Í viðtölum við stjórnmálamenn, sér maður stundum ummæli eins og “skráði mig 16 ára í Sjálfstæðisflokkinn”, “var umhverfissinni frá því ég man eftir mér”, “Fæddist sósíalisti”. Svona ummæli fá mann aðeins til umhugsunar, því þessar yfirlýsingar eiga oft að tákna staðfestu umrædds stjórnmálamanns, í góðum skilningi.
Mér finnst þetta ekki bera vott um góðan kost hjá stjórnmálamanni, eða eitthverri manneskju, að ákveða áður en viðkomandi hefur náð fullum þroska hvað hans skoðun verður það sem eftir er lífs hans. Persónulega ber ég meiri virðungu fyrir þeim sem viðurkenna mistök sín en þeir sem þrjóskast áfram, hræddir við að viðurkenna mistök sín. Því það er jú erfiðara að viðurkenna mistök sín, sem getur einmitt falist í því að kyngja sannfæringu sinni jafnt á við annað.
Heyrði Yngva Hrafn, dagskrárgerðamann á Sögu, fara með þau ummæli í Ísland í dag, sem hljómuðu eitthvað á þann hátt að þeir sem væru Framsóknarmenn, dæju Framsóknarmenn. Þá menn hefur væntanlega skort gagnrýna hugsun, ekki það að stefna Framsóknarmenna sé ekki góð, heldur það að hún er ekki eina stefnan á Íslandi.
Fyrir þá sem vita ekki hvað felst í gagnrýnni hugsun, er skýringin eitthvað á þá leið að reyna að horfa á mál frá sjónarhóli allra hinna. Það gæti verið ágætt að lýsa þessu á við skákmann sem stendur upp, gengur yfir til andstæðingsins og horfir á stöðuna frá hans sjónarhorni. Það er best þekkta leiðin til að meta stöðuna sem upp er komin. Þá eftir hvern leik þarf skákmaðurinn að standa upp og meta stöðuna frá beggja sjónarhóli.
Því skora ég á þann sem les þessa grein og hugsar með sér að hann sé handviss um að hann fylgi réttri stefnu, kynna sér hugmyndafræði andstæðingsins og athuga hvort það sé eitthvað sem þér mun líka. Fólk er ekki í stjórnmálum til að gera öðrum lífið leitt, það vilja allir gera samfélagið betra, en munurinn er svo áherslurnar á betrumbætur.
Stjórnmál snúast svo um forgangsröðun, hugmyndafræði og afrek. Hvort fólk setur fyrir sig, í ákvarðanatöku á grundvelli gagnrýnnar hugsunnar er hjá sjálfum einstaklingunum í kjörklefanum, þar sem fólk stendur eitt með samvisku sinni.