Kosningar eru framundan og það hefur ekki farið framhjá neinum. Samfylkingar- og Sjálfstæðismenn eru fyrirferðarmesti hópurinn enda eru 70% kjósenda á þeirra línu. Sem betur fer hefur öfgaflokknum Vinstri-grænum verið ýtt út í horn. Ekki er lengur rifist um hvort leyfa eigi bjór- og léttvínssölu í verslunum, heldur hvenær það gerist og hvernig það er útfært. Ekki er lengur rifist um hvort frjáls verslun og viðskipti eru jákvæð eða neikvæð, heldur hvernig eftirliti er hagað með markaðnum og hve mikið svigrúm stærri fyrirtæki eiga hafa. Frjálslynd sjónarmið höfða nú til 80-90% kjósenda og það er há tala sem vert er að fagna. Gildir þá einu hvað er kosið á meðan það eru ekki Vinstri-grænir. Gott mál í alla staði.
Við erum hins vegar með okkar duttlunga og sérvizkur og höfum skoðanir á því hvernig stjórnvöld útfæra ýmsar ákvarðanir sínar. Þar er oftar en ekki reginmunur á Samfylkingar- og Sjálfstæðisfólki. Grunnhugsunin er oftar en ekki sú sama en útfærslurnar þveröfugar. Hvað má til dæmis menntun einstaklinga kosta ríkið? Á ríkið að borga meira með þeim sem fara í einn skóla en ekki annan? Á ríkið að hækka skatta og borga allar námsbækur? Á ríkið að lækka skatta og taka upp skólagjöld á háskólastigi og bjóða upp á ódýr lán til að mæta þeim? Á ríkið að hækka skatta og gera eitt, eða lækka skatta og láta markaðnum og einstaklingum eftir annað? Ekki ætla ég að ræða smáatriði þessa máls en svona er umræðan oftar en ekki.
En þótt slagorðin og loforðin séu svipuð meðal stóru framboðanna, og útfærslurnar lítið annað en endalaus tæknileg útfærsluumræðuatriði, þá verðum við að átta okkur á því hvað við erum að kjósa til framtíðar. Hvaða fólk mannar listana? Er þetta fólk sem kaus gegn EES, frjálsu útvarpi og bjórverslun á sínum tíma, eða fólk sem ekki bara í orði heldur verki fylgir hugmyndum um frjálslyndi og trú á framtak einstaklinganna og hefur gert og mun gera? Stjórnast frambjóðendur af skoðanakönnunum eða einhverri stærri mynd?
Það dylst líklega engum að ég er að flytja áróður með Sjálfstæðisflokki og gegn Samfylkingunni, án þess að eyða tíma í önnur framboð. Ég er glaður yfir því að frjálslynd viðhorf eru orðin eftirsóknarverð í hugum 90% kjósenda, en sé engan veginn hvernig er hægt að treysta öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum til að fylgja þeim eftir, í framtíð eins og í fortíð. Mér finnst það vera hollt og gott umhugsunarefni sem að mínu mati leiðir bara til einnar niðurstöðu.