algjört hneyksli. Sérstaklega á meðan menn sem brjóta ekkert af sér annað en að reyna að selja viljugum viðskiptavinum vöru í vanþóknun stjórnvalda hljóta miklu hærri dóm.
Hvers konar fordæmi er verið að setja hér? Er verið að segja okkur að viðskipti utan velvilja stjórnvalda séu stærra brot en ofbeldi, kúgun, misnotkun á börnum og misbeiting valds? Já svei mér þá, það mætti skilja það þannig að það sé verið að gefa okkur í skyn að ofbeldi og mannréttindabrot séu alveg í lagi svo lengi sem við séum hlýðin.
Eigum við ekki bara að stíga næsta skref, banna allt sem er “hættulegt”, áfengi, tóbak, sætan og feitan mat, rauð M&M, o.s.frv. og opna síðan nauðgunarklefa þar sem hlýðnir borgarar geta níðst á litlum telpum eins og þeim sýnist?
Væri ekki betra að stíga skrefið í hina áttina? Hætta að hafa svona miklar áhyggjur af hvað er hættulegt, hvað má og má ekki flytja inn, sífellt að ausa peningum í eftirlit og málsóknir gegn fólki sem engann hefur skaðað. En það er kominn tími til að herða refsingar gegn þessum skrímlsum sem ráðast á börnin okkar og misnota þau kynferðislega með ofbeldi og yfirgangi sem þau mega líða fyrir ævilangt. Þetta eru menn sem koma fram við börnin okkar eins og þau séu tilfinningalausir hlutir sem þeim sé frjálst að ráða yfir, eignast og misnota sér til kynferðislegrar ánægju. Þetta eru mannréttindabrjótar og nauðganir, sérstaklega á börnum, eru glæpir gegn mannkyninu.
Hvernig má það vera að allir séu ekki bálreiðir yfir þessu? Ég er öskuvondur.