Veruleiki okkar er að miklu leyti ákvarðaður af fólki sem á eða hefur völd yfir miklu fé. Þrátt fyrir að lýðræðislegar stofnanir eins og Alþingi og sveitastjórnir hafa sjálfar mikið vald eru margar mikilvægustu ákvarðanir sem snerta almenning teknar á lokuðum fundum, handan afskipta þess. Nú er til að mynda orðið ljóst að Búnaðarbankinn og Kaupþing hafa ákveðið að sameinast svo úr verður einhver mesta samþjöppun valds og fjármuna í íslenskri sögu. Þessa ákvörðun tóku menn sem munu græða mikið á þessum samruna og ljóst er að ef samkeppni hefur í raun ríkt á fjármálamarkaðnum getur þessi nýi risi nú drottnað í lánaviðskiptum á Íslandi. Hópur innan Kaupþings og Búnaðarbankans hefur þegar sýnt tilburði í þá átt að vilja eigna sér sparisjóðina. Til að nefna annað mál sem skiptir alla Íslendinga máli en aðeins fáir ráða er vert að minna á þátt Burðaráss ehf. sem er í 100% eigu Eimskipafélagsins í þróun kvótamála. Eftir að hafa keypt upp nokkur af stærri útgerðarfyrirtæki Íslands, þ.m.t. Útgerðarfélag Akureyringa(98,7% í eigu Eimskipafélagsins) og Skagstrending(92,8% í eigu Eimskipafélagsins), ræður Eimskip nú í raun yfir allt of stórum hluta af dýrmætustu fyrrverandi eigu þjóðarinnar auk þess sem félagið á stóra hluti í Haraldi Böðvarssyni, Síldarvinnslunni og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (auk fjölda dóttur- og dótturdótturfélaga ofl.). Búnaðarbankinn á stóran hlut í Eimskipafélaginu, Stærsti hluthafinn er Sjóvá-Almennar og stærsti hluthafi þeirra er Burðarás sem einnig er stærsti hluthafi Flugleiða osfrv. osfr.v, þannig skarast völd í stóra samsteypu. Hlutafé Eimskips skv. skráningarlýsingu B.Í. árið 2002 er 4.193.464.843 kr. að nafnverði eftir hækkun hlutafés sem notað var til kaupa á bréfum í ÚA og Skagstrendingi. Adolf Hjörvar Berndsen þingmaður Sjálfstæðisflokksins var einmitt stjórnarformaður í Skagstrendingi hf. á árunum 1999 til 2002 og fékk eftir það starfsheitið stjórnarmaður í Brimi ehf. (sjávarútvegssvið Eimskipafélagsins). Nú eiga nokkur stórfyrirtæki langstærstan hluta kvótans. Vegna þessa og ótal fleiri mála er mjög mikilvægt að Alþingi sé óháð þeim sem stjórna öllu þessu fjármagni og völdum. Svo að almenningur geti í raun ráðið einhverju um sitt umhverfi og framtíð (lýðræði) þarf tryggingu fyrir því að þeir sem kjörnir eru í nafni almennings til að setja lög og stjórna landinu geri það með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Ef sömu mennirnir ráða á Alþingi og í stórfyrirtækjum eins og Burðarás og Búnaðarbankanum-Kaupþing eru völdin í of fáum höndum. Pétur H. Blöndal, stofnandi Kaupþings og sá sem seldi Kaupþing SPRON, er þannig dæmi um mann sem á alls ekki að vera á Alþingi. Sem forystumaður hóps sem vildi ná yfirráðum í SPRON og selja síðan hluti sína Búnaðarbankanum er ljóst sem endranær að þeir hagsmunir sem hann berst fyrir eru ekki alls almennings heldur valdamikilla fjármagnseigenda. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 1980 er einnig varaformaður bankaráðs Landsbanka Íslands og hlýtur að vera erfitt að meta hverra hagsmunir eru mikilvægari þegar báðir eru í húfi (ég ætla allavega rétt að vona það). Fáir Íslendingar eiga jafn valdamikla vini og núverandi Forsætisráðherra. Hvort sem það er Baldur Guðlaugsson, hrl., eða Hörður Sigurgestsson (núverandi stjórnarformaður Flugleiða) er ljóst að Davíð hefur átt góða að í Eimskipafélaginu í gegnum tíðina, sem sést hvað best á því að þegar Davíð var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins sat þáverandi stjórnarformaður Eimskips til borðs með honum og studdi. Það er líka athyglisvert hversu farsælan feril æskuvinir Davíðs hafa hlotið. Markús Örn Antonsson hefur setið í kóngastól í Rúv stóran hluta æfi minnar og Hrafn Gunnlaugsson hlýtur að vera orðinn styrkjakóngur íslenskrar menningar hvort sem einhverjum geðjist að myndum hans eða ekki. Ég er a.m.k. ekki tilbúinn að borga túkall af mínu skattfé í fleiri myndir eftir hann.
Engeyjarættin á alltaf sína föstu fulltrúa á Alþingi. Björn Bjarnason hefur verið duglegur að hræða okkur með hræðilegu kommunum sem vilja leggja undir sig landið og á eflaust nokkur góð ár eftir í því, hvort sem hann nær að lauma sér úr borgarslagnum eða ekki. Hinsvegar er Halldór Blöndal orðinn aldurshniginn og farinn að hugsa til notalegra daga á eftirlaunum. En við þurfum ekki að örvænta því Bjarni nokkur Benediktsson telst nokkuð öruggur inná næsta þing. Ljóst er að ýmsir sanntrúa nýfrjálshyggjubuxar þurftu að víkja fyrir Engeyjarmanninum, en eins og sannir sjálfstæðismenn kunna þeir að hlýða sínum meisturum. Nú er að sjá hvort Bjarni fái að deila almannafénu á rétta staði í framtíðinni. En slíkt eru getgátur og svívirðilegar í þokkabót, kanski er Bjarni kominn af eigin rammleik, sveittur eftir áralanga baráttu við fjandsamleg öfl. Einnig eru það tómar getgátur hvort hægt sé að borga Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum fyrir að sjá hlutina í sínu ljósi. Það væri hægt að kanna líkur á því með því að bera saman þingsályktunartillögur, atkvæði og slíkt við bókhald flokkanna til að sjá hvort krónutala vegi skoðanir. En því miður er bókhaldið lokað augum gagnrýninna augna svo að slíkt er ekki hægt svo að slíkar “dylgjur” eru fljótafgreiddar. Það er hneisa fyrir fólk sem telur að Alþingi eigi að vera skipað fulltrúum sínum. Það að við getum ekki sannreynt er jafnvel alvarlegra en ef sú er raunin.
En, eins og Framsóknarflokkurinn segir, stöðugleika viljum við hafa. Við höfum aldrei skuldað meira, margar stéttir á Íslandi vinna í raun heilum vinnudegi lengur en nágrannaþjóðirnar en fá samt minna borgað. Við borgum 70% hærra verð fyrir mat en EB þjóðirnar og leigjum íbúðir á yfir 1000kr/fm. en gefum auðvitað bara helminginn í skatt. Við innbyrðum meira af geðlyfjum en nokkur önnur þjóð en látum það samt viðgangast að láta geðfötluð börn búa í húsum vinnukeyrðra foreldra sinna. Já, segið það með stolti, Áfram Ísland.
[Nokkrar heimildir á netinu: http://www.vbs.is/Markadurinn/News.asp?NewsNumber=21685 , http://www.bi.is/verdbref/SkraningarlysingEIMSsept2002. pdf,