Léttvín og bjór í matvöruverslanir
Eitt af stefnumálum Frjálslynda flokksins er að leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og lækka áfengisaldurinn niður í 18 ár. Það er algjör tímaskekkja í frjálslyndu þjóðfélagi á 21. öld að ríkið skuli hafa einkaréttinn á sölunni og fólk geti ekki keypt léttvín í búðum með steikinni og ostunum eins og fólk í nágrannalöndunum. Kannanir hafa sýnt að 67% landsmanna vilja leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum.
Undanfarin ár hefur orðið bylting í drykkjusiðum Íslendinga og vínmenning hér á landi talin hafa þróast í rétta átt. Rúmlega 95% alls áfengis er bjór og léttvín og hlutur þessara áfengistegunda er alltaf að aukast. Sala á sterku áfengi minnkaði um 5,4% milli áranna 2001 og 2002. Sala rauðvíns jókst um 14% og hvítvíns um 7,5%. Bjórsala um 6,4%. Þessu má þakka aukinni umfjöllum um vín, t.d. bókum eftir Einar Thoroddsen og Steingrím Sigurgeirsson, í dagblöðum, tímaritum, pistlum á Netinu og vínþætti í Íslandi í bítið. Enn er þó nokkuð í land að við drekkum jafnmikið af léttvíni og nágrannaþjóðir okkar. Við drekkum 9 lítra pr. mann en Danir 15-16 og vínþjóðir eins og Ítalir og Frakkar um 50 lítra pr. mann.
Verð á léttvíni myndi lækka við þessar aðgerðir vegna samkeppni og lækkun áfengisgjalds á 12-14% sterkt vín hjá ríkinu myndi koma mörgum flöskum undir þúsundkallinn aftur.
Færa má rök fyrir því að víndrykkja sé holl og hafa rannsóknir sýnt að hóflega drukkið rauðvín verkar eins og bólusetning gegn hjarta- og æðarsjúkdómum.
Í víni eru mörg efni sem koma úr jarðveginum, s.s. kalíum, natríum, kopar, fosfór, súlfat, zink, joð, kóbolt, klór, silicum, bor, bróm og flúor. Þessi efni eru líkamanum nauðsynleg. Vín lengir ekki bara lífið, það gefur því líka meiri fyllingu. Vín í matvöru- og sérverslanir! Enn ein ástæðan til að kjósa eff.