Nú hafa orðið stórtíðindi í Noregi. Stoltenberg forsætisráðherra þeirra hefur ákveðið að hætta við þrjár stórar vatnsaflsvirkjanir á árinu og segir að óspillt náttúra sé að verða svo dýrmæt að nú sé rétt að gefa henni frið.
Viðbrögð náttúrusvínanna í framsókn og sjálfstæði eru náttúrulega háðsleg og niðurlægjandi fyrir allt vitiborið fólk:
Arnbjörg Sverrisdóttir, sjálfstæð í austri segir: “Norðmenn hafa aðra orkugjafa en við og búa við aðrar ástæður. Við eigum nóg víðerni og ég sé ekki að við séum komin að neinum endamörkum.”
Halldór Ásgrímsson, framsæknastur Íslendinga segir: “Það er allt önnur staða í Noregi en á Íslandi. Þeir hafa verið í því að virkja alla síðustu öld og eiga ekkert annað en náttúruperlur eftir. Við erum miklu skemmra á veg komin.”
Guð hjálpi þessu fólki. Skilningleysið og blindan er alger. Hvaða máli skiptir það þó að Norðmenn séu búnir að virkja í 100 ár? Þeir eiga margfalt stærra land og eru þar að auki margfalt fleiri þannig að eðlilega þurfa þeir meiri orku. Eins og staðan er í dag fara um 55% af allri orku sem framleidd er á Íslandi í stóriðju og öll sú aukning sem kæmi til vegna virkjana norðan Vatnajökuls færi beint í stóriðju sem er ekki einu sinni víst að verði byggð. Orkuþörfin er þess vegna hvorki raunveruleg né örugg og þannig óþörf. Hvað snertir magn víðerna er það hreint út sagt fáránlegur málflutningur að halda því fram að við séum ekki komin að endimörkum eins og Arnbjörg vill halda fram. Er það ekki einmitt sérstaða íslenska hálendisins hvað það er stórt? Um er að ræða heild svæða sem eyðileggst verði hún rofin með jafn hrikalegum lónum og stíflum og ráðgert er auk meðfylgjandi vegagerð og umferð þungavinnuvéla. Þetta er eins og segja að það sé allt í lagi að drepa 300 palistínumenn því það séu svo margir eftir. Og annað: Hversu mikið haldið þið að vélarnar brenni af olíu á byggingartímanum? Þetta eru nú ekki beint sparneytin tæki. Halldór Ásgrímsson segir Norðmenn bara eiga náttúruperlur eftir og þurfi þess vegna að hætta að virkja. Fyrir það fyrsta er fegurðarmat á náttúru ákaflega afstætt og eins og hann bendir á hafa norskir nú virkjað í 100 ár og ekki séns að Halldór geti metið hversu miklar skemmdir hafa orðið í núverandi stíflustæðum og hvort að þar hafi ekki verið náttúruperlur á sínum tíma. Auk þess sem hann bendir ósjálfrátt á hversu gamaldags fyrirbæri vatnsaflsvirkjanir eru með yfirlýsingu sinni.
Þetta er bara enn eitt dæmið um það hvað umræða um náttúruvernd á Íslandi er á lágu plani og hvað ráðamenn þjóðarinnar eru hrikalega langt á eftir í öllum dýpri pælingum um málið og sinna lítið alþjóðlegum skyldum sínum á þessu sviði.
(fréttin um þetta er á visir.is)