Í Fréttablaðinu í dag 5. maí er birt enn ein skoðanakönnunin. Ég tek það fram hér og nú að ég lít ekki á skoðanakannanir sem heilagan sannleik. En það getur verið gaman að rýna aðeins í þær og spá og spekúlera. Ég ætla aðeins að tala um þessa skoðanakönnun vegna þess að hún nær yfir allt landið. Hins vegar ætla ég ekki að taka allt landið og spá í því heldur ætla ég að taka út norðausturkjördæmi og segja ykkur af hverju ég tel hlutina vera eins og þeir eru í þessari könnun. Hér er niðurstaðan:
Framsóknarflokkurinn: 3 menn
Sjálfstæðisflokkurinn 3 menn
Samfylkingin: 2 menn
Vinstri-grænir: 1 maður
Frjálslyndiflokkurinn: 1 maður (uppbótarþingsæti)
Nýtt-Afl: 0 menn
Framsókn: Framsóknarmenn njóta án efa Valgerðar Sverrisdóttur og hennar framgöngu í álvers- og virkjunarmálum í kjördæminu, en er eðlilegt að kjósa hana út á það eitt? Ég vil einnig nefna Dagnýju Jónsdóttur sem að er þriðja á lista flokksins í kjördæminu. Stelpan er með munnin fyrir neðan nefið og hefur greinilega gaman af því að tala. Það er bara verst að hún notar of oft stór orð. Stóryrðin eru hinsvegar að skola henni inn á þing samkvæmt þessari könnun.
Samfylkingin: Það kemur svo mikil steypa út úr Kristjáni L. Möller að sjálfsagt mætti nýta eitthvað af henni í Kárahnjúkastífluna. Maðurinn talar í hringi og það virðist sem allt leiði til þungaskattsins. Þungaskatturinn er jú kosningarmálið í ár ekki satt? En best fannst mér þegar inn um bréfalúguna mína kom blað frá samfylkingunni, á forsíðunni var mynd af Ingibjörgu Sólrúnu, Einari Má, Kristjáni L. og Ellert Schram fyrir framan skilti Alcoa í Reyðarfirði. Þetta fannst mér nokkuð skondið því að var það ekki Ingibjörg Sólrún sem að studdi þessa framkvæmd ekki fyrr en skoðanakannanir sýndu að óhætt var að fara að taka afstöðu.
Sjálfstæðisflokkurinn: Halldór Blöndal hefur farið fyrir lista þeirra í kjördæminu af sinni einstæðu snilld. Það sem að hefur komið mér mest á óvart er hversu vel allir þeir sem að eru á lista flokksins eru vel að sér um hin ýmsu málefni ekki aðeins þeir efstu eins og oft vill verða. Sú staðreynd hversu vel þeir í raun standa í kjördæminu tel ég sýna hversu gott fólk er þar innanborðs, það segi ég vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið fyrir árásum úr öllum áttum og ekki síst frá Framsóknarmönnum í kjördæminu. Það væri óeðlilegt ef hinum flokkunum myndi ekki takast að kroppa eitthvað í fylgið miðað við þá árásarstefnu sem að þeir hafa framfylgt. En Sjálfstæðisflokkurinn stendur enn keikur og mun vonandi gera það um ókomna tíð.
Frjálslyndiflokkurinn: Frjálslyndiflokkurinn er náttúrulega að mestu eins máls flokkur en gott gengi þeirra í kjördæminu skrifa ég nær eingöngu á efsta mann á lista þeirra Brynjar F. Sigurðsson sem að er að ég tel að fá töluvert persónufylgi í þessum kosningum því að lítið fer jú fyrir málefnum þeirra. Þeir segjast hafa skýra stefnu í öllum málaflokkum en það vantar nú töluvert upp á það að mínu mati.
Nýtt-Afl: Ég verð nú eiginlega bara að lýsa eftir þessum flokki hér í Norðausturkjördæmi. Ég hef aðeins séð til eins manns á lista þeirra hér í kjördæminu, en það var efsti maður sem að var í umræðuþætti í sjónvarpinu. Það er að vísu svo að stór hluti fólksins á lista þeirra er búsett á suðvestur horninu og myndi ég meta það mikils ef þeir myndu hóa ef þeir fara eitthvað örlítið út fyrir Mosfellsbæinn.
Vinstri-grænir: Það væri þó aldrei nema þeir væru að súpa seyðið af því að vera á móti atvinnuuppbyggingu í kjördæminu. Ég held að fólk sé að senda þeim þau skilaboð að það þýðir ekkert að berjast á móti hagsmunum kjördæmisins og ætla að koma svo og biðja fólk að styðja sig. Þetta mál var allt of mikið tilfinningamál hér fyrir austan og það er langt frá því að vera gróið um heilt. Fyrir kosningarnar var helmingur þingflokks þeirra héðan úr kjördæminu en ég spái því að úrslitin hvað þá varðar verði svipuð og í könnunninni, Steingrímur J. verður sjálfsagt einn í flugvélinni á leiðinni suður á þingsetninguna í haust.
Ég held að úrslitin verði eitthvað í takt við þessa skoðanakönnun, ríkisstjórnin hefur unnið vel fyrir kjördæmið og er að uppskera ávextina af því núna.
Ríkisstjórnin á það einnig skilið að uppskera vel á landsvísu. Greiðum atkvæði með áframhaldandi stöðugleika. Verum Blátt Áfram, setjum Xið okkar við D næstkomandi laugardag.