Ég var að lesa greinar eftir Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóra DV. Hann birtir ýmsar athyglisverðar staðreyndir um Bush og ráðamenn í bandaríkjunum. Frekar óhugguleg lesning.
Bush er pólitískt stórslys
New York Times segir í leiðara, að innanlandsstefna George W. Bush sé stórslys, eitt allsherjar járnbrautarslys. Stórfelldur hallarekstur ríkissjóðs og fyrirhugaðar skattalækkanir hans í þágu hinna allra ríkustu geri honum kleift að halda fram, að ekki séu til peningar í ríkissjóði til umhverfisverndar, heilsuverndar, menntamála og húsnæðismála. Blaðið nefnir fjölmörg önnur dæmi um, að Bush sé óvenjulega skelfilegur forseti, sem muni verða þjóðinni dýrkeyptur.
Stríð sem pólitískt eiturlyf
Í Guardian segir, að George W. Bush Bandaríkjaforseti þurfi reglubundið pólitísk eiturlyf á borð við stríðið við Írak til að halda völdum. Tvær milljónir starfa hafa farið forgörðum í Bandaríkjunum síðan hann tók við völdum og nærri fjórðungur hefur hrunið af verðmæti bandarískra fyrirtækja samkvæmt kauphallarskráningu. Ríkissjóður stóð vel, þegar Bill Clinton fór frá, en hefur farið á hvolf eftir að Bush tók við. Kjósendur hafa illan bifur á áformum hans um skattalækkanir, sem fyrst og fremst koma hinum allra ríkustu til góða.
Net Herstöðva
Bandaríkin eru að ríða net herstöðva um allan heim, þar á meðal á svæðum, þar sem þau hafa ekki verið áður. Bandarískir embættismenn segja, að þau hyggist hafa fjórar herstöðvar í Írak til frambúðar. Í tengslum við stríðið gegn Afganistan komu Bandaríkin sér upp herstöðvum níu löndum umhverfis landið. Viðræður standa yfir um bandarískar herstöðvar í Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu. Paul Wolfowitz, hugmyndafræðingur bandaríska stríðsráðuneytisins, sagði í viðtali við New York Times, að tilgangur bandarískra herstöðva væri meira pólitískur en hernaðarlegur. Þær sendi skilaboð til allra jarðarbúa um að halda sér á mottunni gagnvart Bandaríkjunum.
Sykurmenn gegn heilbrigði
Bandaríski sykurvöruiðnaðurinn er að reyna að koma Alþjóða heilbrigðisstofnuninni á hné með því að fá bandaríska þingið til að neita að borga til stofnunarinnar, ef hún fresti ekki birtingu ráðlegginga um mataræði. Í ráðleggingunum, sem birtar voru opinberlega í dag, er sagt, að sykur og sykrur megi ekki vera yfir 10% fæðunnar, en sykurvöruiðnaðurinn vill, að miðað verði við 25%. Sykurvöruiðnaðurinn neitar að viðurkenna, að gosdrykkjaþamb leiði til offitu, og telur sig njóta skilnings hjá núverandi forseta Bandaríkjanna, sem hefur reynzt vera afar fjandsamlegur alþjóðlegum stofnunum.
Skilja ekki íslam
Bandaríkjanna virðast ekki skilja að hugtök og orð hafa aðra merkingu í heimi íslams en á vesturlöndum. Þeir skilji ekki, hvernig hernaður þeirra í Írak hafa fyllt hjörtu almennings í miðausturlöndum af linnulausu hatri í garð Bandaríkjanna, sterkara vopni en flugher Bandaríkjanna. Þeir skilji ekki, hvernig tilraunir til að koma á bandarísku stjórnarfari í löndum íslams muni leiða til klerkastjórna að írönskum hætti.
Fullkomin Bandaríki
Ráðamenn Bandaríkjanna telja veraldarsöguna hafa endað með Bandaríkjum nútímans, sem séu hið fullkomna ástand mannkyns. Afganginum af heiminum gangi misjafnlega að laga sig að bandarískum nútíma. Skortur á þessari aðlögun sé einkenni á löndum múslima. Með hernaðarlegum afskiptum af miðausturlöndum séu Bandaríkin að trufla þróun þeirra og framkalla róttæka trúarhyggju og klerkastjórnir í þeim heimshluta.
Hvernig heim viltu?
Hvers vegna þurfti að slátra almenningi í Írak, þótt þar hafi ekki reynst vera nein gereyðingarvopn og engin uppspretta skæruhernaðar á Vesturlöndum. Er heimurinn reiðubúinn að samþykkja, að Bandaríkin geti ákveðið, hvaða ríkisstjórnum beri að velta úr sessi. Er heimurinn reiðubúinn að heimila Bandaríkjunum að sundra fjölþjóðastofnunum, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu, þremur mikilvægustu stofnunum laga og réttar í heiminum. Er heimurinn tilbúinn til að sætta sig við nýtt Rómarveldi, eða taka saman höndum um að verða ekki Írak morgundagsins.
Hægri sinnuð hefndarkirkja
Grundvallarágreiningur ríkir í kristinni kirkju um eðli föstudagsins langa. Milli manna meginstraums kristinnar kirkju á borð við Desmond Tutu, sem prédikar fyrirgefningu og góðvilja, og ofstækismanna hefndar, stríðs og manndrápa, sem einkenna Bandaríkin í upphafi 21. aldar og eru raunar við stjórnvölinn þar í landi. Íslensk lúterskirkja er nærri sjónarmiðum Desmond Tutu, en íslenskir ofsatrúarsöfnuðir, sem reka sjónvarpsstöðina Omega, standa nær illum anda amerísku línunnar. Dæmigert fyrir afvegaleiðingu hinna síðarnefndu er að telja ritninguna boða, að Ísrael eigi að stjórna lýðum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Þræla meira fyrir minna
Bandaríkjamenn vinna 1978 tíma árlega, níu vikum lengur en Evrópumenn, sem vinna 1628 tíma árlega. Bandaríkjamenn unnu raunar 199 tímum lengur árið 2000 en þeir gerðu árið 1973. Öll framleiðniaukning Bandaríkjanna á þessum tíma fór í að efla auðmagnið, en láglaunafólk hafði lægri rauntekjur árið 2000, en það hafði haft árið 1973. Venjulegur Norðmaður vinnur 29% minna en Bandaríkjamaður, en hefur þó aðeins 16% lægri tekjur. Evrópumenn hafa fimm-sex vikna sumarfrí, en Bandaríkjamenn aðeins tveggja vikna. Svona ólíkt er gildismatið austan og vestan Atlantshafs.