Nokkrar góðar ástæður fyrir því að kjósa Frjálslynda flokkinn!

Frjálslyndi flokkurinn skilgreinir sig þannig að hann sé hægra megin við miðju í íslenskri pólitík vegna þess að hann styður einkaframtak og frjálst markaðskerfi.

Hins vegar segja andstæðingar oft að flokkurinn sé vinstrisinnaður vegna þess að hann hefur lagt svo ríka áherslu á að bæta hag þeirra sem erfiðast eiga uppdráttar í samfélaginu, þ.e. fátækir, öryrkjar og eldra fólk. Og ef það heitir að vera vinstri sinnaður að vilja bæta hag þeirra, þá vill flokkurinn alveg vera það! Frjálslyndi flokkurinn hefur stutt öll mál sem að hann telur að komi þessum hópum til góða, hvaða flokkar sem hafa lagt þau fram.

Frjálslyndi flokkurinn hefur skýra stefnu í öllum málaflokkum, gott væri að lesendur færu inn á heimasíðu flokksins www.xf.is og leituðu að STEFNA og þar undir Málefnaskrá, þar eru allir málaflokkar og stefna flokksins varðandi þá.

Frjálslyndi flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur frá upphafi barist af hörku gegn því sem hann kallar gjarnan mesta óréttlæti Íslandssögunnar, kvótakerfinu, vegna áhrifa þess á byggðir landsins og hann hefur komið með skýrar og raunhæfar tillögur um breytingar.

Í skattamálum vill flokkurinn laga það sem brýnast er að laga, þ.e. lagfæra jaðarskatta og tekjutengingar sem eru að sliga þá sem lægst launin hafa og jafnframt hækka persónuafslátt því það kemur þeim lægstlaunuðu best.

Frjálslyndi flokkurinn leggst eindregið gegn allri sérhagsmunagæslu og vill sporna gegn þeirri tilhneigingu sem hefur vaxið mjög hjá Sjálfstæðisflokki að vilja draga úr allri samfélagsþjónustu sem kostur er. Þetta hefur sýnt sig í umræðum um að taka upp skólagjöld, hefur sýnt sig í hækkun komugjalda í heilsugæslu, hækkun lyfjakostnaðar o.sfrv.

Frjálslyndi flokkurinn mótmælti harðlega á þingi ábyrgð upp á 20 þúsund milljónir (20 milljarða) sem ríkisstjórnin ætlar að veita einkafyrirtækinu deCode.

Frjálslyndi flokkurinn mótmælti líka harðlega þátttöku Íslands í hernaðinum gegn Írak vegna þess að það hafði alltaf legið ljóst fyrir að Íslendingar ætluðu ekki að fara með vopnaburði gegn öðrum þjóðum.

Umhverfismál eru flokknum hugleikin. Hann er ekki á móti öllum virkjunum, en vill að stóriðja sé aukabúgrein í landinu. Aðalatriði stefnu flokksins er að nýta náttúruna án þess að eyðileggja hana. Þess vegna telur flokkurinn hentugt að virkja jarðvarmann betur, sbr. Nesjavallavirkjun - búnaðurinn við hana er allur afturkræfur þannig að náttúruspjöll verða lágmörkuð.

Flokkurinn lítur á sig sem Evrópuþjóð en er ekki hlynntur inngöngu í ESB ef við fáum ekki að halda fullum yfirráðum yfir okkar fiskimiðum. Flokknum finnst ekkert liggja á að kanna með aðild, hann vill sjá fyrst hver þróunin verður með þau 10 lönd sem eru nýgengin inn.

Flokkurinn er með mikið af öflugu hugsjónafólki á framboðslistum.

Þetta eru bara nokkrar góðar ástæður fyrir því að kjósa Frjálslynda flokkinn – það mælir miklu fleira með því! Skoðið www.xf.is