Eftirfarandi texta fékk ég sendan í rafpósti frá vinum mínum í Sjálfstæðisflokknum í dag:

“Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja stöðugleika við stjórn fiskveiða

Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um hagsmuni sjávarbyggðanna og styður ekki ábyrgðarlausar tillögur um þá byltingu fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa boðað. Fólk og fyrirtæki um allt land hafa tekist á hendur miklar skuldbindingar og fjárfest í greininni. Mikilvægt er að tryggja að fótum verði ekki kippt undan þeim með tilraunastarfsemi í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

Endurskoðun á fiskveiðistjórnuninni

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hafnað endurskoðun ýmissa þátta
fiskveiðistjórnunarkerfisins. Sjávarútvegsráðherra hefur lagt til stofnun sérstaks rannsóknarsjóðs til að auka afrakstur greinarinnar. Nefnd hefur verið stofnuð til að huga sérstaklega að líffræðilegri fiskveiðistjórnun. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafnaði hækkun kvótaþaks, samþykkti tillögu um línuívilnun sem skiptir smærri byggðir miklu máli og að sjálfstæðir rannsóknaraðilar hefðu aðgang að rannsóknum opinberra aðila.

Frjálslyndi flokkurinn og ”færeyska leiðin“

Frjálslyndi flokkurinn hefur lagst gegn framsali á veiðiheimildum en vill samt taka upp kerfi að færeyskri fyrirmynd. Flokkurinn virðist ekki átta sig á því að í Færeyjum er sóknardagakerfi með heimildum til framsals, þar sem dagarnir ganga kaupum og sölum. Það er misskilningur að kerfið sé opnara en íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Réttlæti Samfylkingarinnar

Tillögur Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum ganga út á það að taka veiðiheimildir af útgerðunum, setja heimildirnar á uppboð og skilja útgerðirnar eftir með skuldirnar. Sömu aðilar þurfa að steypa sér í meiri skuldir til að kaupa það sem tekið var af þeim -og þeir höfðu þegar keypt - og fjöldi þeirra mun sitja uppi með skuldir sínar án nokkurra veiðiheimilda.”



Tillögur Sjálfstæðisflokksins eru einu tillögurnar sem eru mér að skapi. Sjálfur kem ég úr sjávarplássi utanaf landi, og ég kæri mig lítt um að fótunum verði kippt undan þeirri sterku útgerð sem þar hefur verið byggð upp. Varðandi nýliðun í sjávarútvegi, er bara ætlast til að allir Íslendingar gerist þá tryllukallar? Fiskurinn er takmörkuð auðlind og það kemst bara takmarkaður fjöldi að.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _