Höldum okkur við röðina:
1. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þingmenn í öllum löndum stundi það að setja lög að ástæðulausu, dæmin eru mýmörg. Einhver benti t.d. á það að Í faðirvorinu væru 69 orð, boðorðin tíu hefðu að geyma 92 orð og sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna 302 orð. Enska útgáfan af leiðbeiningum Evrópusambandsins um innflutning á andaeggjum væri hins vegar 26.911 orð. En við eigum líka alíslensk dæmi um óþarfa lagasetningu: lög um starfsréttindi tannsmiða, orkunýtnikröfur, eftirlit með útlendingum, álbræðslu á Grundartanga, vöruhappdrætti SÍBS, byggingarsamvinnufélög, leiklistarlög, listskreytingar opinberra bygginga, og þar fram eftir villigötum.
2. Raunar skilst mér að hin nýfrjálsu ríki Mið-Evrópu séu með talsverða löggjöf í þessa veru, aðallega til þess að stemma stigu við hugsanlegri afturgöngu kommúnismans. En á Englandi er t.d. afar lítið kveðið á um fjármál stjórnmálaflokka, en á hinn bóginn eru nokkuð strangar reglur um fjárreiður einstakra þingmanna. En eins og áður var getið eru þessi lög oftast sett fyrst og fremst til þess að gæta jafnræðis í útdeilingu opinberra styrkja, sem þessir herrar skammta sér.
3. Við setjum ekki um lög um bann við því að segja ósatt vegna þess að við vitum að engin leið væri að fylgja þeim eftir. Alveg eins er eftirlit með heiðarleika stjórnmálaflokka betur tryggt með öðrum hætti en mjúkmálli lagasetningu, sem þjónaði einungis þeim hagsmunum að friða samvisku einhverra. Slík lagasetning myndi á hinn bóginn vafalaust slæva árvekni manna á öðrum sviðum og veita falskt öryggi.
4. Brot á lögum gera þau vitaskuld ekki óþörf, en ef lög eru almennt ekki virt (og þeim ekki framfylgt) eru þau verri en engin. Þorri fólks fylgir umferðarreglum og þeir sem brjóta af sér mögla sjaldnast af því að þeim finnist reglurnar óréttmætar. En raunar er það ekki einhlítt eins og nýuppkveðnir sýknudómar í hraðakstursákærum bera með sér.
5. Ég tel það fullvíst að úr framlögum myndi draga ef þau væru gerð opinber. Þau myndu a.m.k. ekki aukast og ég hef enga trú á því að þau stæðu akkúrat í stað. Það þarf ekkert sérstaklega lítil samfélög til þess að stuðningur við stjórnmálaflokka geti verið þeim fjötur um fót. Manstu t.d. eftir því þegar nokkrir valinkunnir menningarbokkar lýstu yfir stuðingi við Sjálfstæðisflokkinn (undir stjórn DO) hér í borginni? Sumir þeirra voru gersamlega settir út af sakramentinu hjá menningarelítunni fyrir svikin; útgáfusamningar duttu upp fyrir, gagnrýnin harðnaði, TMM hætti við greinarbirtingar o.s.frv. Ég held að menn séu almennt ekki jafnheitir út af pólitíkinni og áður, en margir eru það þó enn. Hvenær heldur þú t.d. að góður kommi hafi síðast verið ráðinn til Heklu ef marka má Buddy?
6. Ég skrifa ekki undir það að gegnsærra þjóðfélag sé endilega betra. Mig varðar ekkert um allar ástæður athafna náunga míns. Og ef óskalögin þín koma ekki í veg fyrir glæpinn… þá eru það augljóslega ónýt lög.
7. Opið bókhald stjórnmálaflokka gengur gegn stjórnarskrárbundnum rétti einstaklingsins til að tjá sig og sínar skoðanir vegna þess að fjárframlög eru tjáning og meira að segja merkilegri tjáning heldur en gaspur á torgum úti. Kanarnir segja “Put Your Money Where Your Mouth Is” og það er nákvæmlega það sem menn eru að gera. Með því að opinbera það geturðu allt eins krafist þess að sérhver þjóðfélagsþegn gefi upp skoðanir sínar á hinu og þessu undir nafni. Áður en þú vissir af væri afstaða manna til náungans farin að helgast af útgefinni afstöðu þeirra til mála eins og fóstureyðinga, áfengislöggjafarinnar og umhverfisverndar. Eða afstöðuleysis til sömu málefna. Ég er þeirrar skoðunar að sérhver maður skuli vera frjáls til þess að hafa skoðanir á því sem honum sýnist og öðrum komi þær ekki við. Hvar og hvernig hann kýs að tjá skoðun sína eða leggja tilteknum málstað lið (hvort sem það er Hundaræktarfélagið eða Vinstrigrænir) kemur öðrum ekki heldur við.
