Það þarf vart um það að deila að fjárfesting í menntun er ein sú arðbærasta sem nokkurri þjóð stendur til boða. Mannauðurinn er auðlind sem þarf að virkja, og á almennt að hafa forgang umfram aðrar. Það er hins vegar dapurlegt frá að segja að mannauðurinn er stórlega vannýttur hér á landi sem kemur fram í því að fjárframlög (fjárfesting) í menntun er mun lægri hér en td. á hinum norðurlöndunum og þeim OECD þjóðum sem okkur finnst við eiga mest sameiginlegt með. Á sama tíma og Svíar og Kanadamenn eyða um 7% af þjóðarframleiðslu í menntun erum við að basla við að ná 5%. Hérlendir stjórnmálamenn skilja ekki önnur verðmæti en fiska, lambaskrokka og álblokkir, þótt þeir tali fagurlega um menntun á tyllidögum. Þeirra hugarflug nær ekki lengra en það að hér eigi að vera þjóð sem framleiðir og selur lítt unna vöru af því taginu. Þeir leggja ofurkapp á að byggja stíflugarða til að stoppa eitthvað vatn frá því að renna út í sjó, en á sama tíma rennur mannauðurinn sjálfur óvirkjaður út í sjó.
Ekki er svo að skilja að vatnsaflsvirkjanir séu slæm hugmynd; það eru bara til arðbærari fjárfestingarkostir sem eru látnir ónýttir.
En nú ber nýrra við. Samfylkingin hefur kynnt tillögur í menntamálum sem eru þær merkilegustu sem hafa komið fram á Íslandi í a.m.k. hálfa öld. Þær eru í stuttu máli þær að auka útgjöld í málaflokknum um 12 milljarða á næsta kjörtímabili, með það að markmiði að fjölga langskólagengnum um 25% og auka þjóðarframleiðslu um ca. 1%. Nú hef ég starfað í stjórnmálum um margra ára skeið (en ekki með samfylkingunni eða vinstrimönnum áður) og reynt mikið til að hvetja til sóknar af þessu tagi í menntamálum, án árangurs. Viðhorfin sem ég hef mætt er ég búinn að tíunda hér fyrir ofan.
Nú er lag. ALLIR sem eiga sína framtíð undir menntun ættu að kjósa samfylkinguna nú á laugardaginn. Ef hún kemst til valda gæti Ísland loksins orðið það menntunar- og hátæknisamfélag sem það ætti að vera.