Í skoðanakönnun Gallup fyrir RÚV um daginn kom fram að Arnbjörg Sveinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þriðji maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi væri í baráttusæti í Norðausturkjördæmi.
Ég persónulega má ekki til þess hugsa að Arnbjörg missi þingsæti sitt og tel að það yrði Austurlandi og Norðausturkjördæmi til skaða. Arnbjörg hefur barist vel og vasklega fyrir hagsmunum austfirðinga frá því hún komst á þing 1995. Þegar hún settist á þing 1995 braut hún blað í sögu Austurlands með því að verða fyrsta konan til þess að vera kjörin á þing fyrir kjördæmið. Árið 1999 braut hún aftur blað með því að verða fyrsta konan til þess að leiða lista í kjördæminu. Á alþingi hefur hún átt sæti í menntamálanefnd, samgöngunefnd, fjárlaganefnd og verið formaður félagsmálanefndar. Einnig hefur Arnbjörg átt sæti í Norðurlandaráði og er í dag varaformaður umhverfis og náttúruauðlindanefndar og í eftirlitsnefnd. Á Alþingi hefur Arnbjörg Sveinsdóttir beitt sér sérstaklega í byggðamálum, samgöngumálum og jafnréttismálum. Sem formaður félagsmálanefndar leiddi hún í gegnum þingið vinnu við fæðingarorlofsfrumvarpið sem hefur verið mært sí ofan í æ af öllum flokkum í kosningarbaráttunni. Hún flutti einnig tillögu um jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sú tillaga var leidd af henni til sérstakrar jarðgangnaáætlunar sem er nú að skila sér í tvennum jarðgöngum í Norðausturkjördæmi! Í fjárlaganefnd hefur hún beitt sér fyrir auknum fjárveitingum til jöfnunar búsetuskilyrða og menningar- og menntamála á landsbyggðini. Hún hefur einnig verið öflugur talsmaður virkjunar Kárahnjúka og álvers í Reyðarfirði síðan þeim hugmyndum skaut fyrst upp kollinum. Ég gæti talið upp fleiri dæmi en held að fólk sé að skilja hvað ég er að fara. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur verið að vinna vel fyrir fólk í Norðausturkjördæmi og Íslendinga alla.
Austfirðingar sýnum Arnbjörgu að við erum ánægð með störf hennar hingað til og sýnum henni svo ekki verði um villst að við treystum henni til þess að vinna áfram að hagsmunum landsmanna allra okkur á Alþingi næstu fjögur árin!
Ég skora á ykkur kæru íbúar Norðausturkjördæmis að taka saman höndum á laugardaginn og gefa Arnbjörgu Sveinsdóttur okkar umboð til þess að vinna málum íbúa Norðausturkjördæmis brautargengi á Alþingi. Styðjum okkar konu, verum blátt áfram setjum X við D næstkomandi laugardag og greiðum þannig fyrir enn bjartari framtíð Austurlands og Norðausturkjördæmis!