Það er ótrúlegt að sjá hvað margir sem skrifa á þennan ágæta vef eru gjörsamlega heilaþvegnir af hræðsluáróðri stjórnarflokkanna - og þá sér í lagi Sjálfstæðisflokksins. Dabbi kóngur kallar úr hásætinu - gerir gys að holdafari formanns Frjálslynda flokksins, segir að fátækt á Íslandi sé ekkert nema hugarburður Hörpu Njáls & Co. og setur allar tillögur stjórnarandstöðuflokkanna í einn hatt og lýsir því yfir kokhraustur, að Ísland og allir landsmenn verði allt að því gjaldþrota eftir fjögurra ára ógnarstjórn Sf, F og Vg. Hvers konar della er þetta eiginlega?!
Síðastliðin 12 ár hafa verið góð fyrir flesta landsmenn. Það er engin launung að Sjálfstæðismenn hafa átt sinn þátt í því, þó að þeir hreyki sér stundum einum of hátt af þeim framförum sem orðið hafa. Vissulega hafa þeir gert gott í mörgum málaflokkum, en gleymum ekki því að ytri aðstæður - þróun heimsins eftir fall múrsins, innganga í EES og fleira, hafa líka bætt lífskjör Íslendinga. Sjálfstæðismenn vilja gjarnan halda því fram að sömu aðstæður hafi ríkt á þessum tíma og á tímum þeirra vinstri stjórna sem klúðrað hafa málunum, en það er einfaldlega rangt.
Og hver segir að vinstri stjórn geti ekki stuðlað að áframhaldandi velgengni?
Það er alls ekki svo að þetta séu sömu flokkarnir og hafa komið óorði á vinstri stjórnir í gegnum tíðina. Samfylkingin á t.d. margt sameiginlegt með jafnaðarmannaflokkum stóru Evrópuríkjanna og það gleymist líka gjarnan að Frjálslyndi flokkurinn skilgreinir sig hægra megin við miðju. Sá flokkur mun ekki vera í forsvari fyrir ríkisstjórn sem eykur ríkisforsjá og tröllríður efnahagslífinu. Hann stendur fyrir auknu frelsi einstaklingsins til einkaframtaks, þó með ríkulegri áherslu á að allir njóti sömu réttinda til náms, heilsugæslu og vinnu. En hvers vegna ætli hann myndi fremur kjósa að vinna með flokkum vinstra megin við sig, en til dæmis Sjálfstæðisflokknum, sem við fyrstu sýn virðist vera tilvalinn samstarfsflokkur?
Jú, það er vegna málefnanna sem íhaldið hefur kosið að gleyma. Hvernig þeir hafa yfirgefið fyrri slagorð um stétt við stétt og tala nú máli fjármagnseigandanna. Jú, það er vissulega freistandi fyrir gráðugan mann að kjósa þann flokk sem lofar mestum skattalækkunum. En réttlætiskenndin hlýtur að vera meiri en svo í landsmönnum að það misbjóði þeim ekki við hvers konar kjör eldri borgarar, öryrkjar og einstæðar mæður (svo fátt eitt sé nefnt) þurfa að búa við. Mylsnan sem skiptist á milli þessarra gleymdu hópa er ekkert meiri núna en hún var fyrir 12 árum síðan, þegar Sjálfstæðismenn fóru “að stækka þjóðarkökuna” eins og þeir tala gjarnan um. Að verða vitni af margra klukkustunda biðröð við húsnæði mæðrastyrksnefndar fyrir hver jól hlýtur að vekja upp spurningar um það hvers virði það er í raun og vera að vera fimmta ríkasta þjóð í heimi, ef allir landsmenn geta ekki lifað af án þess að kyngja stoltinu og þiggja ölmusa! Fullyrðingar um að þetta séu einungis iðjuleysingjar og aumingjar, eru ekki til að auka veg talsmanna Sjálfstæðisflokksins, sem gjarnan beita slíkum særandi og óréttlátum málflutningi.
Já, fyrir komandi kosningar ættu landsmenn allir að velta því fyrir sér í hvernig landi þeir vilja búa í. Landi þar sem efnalitlu fólki er sópað undir teppið með sviknum kosningaloforðum eða landi þar stjórnvöld berjast fyrir litla manninum - berjast fyrir því að allir Íslendingar geti lifað mannsæmandi lífi.

Einkunnarorð frönsku byltingarinnar: “Frelsi, jafnrétti, bræðralag” hafa kannski aldrei átt betur við í íslenskum stjórnmálum en einmitt núna.


Taktu afstöðu, X-F