Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu 8. janúar s.l. segir m.a.
"Fyrsta samræmda stúdentsprófið verður haldið þann 8. janúar árið 2004. Þá verður einungis prófað í íslensku en árið 2005 verða einnig haldin samræmd stúdentspróf í stærðfræði og ensku.
[...]
Tilgangur samræmdra stúdentsprófa er m.a. að veita nemendum, framhaldsskólum og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsárangur nemenda og námsstöðu í þeim námsgreinum þar sem haldin eru samræmd stúdentspróf. Jafnframt er tilgangur prófanna að veita viðtökuskólum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda.
[...]
Lágmarkseinkunn til að standast samræmt stúdentspróf í einstökum greinum er 5 og verður sú einkunn ákvörðuð með greiningu á prófverkefnum þannig að einkunnin endurspegli skilgreindar lágmarkskröfur.“
Nú varð allt vitlaust hjá nemum og kennurum og varð þetta hitamál í umræðunni.
Eftirfarandi er úr grein notanda Huga.is frá 16. janúar:
”Skyndiákvörðunin að leggja próf fyrir á næsta ári kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir okkur sem erum búin að vera í amk. 2 ár í menntó. Okkur var ekki gefið tækifæri til þess að haga námi okkar eftir þessu (tæknilega séð vitum við ekkert af þessu ennþá). Fjölbrautarfólk er löngu búið að selja bækunar og týna glósunum síðan í íslensku 103."
Skiljanlega vegna skyndilegrar ákvörðun menntamálaráðuneytisins leituðu nemendur svara. Nemendur leituðu til nemendafélaga skóla sinna sem sentu svo málið áfram til Félags Framhaldsskólanema. Félag Framhaldsskólanema (F.F.) eru hagsmunasamtök nemenda í 28
framhaldsskólum á Íslandi. Félagið var stofnað með því markmiði að
standa vörð um hagsmuni nemendafélaga aðildarskólanna og koma þeim hagsmunum á framfæri.
Menntamálaráðuneyti hefur nú gefið út nýja reglugerð um samræmd stúdentspróf. Í reglugerðinni er komið til móts við ALLAR athugasemdir Félags framhaldsskóla og Félags framhaldsskólanema við fyrri reglugerð en reglugerðin hefur verið rædd á fundum sem ráðuneytið hefur haldið með fulltrúum þessara félaga.
Helstu breytingar á reglugerðinni eru eftirfarandi:
Fyrsta samræmda stúdentsprófið verður haldið einni önn síðar er ráð var fyrir gert í fyrri reglugerð. Fyrsta prófið verður því haldið í íslensku í maí 2004.
Þeim nemendum sem útskrifast með stúdentspróf í lok vor- eða haustannar árið 2004 er ekki skylt að þreyta samræmd stúdentspróf á árinu 2004 en þeim stendur til boða að taka próf í íslensku í maí eða desember 2004.
EKKI VERÐUR KRAFIST LÁGMARKSEINKUNNA Á SAMRÆMDUM STÚDENTTSPRÓFUM.
Í ljósi liðinna atburða er deginum ljósara að allir geta verið sáttir við núverandi reglugerð. Komið var til móts við allar athugasemdir F.F. eins og áður kom fram, og því ætti enginn að geta kvartað núna.
Það sem er hvað athyglisverðast við þetta hitamál er sú staðreynd að Samfylkinginin ætlar að nýta sér mótstöðu unga fólksins í þessu máli og hefur gefið út yfirlýsingar um að Samfylkingin sé ekki hlynnt þessum prófum. Svo einkennilega vill til þegar tillagan kom á borð á haustdögum þingsins mælti ENGINN FULLTRÚI SAMFYLKINGARINNAR á móti henni. Það þykir einkennilegt svo ekki sé meira sagt.
Nemendur verða að bíta í hið súra epli vegna þess að samkeppnin á vinnumarkaðinum fer ört vaxandi, og eðlilega vilja sérstakar deildir á háskólastigi fá einstaklingana sem henta þeim best inn til sín. Prófin eru vinnumarkaðinum og þjóðinni öllum til hagsbóta, því ef sem best er skipað í allar stöður í samfélaginu virkar það allra best.
Samræmd stúdentspróf eru því öllum til hagsbóta!
——
Reglugerðina má nálgast í heild á vef Menntamálaráðuneytisins, www.menntamalaraduneyti.is.
Aðrar heimildir: http://www.effeff.is og http://www.hugi.is.