Nú þegar aðeins sex dagar eru til kosninga og óðfluga styttist í það að endanleg niðurstaða komist í það hverjir muni stjórna landinu okkar næstu 4 árin er gaman að fylgjast með umræðu manna og kvenna um pólitík og þær skoðanir sem íbúar þessa lands bera í brjósti sér.
Mig langaði til að segja ykkur stutta sögu af sjálfum mér. Í gær lýsti ég nefnilega vanþóknun minni í útvarpinu, á fólki sem getur ekki sleppt því að fara út að skemmta sér innan um annað fólk án þess að vera með barmmerki í brjóstinu til að lýsa stjórnmálaskoðun sinni. Í gær lét ég mig þó hafa það að bregða mér út á lífið, svona rétt til að sjá aðra og ekki síst til að hlusta á það sem fólk hafði um að tala í Reykjavík síðasta laugardaginn á djamminu fyrir kosningar.
Ég tyllti mér á Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Ég hitti marga og það var hreint með ólíkindum hvað fólk vildi í miklu mæli, óbeðið, tjá sig við mig um pólitískar skoðanir sínar. Þrátt fyrir að ég vildi ekki gefa upp mínar mjög gjarnan.
Eitt stóð þó uppúr í umræðunum, en það var spjall mitt við huggulega konu, merkta með barmmerki sjálfstæðisflokksins í bak og fyrir. Hún var hin viðklunnalegasta og spurði mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég gaf henni það ekki upp og hún virtist af því draga upp þá ályktun að ég ætlaði ekki að kjósa hennar flokk. “Ekki ætlarðu að kjósa Samfylkinguna” spurði hún með fyrirlitningartón. “Ég tek alltaf endanlega ákvörðun í kjörklefanum” sagði ég. “Það hef ég alltaf gert”. Konunni var ekki skemmt. Hún spurði “viltu virkilega að það verði konur í amk. helming allra stjórnunarstaðna hjá ríkinu?”. “Það truflar mig bara ekki neitt” sagði ég. Huggulega sjálfstæðiskonan fussaði og sveiaði. “það væri nú bara upphafið af endanum” sagði hún.
Ég virti konuna betur fyrir mér. Langaði til að vera viss um að ég væri ekki að tala við hinn þjóðþekkta kynskipting Önnu Kristjánsdóttur. Nei þetta var ekki hún. Enda myndi Anna alveg örugglega líta jákvæðari augum á þátt kvenna í stjórnun þjóðfélagsins. Áfram hélt konan að ræða um þetta hræðilega mál, að henni fannst.
Ég benti henni hinsvegar á það að fyrir mína parta væru konur líklega jafnhæfar mönnum til að stjórna hvaða stofnun eða fyrirtæki sem er. Það eina sem stundum truflaði væri það að almættið hefði lagt það á herðar þeirra en ekki okkar að koma blessum börnunum í heiminn. Án barnanna ættum við ekki framtíð og konum skyldi ekki refstað fyrir það að hafa komið okkur öllum í heiminn.
Við þetta strunsaði huggulega sjálfstæðiskonan í burtu og vildi ekkert meira við mig tala.
Í þessari andrá rann upp fyrir mér það ljós að þarna sannaðist líklega hið fornkveðna. “Konur eru konum verstar”
Pistill sem lesinn var í þætti Jóa Jó á bylgjunni 4 apríl 2003