8. Skattskýrslur eru reyndar ekki birtar heldur álagningarskrá. Og jú, mér finnst það freklegt brot á friðhelgi einstaklingsins að birta þær. Uppgefin ástæða fyrir þessu fyrirkomulagi er að með því sé aukið aðhald að skattsvikurum landsins. Samt sem áður hefur margoft komið fram hjá skattyfirvöldum að kærur í kjölfar þessarra birtinga sé sárafáar og allar hafi þær reynst á misskilningi byggðar. En jafnvel þó svo að þetta aðhald skilaði einhverju finnst mér það jafn ógeðfellt og hin stalíníska upphafning á hinum 14 ára gamla Pavlik Morozov, sem sveik foreldra sína í hendur KGB fyrir að hafa skotið skjólshúsi yfir bændur á flótta undan þjóðnýtingarherliðum Stalíns. Lög, sem breyta borgurunum í njósnara um granna sína eru ill í eðli sínu. Enda hefur auðvitað komið á daginn að lögin eru aðeins til tvenns nýt: að kynda undir öfund þeirra, sem hyggja auð í annars garði, og að auðvelda vondum fyrirtækjum að senda út ruslpóst. – Hvað varðar styrki til stjórnmálaflokka eða félagasamtaka, þá getur vel verið að þú myndir ekkert skammast þín fyrir að gefa þig upp. En þú mátt ekki dæma aðra út frá sjálfum þér. Ég hugsa t.d. að ekki væru allir tilbúnir til þess að gefa upp stuðning sinn við Alnæmissamtökin, Búkollu, Bréfdúfnafélag Reykjavíkur, Félags íslenskra þjóðernissinna, Flokk mannsins, Geðhjálp, Herpesfélagið, Hvalfriðunarfélagið, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Ómegu, Reykjavíkurakademíuna, SÁÁ, Samtökin '78, Stjörnulíffræðifélagið og Þungarokksklúbbinn Lubba, svo nokkur séu nefnd.
9. Eru þetta ýkjur hjá mér? Það er rétt hjá þér að meirihluti þjóðarinnar er ekki skráður í stjórnmálaflokka, en verulegur fjöldi er það. Og það hlýtur að vera skýlaus krafa í lýðræðisþjóðfélagi að þriðji aðili færi ekki til bókar hjá sér stjórnmálaþátttöku þegnanna. En flokkarnir eru auðvitað mjög missterkir í flokksstarfi sínu. Þannig eru fleiri félagar í samtökum ungra sjálfstæðisfélaga en í öllum hinum flokkunum samanlagt burtséð frá aldri. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að í Sjálfstæðisflokknum séu ríflega 15.000 manns og samanlagt í hinum flokkunum eru um 5.000 manns. Flokksbundnir eru því rúm 10% kjörskrár, en það breytir ekki hinu að þetta fólk á nákvæmlega sama rétt og aðrir á því að þurfa ekki að gefa sig upp frekar en það vill á almennum vettvangi.
10. Auðvitað er staðhæfingin hjá þér um að það sé “augljós staðreynd að sá flokkur sem einmitt hefur drekkhlaðnar kistur gulls hefur einmitt mest tök til að ná til kjósenda” tómt bull. Það er ekki staðreynd og þaðan af síður augljós ályktun. Ef svo væri hefði ekkert þurft að þvarga um atkvæðamun þeirra Gore og Bush í Flórídu, því að Steve Forbes hefði rúllað þessu upp. Alveg eins og að Tony Blair hefði ekki bara tapað fyrir John Major, heldur líka fyrir Jerry Goldsmith heitnum. Og hvernig í ósköpunum skýrir þú þá tap Samfylkingarinnar, sem eyddi 70 milljónum í kosningabaráttuna á meðan Sjálfstæðisflokkurinn eyddi 40 milljónum og Vinstrigrænir tæpum tíu milljónum?